Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hátíðartónleikar í Bergi í Hljómahöll
Miðvikudagur 7. desember 2022 kl. 23:51

Hátíðartónleikar í Bergi í Hljómahöll

Haldnir verða sérstakir hátíðartónleikar í Bergi í Hljómahöll næstkomandi laugardag klukkan tólf. Tónleikarnir eru í boði sendiráðs lýðveldisins Póllands á Íslandi í samstarfi við Reykjanesbæ.

Í kjölfar þess að haldin hefur verið Pólsk menningarhátíð um nokkurra ára skeið í Reykjanesbæ hafa skapast jákvæð og góð samskipti við sendiráðið og þakkar Reykjanesbær sendiherrahjónunum kærlega fyrir hlýhug í garð íbúa sveitarfélagsins.

Tónleikarnir fara fram í hádeginu svo það er upplagt að hefja jólaundirbúninginn þann daginn með því að mæta í Berg og taka inn jólaandann áður en haldið er út í daginn í önnur jólaverkefni. Á efnisskrá eru jólalög og verk eftir íslensk og pólsk tónskáld og tekur öll dagskráin um eina klukkustund.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flytjendur eru ísfirsku bræðurnir Mikolaj Ólafur Frach sem leikur á píanó, Maksymilian Haraldur Frach sem leikur á víólu og Nikodem Júlíus Frach sem leikur á fiðlu og með þeim er sópransöngkonan Patrycja Wiatr og má því reikna með sannkallaðri tónlistarveislu.

Aðgangur á tónleikana er ókeypis og eru öll velkomin á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur á tónleikana er í gegnum Rokksafn Íslands.