Hátíðartónleikar í tilefni af 70 ára afmæli
Kirkjukór Keflavíkurkirkju hefur starfað formlega í 70 ár og af því tilefni hefur kórinn tekið upp geisladisk sem kom út á dögunum undir heitinu „Vor kirkja“. Tímamótunum verður fagnað með hátíðartónleikum í Stapa laugardaginn 22. september nk. þar sem flutt verða lög af diskinum við undirleik hljómsveitar.
Kirkjukór Keflavíkurkirkju var stofnaður formlega á sönglofti kirkjunnar árið 1942. Áður hafði verið vísir að söngstarfi í kirkjunni þótt það hafi verið óformlegt. Kvenfélagið Freyja gaf kirkjunni harmóníum orgel þegar ný kirkja var vígð 1915 og fyrsti organisti Keflavíkurkirkju var Marta Valgerður Jónsdóttir.
Fyrstu stjórn kórs Keflavíkurkirkju skipuðu: Þorsteinn Árnason formaður, Sesselja Magnúsdóttir ritari, Vilhelm Ellefsen gjaldkeri. Stofnfélagar voru Guðrún Bergmann, Sólrún Vilhjálmsdóttir, Ingileif Ingimundardóttir, Sólveig Sigurðardóttir, Ólöf Sigurðardóttir, Þórunn Jónsdóttir, Jónína Jónsdóttir, Kamilla Jónsdóttir, Bergþóra Þorbjörnsdóttir, Hallbera Pálsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson, Geir Þórarinsson, Björn Hallgrímsson, Guðmundur Elísson, Bjarni J. Gíslason og Böðvar J. Pálsson.
Organisti Keflavíkurkirkju er Arnór Vilbergsson og stjórnar hann kór kirkjunnar. Á diskinum má finna úrval laga eftir ýmsa höfunda þ. á m. Arnór, Keflvíkinginn Sigurð Sævarsson og texta eftir sóknarprestinn sr. Skúla Ólafsson og kórfélagann Guðmund Sigurðsson. Upptökur á diskinum fóru fram í Stapanum í lok febrúar 2012. Upptökustjórn og hljóðblöndun var í höndum Sigurðar Rúnars Jónssonar, betur þekktur sem Diddi fiðla.
Tónleikarnir hefjast kl. 16:00, miðaverð er kr. 2.500 og innifalið er eintak af geisladisknum.