Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hátíð í Njarðvíkurskóla
Þriðjudagur 27. september 2005 kl. 14:06

Hátíð í Njarðvíkurskóla

Evrópski tungumáladagurinn er 26. september ár hvert og Dagur stærðfræðinnar 27. september og voru þessir dagar haldnir hátíðlegir í Njarðvíkurskóla í vikunni.

Fyrri daginn var evrópsk kvikmyndahátíð og stóð nemendum til boða að velja úr evrópskum kvikmyndum á mörgum evróputungumálum. Nemendur fengu bíómiða á þá mynd sem þeir höfðu valið og fóru síðan í tiltekinn "bíósal" og sátu þá með skólasystkinum sínum á ýmsum aldri. Kvikmyndirnar voru sýndar í stofum, á sal Njarðvíkurskóla og á sal í Íþróttamiðstöð Njarðvíkur. Starfsmenn skólans og UNGÓ-söluturn lánuðu valdar kvikmyndir á hátíðina. Þennan dag fór einnig fram stærðfræðigetraun sem var styrkt af Sparisjóðnum í Keflavík, Njarðvíkurútibúi. Viss upphæð af krónupeningum hafði verið sett í glerstauk og áttu nemendur að geta sér til um upphæðina í stauknum, skrifa hana á þar til gerða miða og setja í innsiglaðan kassa. Tíu nemendur skólans giskuðu á rétta upphæð, sem var 1200 kr, og hlutu þeir vasareikni í verðlaun frá Sparisjóðnum.

Njarðvíkurskóli vill færa Ungó-söluturni í Keflavík, Sparisjóðnum-Njarðvíkurútibúi og Íþróttamiðstöðinni sérstakar þakkir fyrir aðstoð og stuðning.

Seinni daginn var tvískipt gleðistund á sal. Nemendur í 1. bekk sungu lagið Góðan dag á nokkrum tungumálum og lag um tölurnar 1-10. Eldri nemendur voru með dansatriði, leikfimi eftir dönskum fyrirmælum, fluttu ljóð á dönsku, sungu á ensku, sögðu nokkrar setningar á táknmáli og sýnd var stuttmynd á dönsku sem nemendur í 10. bekk gerðu. Einnig komu fram nemendur og starfsmenn skólans sem eru af erlendu bergi brotnu. Kynntu þeir sig og sögðu nokkrar setningar á eigin móðurmáli. Að lokum voru veittar viðurkenningar fyrir sumarlestur 2005 og veitt verðlaun fyrir stærðfræðigetraunina.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024