Hátíðlegt að fermast í kirkju
segir Grindvíkingurinn Sigurbjörn Gabríel Jónsson
„Ég trúi og vill ganga í lið Guðs og í leiðinni er ég að staðfesta skírnina á fermingardaginn minn. Seinasta sumar byrjaði ég að hugsa um það að fermast því krakkarnir í bekknum voru að tala um þetta. Svo ræddi ég málin við mömmu og pabba og þau sögðu mér frá því hvað gerist þegar við fermumst. Við ákváðum að ég myndi láta ferma mig því mig langaði til þess. Mér finnst hátíðlegra að fermast í kirkju í heimabæ mínum með öllum bekkjarfélögum mínum,“ segir Grindvíkingurinn Sigurbjörn Gabríel Jónsson.
„Ég er alveg búinn að læra um Jesú í vetur og hvernig manneskja hann var og hvernig hann kom fram við fólk. Svo lærum við utanbókar Trúarjátninguna og fleira en ég kunni Faðir vorið, foreldrar mínir fóru alltaf með það með mér áður en ég fór að sofa þegar ég var lítill. Við eigum að læra bænir og vers í fermingarundirbúningnum. Á fermingardaginn fer ég með versið í kirkjunni: „Drottinn er í nánd.“ Veislan verður haldin í Garðinum með frænku minni sem er einnig að fermast en við erum mjög góðir vinir. Ég var að hugsa að mig langar að hafa mini hamborgara frá Hamborgarafabrikkunni og kannski verða kökur líka. Foreldrar okkar eru farnir að ræða saman um veisluna, um skreytingar og fleira, og eru að spyrja okkur hvaða liti við viljum hafa í veislunni. Á fermingardaginn ætla ég að vera í dökkbláum jakkafötum með þverslaufu og í leðurskóm og fer örugglega í klippingu en ekkert annað. Ég er mjög mjög spenntur fyrir deginum og veislunni.“