Haustsýning Kynjakatta í Grindavík
Haustsýning Kynjakatta verður haldin í Reiðhöllinni í Grindavík nú um helgina. Að sögn Guðbjargar Hermannsdóttur, formanns Kynjakatta, verða margar tegundir katta til sýnis og ræktendur þeirra á staðnum svo gestir geta fræðst um eiginleika hverrar tegundar. Á sýningunni verða norskir skógarkettir, Main Coon, Abyssinian, Bengal, Persar, hinn hefðbundni íslenski húsköttur og jafnvel fleiri tegundir.
Sjálf ræktar Guðbjörg norska skógarketti og kemur með fimm kettlinga á sýningunna, auk fullorðinna katta. Hún segir óvenju marga kettlinga verða á sýningunni um helgina. Brimfaxakonur munu selja veitingar og á sýningunni verða söluaðilar með fóður, sand, kisudót og fleira.
Sýningin mun standa frá klukkan 10 til 16 á laugardag og sunnudag. Þema sýninganna verður Hrekkjavaka. Dómarar verða þau Annnette Sjödin frá Svíþjóð, formaður FIFe og Stephe Bruin frá Hollandi.
Á myndinni má sjá Main Coon læðurnar Lillu og Kleó nýkomnar úr baði og blæstri fyrir sýninguna um næstu helgi. Main Coon kettir eru þekkir fyrir að vera stórir en læðurnar verða allt að 5 til 7 kíló og högnarnir 7 til 9 kg. VF-mynd/dagnyhulda