Haukur Ingi keppir gegn Grindvíkingum í kvöld
Í kvöld fer fram hörkurimma í spurningaþættinum Útsvari þar sem eigast við nágrannarnir Reykjanesbær og Grindavík. Liðin eru skipum sama fólki og í fyrra en þó hefur orðið ein breyting á liði Reykjanesbæjar þar sem knattspyrnumaðurinn Haukur Ingi Guðnason kemur inn fyrir Theódór Kjartansson. Við heyrðum frá þeim Hauki Inga frá Reykjanesbæ og Agnari Steinar forvitnuðumst um rimmu kvöldsins sem hefst klukkan 20:10.
Agnar Steinarsson er einn af fulltrúum Grindavíkurbæjar sem etja kappi við Reykjanesbæ í kvöld klukkan 20:00. Agnar segist hlakka til að mæta nágrönnunum og neitar því ekki að örlítil Derbystemning sé að myndast og spennan mikil fyrir viðureigninni.
„Mér líst sérstaklega vel á þennan grannaslag í fyrstu umferð og örlítil „derbystemning“ sem liggur í loftinu. Það verður gaman að mæta svona skemmtilegu og sterku liði. Margir hafa haft á orði að þetta verði nú eini þátturinn okkar í ár því þau í Reykjanesbæ hafa verið svo fjári góð síðustu árin,“ segir Agnar léttur í bragði.
Agnar vill ekki meina að þau hafi æft stíft þar sem fyrirvarinn hafi verið stuttur en þó hafi verið teknir tveir fundir þar sem leiklistin hafi verið æfð. „Okkur leist ekkert á blikuna eftir fyrsta þáttinn, hann var svo erfiður þannig að hópurinn var kallaður saman til æfinga.“
Agnar segist vera spenntur fyrir kvöldinu og það sé alltaf nokkuð sérstakt þegar stefið fari í gang og skyndilega er maður kominn í beina útsendingu. Þegar Agnar er spurður um hvernig viðureignin fari í kvöld þá segir hann að liðið muni gera sitt besta og það sé alls ekki hægt að ganga að neinu vísu í þessari keppni. Hann segist ekki beint vera með eitthvert sérsvið en þó sé hann sterkur í líffræði enda menntaður líffræðingur. „Það er orðið langt síðan maður las skólabækurnar og það er engin trygging fyrir réttum svörum, maður hefur þó eitthvað rifjað upp,“ segir Agnar.
Fyndið að vera í þessari stöðu
Haukur Ingi Guðnason er óneitanlega í sérstakri stöðu en hann keppir fyrir hönd Reykjanesbæjar í ár í fyrsta sinn. Hann leikur knattspyrnu með Grindvíkingum í Pepsi-deildinni og keppir því í raun gegn félögum sínum í kvöld. „Þetta er í raun bara nokkuð fyndið, en fyrst og fremst er þetta skemmtiþáttur þannig að menn eru ekkert að taka þetta of hátíðlega,“ segir Haukur sem hefur verið afar upptekinn í aðdraganda keppninnar. „Þetta kom bara upp fyrir nokkrum dögum og ég hef nánast ekkert haft tíma til að undirbúa mig. Við hittumst þó yfir málsverði og ræddum málin. Við æfðum ekkert leiklistina eða neitt slíkt enda segja þau Baldur og Hulda að það sé best að hafa bara eðlilegt flæði í þessu og einhver kerfi hafi ekki verið að skila sér.“
Haukur hefur ávallt verið annálaður áhugamaður um spurningakeppnir og keppti m.a. fyrir hönd FS í Gettu Betur á sínum tíma. „Ætli það séu ekki komin 15 ár síðan en við stóðum okkur vel og af einhverjum óútskýranlegum ástæðum fórum við ekki í sjónvarpið, það hef ég aldrei skilið,“ segir Haukur. Hann segir sitt sérsvið vera íþróttirnar, það liggi beinast við, en þó sé það ekkert sérstakt sem hann leggi áherslu á og ef liðið kemst í næstu umferð þá muni hann rifja frekar upp gömlu taktana enda segist hann hafa fylgst minna með íþróttunum undanfarin ár.
Eins og áður segir er Haukur í fremur sérstakri stöðu en hann segist þó ekki hafa orðið var við skot eða glósur frá liðsfélögum sínum. „Ég er ekki viss um að liðsfélagarnir mínir í Grindavík viti af því að ég sé að fara að keppa gegn heimabæ þeirra í kvöld. Ætli það verði ekki þannig að ég fari beint af æfingu með Grindvíkingum upp í sjónvarpssal að keppa gegn Grindvíkingum,“ sagði Haukur Ingi Guðnason að lokum.
Myndir: Að ofan er nýtt lið Reykjanesbæjar þar sem Haukur Ingi er fyrir miðju ásamt Huldu Geirsdóttur og Baldri Guðmundssyni og á neðri myndinni er Agnar Steinarsson en liðsfélagar hans í kvöld eru Daníel Pálmason og Margrét Pálsdóttir.