Hátíðarkvöldverður og tónleikaveisla í Hljómahöll
- lokahnykkur í söfnun til endurbóta orgels Keflavíkurkirkju
Orgelnefnd Keflavíkurkirkju stendur fyrir hátíðarkvöldverði og tónleikaveislu í Hljómahöll föstudaginn 20. apríl þar sem fjöldi þekktra tónlistarmanna er tengjast kirkjunni koma fram en markmiðið er að ljúka söfnun fyrir endurbótum orgelsins sem eru orðnar aðkallandi þannig að drottning hljóðfæranna geti sinnt hlutverki sínu fyrir komandi kynslóðir.
Allir þeir sem koma að verkefninu munu gefa vinnu sína og rennur allur hagnaður óskiptur í orgelsjóð.
„Keflavíkurkirkja hefur mótað umgjörðina um stærstu stundir einstaklinga í bænum frá vöggu til grafar. Þar skiptir tónlistin miklu máli og er nýtt orgel kærkomið. Því leitum við því til bæjarbúa um aðstoð,“ sagði Sr. Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur sem er bjartsýn á að viðgerðir á orgeli kirkjunnar geti hafist á árinu.
Orgelsjóður Keflavíkurkirkju var stofnaður 2. febrúar 1995 í minningu Árna Vigfúsar Árnasonar sem var formaður sóknarnefndar Keflavíkursóknar um árabil. Lítið var í sjóðnum framanaf en nú hafa safnast ríflega 20 milljónir en gert er ráð fyrir að viðgerð á orgelinu kosti 26 milljónir. Til samanburðar má geta að nýtt hljóðfæri myndi kostar um 60 milljónir.
Miðar á hátíðarkvöldverðinn verða seldir til fyrirtækja og fara í almenna sölu föstudaginn 23. mars. Miðaverð er kr. 10.000 og fer miðasala fram í Keflavíkurkirkju.