Hátíðlegir jólatónleikar með Kristjáni og félögum í Stapa
Kristján Jóhannsson, stórtenór og söngvinir hans ásamt Kór Keflavíkurkirkju fóru á kostum á jólatónleikum í Stapa í gær.
Það var sannkölluð jólastemmning á tónleikunum og flytjendurnir auk Kristjáns voru Jóhann Smári Sævarsson, Rúnar Þór Guðmundsson, Anton Sigurðsson og Valgerður Guðnadóttir og sungu þeir ýmist einir eða með kirkjukórnum sem kom einnig fram í Bústaðakirkju með Kristjáni og öðrum söngvurum daginn áður. Undirleik annaðist Jónas Þórir en Aðalsteinn Ólafsson söng einnig dúett með Antoni í einu laganna.
Í lokin söng allur hópurinn „Heim um ból“ og var það mjög hátíðlegt.
Þetta var í annað sinn sem Kristján söng í nýuppgerðum Stapanum en hann hefur lofað salinn og flygilinn. Það eina sem vantaði var fleira fólk því tónleikarnir voru frábærir og gaman að sjá Kristján syngja með okkar fremstu söngvurum og kirkjukórnum.
Jóhann Smári er bassi á heimsmælikvarða að sögn Kristjáns Jóhannssonar og hann sýndi það með frábærum flutningi.
Vala Guðnadóttir söng af innlifun tvö falleg jólalög og gerði það mjög vel.
Rúnar Þór Guðmundsson er fremsti tenór Suðurnesjamanna og hefur vakið athygli í Noregi þar sem hann hefur dvalið undanfarið. Hér er hann með kirkjukórnum undir stjórn Arnórs Vilbergssonar.
Anton Sigurðsson er ungur tenór úr Grindavík og nemur hjá Kristjáni. Hér er hann í dúett með Aðalsteini Ólafssyni. VF-myndir/Páll Ketilsson.