Hátíðin gæti hvergi annars staðar verið
– Ásbrú hentar fullkomlega fyrir ATP
ATP tónlistarhátíðin vakti mikla lukku þegar hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra á Ásbrú. Gamla varnarsvæðið brá sér þar í nýjan búning sem féll vel í kramið hjá tónþyrstum gestum sem komu hvaðanæva að úr heiminum. Keflvíkingurinn Tómas Young skipulagði hátíðina en hann segir að allt hafi gengið snurðulaust fyrir sig. „Það er í raun lyginni líkast hvað þetta heppnaðist vel. Ég vissi að ég væri með góðan hóp af fólki í kringum mig en það gekk allt upp. Við fengum ekki eina kvörtun vegna hátíðarinnar,“ segir Tómas.
Ótrúleg fjölgun erlendra gesta
Allir gestir virðast hafa farið sáttir heim. Nú í ár er mikil aukning á erlendum gestum, en í fyrra voru rúmlega 200 gestir erlendis frá sem borguðu sig inn á hátíðina. Eins og staðan er í dag þá eru um 1.300 erlendir gestir væntanlegir erlendis frá á hátíðina í júlí. Byrjað var að undirbúa hátíðina um leið og þeirri síðustu lauk og Tómas segir það vera að skila sér í töluverðri aukningu. Gott orð fór auk þess af hátíðinni og það hefur óneitanlega sitt að segja.
„Fólk kepptist við að lofa hátíðina. Þetta var eftirminnileg hátíð og nægir þar að nefna þegar Nick Cave datt af sviðinu. Hann var í miklu stuði þrátt fyrir byltuna, kannski að hún hafi gert honum gott,“ segir Tómas léttur.
Öll gisting uppseld
Gistingin varð fljótlega af skornum skammti en öll gisting í Reykjanesbæ er fyrir löngu uppseld. Einhverjir gestirnir gista í Reykjavík en þeir nýta sér rútuferðir á milli. „Það sem er að hamla mér í að taka á móti fleiri erlendum gestum er sú staðreynd að gistingin er búin að sprengja utan af sér. Ég myndi vilja geta tekið við fleiri gestum. Við erum að nýta alla þá gistiaðila sem eru uppi á Ásbrú.“ Það geta verið um 5000 manns í Atlantic Studios þar sem tónleikarnir eru haldnir. Þar er aðstaða með besta móti og voru margar stórstjörnurnar yfir sig hrifnar í fyrra. Tómas segir að margir hafi hrifist af húsnæðinu. Þar sé hljómburður góður og aðstaða öll til fyrirmyndar. „Þetta hús er fullkomið til tónleikahalds. Þar er allt til alls. Hljómsveitirnar voru alveg að missa sig yfir aðstæðum þar,“ segir Tómas og bætir því við að hljómsveitir hafi m.a. sent þakkarbréf þar sem umgjörð og skipulag hátíðarinnar voru lofuð í hástert.
Bæjarbragurinn breytist
Bæjarlífið í Reykjanesbæ breyttist óneitanlega nokkuð á meðan á hátíðinni stóð enda töluvert af fólki á ferli sem þurfti afþreyingu og veitingar. „Ég hef heyrt af því að margir útlendingar hafi verið á ferðinni í Reykjanesbæ. Það voru t.d. frægar hljómsveitir að skemmta sér í miðbænum og segja mætti að bæjarbragurinn hafi verið með öðrum hætti. Það var mikið af fólki frá okkur í Bláa lóninu og sundlaugunum í bænum. Þetta hefur í raun mjög góð áhrif á bæjarfélagið. Ég hef kynnt mér það vel hvað ferðamenn eru að eyða í kringum svona hátíðir. Þetta er að skila gríðarlega miklu til bæjarfélagsins,“ en Tómas telur að lengri undirbúningur fyrir hátíðina í ár muni skila sér í töluvert fleiri gestum. „Það að öll gisting skuli vera uppbókuð í janúar vegna viðburðar sem fer fram í júlí, er ótrúlega jákvætt. Það segir sig sjálft að þessir erlendu gestir munu þurfa að sækja í mat og aðra afþreyingu hérna, þannig að það er ljóst að þeir munu nýta sér það sem við höfum upp á að bjóða.“
„Sexý“ hugmynd í augum útlendinga
Útlendingunum leist afskaplega vel á Ásbrú. Fyrir þeim er þetta mjög „sexý“ hugmynd að halda tónlistarhátíð á yfirgefnum NATO-hervelli sem er búið að breyta í nýsköpunarsvæði. „Það er einn af okkar bestu sölupunktum, að hátíðin sé haldin á yfirgefnum NATO-velli sem liggur á hraunbeði ef svo má segja. Það að stutt sé í Bláa lónið og flugvöllinn er heldur ekkert að skemma fyrir. Það er gott að geta sagt við hljómsveitirnar að það séu ekki nema fimm mínútur frá flugvellinum og inn á hótelherbergi.“ Gert er ráð fyrir því að tjaldsvæði verði starfrækt á Ásbrú á meðan á hátíðinni stendur í ár. „Ég tel að það myndi eflaust breyta hugarfari innlendra gesta ef möguleiki væri á því að tjalda.“ Svæðið verður afgirt og þar verður öryggisgæsla allan sólarhringinn.
Hátíðin er að erlendri fyrirmynd en upphaflega var hátíðin eingöngu í Englandi, en hefur nú náð bólfestu í fleiri löndum. Hátíðinni er ætlað að skapa sérstakt andrúmsloft sem virðist vera til staðar á Ásbrú. Hátíðin ATP væri ekki haldin á Íslandi ef ekki væri fyrir Ásbrú, það er bara þannig. Þegar ég var að byrja að reyna selja ATP hugmyndina um að halda hátíðina sína hér á landi þá var Ásbrú aðal sölupunkturinn minn til stjórnenda hátíðarinnar. Ég útskýrði að þarna væri fullkomin aðstaða til tónleikahalds í aðeins fimm mínútna fjarlægð frá alþjóðaflugvellinum. Auk þess væri fullt af húsum á svæðinu þar sem gestirnir gætu gist, eins og tíðkast á hátíðinni í Englandi. Með smá þrjósku tókst mér að sannfæra þau, hjónin sem stýra hátíðinni, um að koma til Íslands. Þegar þau sáu svæðið og aðstöðuna þá var þetta bara komið. Þau kolféllu fyrir svæðinu. Þeim fannst svæðið henta fullkomlega fyrir ATP og auk þess líkjast staðnum þar sem hátíðin var haldin upprunalega í Camber Sands þannig að við byrjuðum strax að skipuleggja hátíðina í fyrstu heimsókninni þeirra“ segir Tómas.
En telur Tómas að hátíðin sé komin til að vera? „Það er í raun engin trygging fyrir því. Maður gerir þetta á meðan maður nennir að standa í því. Þetta er mikil vinna og töluvert álag sem fylgir þessu. Þetta kannski lítur út fyrir að maður þurfi bara að bóka hljómsveitir og útvega hljóðkerfi, en það eru ótalmörg smáatriði sem þarf að huga að. Listinn er í raun endalaus. Við munum gera þetta svo lengi sem fólk kaupir miða. Ég vona að þetta sé komið til að vera um ókomna framtíð,“ segir tónleikahaldarinn að lokum.