Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hátíð í Höfnum
Þriðjudagur 25. ágúst 2015 kl. 07:00

Hátíð í Höfnum

– á Ljósanótt, sunnudaginn 6. september

Nokkrir Hafnabúar hafa sett saman menningardagskrá og bjóða þér nú til Hátíðar í Höfnum á Ljósanótt, sunnudaginn 6. september milli klukkan 13:00 – 18:00.

Félagsheimilið var fyrst byggt sem skóli árið 1928 og er teiknað af Guðjóni Samúelssyni. Það þjónar nú Hafnarbúum sem félagsheimili. Þar bjóðum við uppá kaffi og bakkelsi frá kl. 13:00 til 17:00 og rennur allur ágóði af sölu þess til styrktarsjóðs Kirkjuvogskirkju.

Í félagsheimilinu verða verk til sýnis eftir Helga Hjaltalín Eyjólfsson og Valgerði Guðlaugsdóttur.
Leikhorn mun verða fyrir yngstu börnin.

Á milli 14:00 og 15:00 mun Ketill Jósefsson og Sigurjón Vilhjálmsson vera með sagnastund tengda Höfnum.

Kirkjuvogskirkja í Höfnum var byggð á árunum 1860-1861 og er elsta kirkja á Suðurnesjum. Hún var gerð upp árið 1970-1972 og þjónar enn Hafnarbúum. Á milli 16:00 og 17:20 mun Elíza Geirsdóttir Newman og Gísli Kristjánsson ásamt sérstökum gesti, Bjartmari Guðlaugssyni vera með tónleika í kirkjunni. Það er frír aðgangur á tónleikana og allir velkomnir.

Dagskrá

13:00-18:00 Kaffisala og Myndlistasýning í félagsheimilinu
14:00-15:00 Sagnastund Ketils Jósefssonar og Sigurjóns Vilhjálmssonar  
16:00-17:20 Tónleikar í Kirkjuvogskirkju. Bjartmar Guðlaugsson, Elíza Geirsdóttir Newman og Gísli Kristjánsson

SJÁ NÁNAR NEÐAN VIÐ MYNDINA...



í Félagsheimilinu:

Listamennirnir sem munu sýna í félagsheimilinu eru þeir Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Valgerður Guðlaugsdóttir.  Þau fluttu í Hafnir árið 2005 og reka þar vinnustofur sínar.

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson er skúlptúristi að upplagi en hefur í seinni tíð hneigst í átt að vatnslitamálverki sem þó oftast tengist smíðagripum ýmiskonar. Verk Helga eru bræðingur menningarheima þar sem hann blandar saman vísunum og notar snyrtilega framsetningu til að fjalla um margslungnar merkingar í dægurmenningu samtímans.

Valgerður Guðlaugsdóttir er þekkt fyrir að vinna með ímynd konunnar í nútíma samfélagi og í verkum sínum spyr hún oft áleitina spurninga.  

Valgerður vinnur í ýmsa miðla allt eftir því hvað þjónar megin hugmyndinni hverju sinni. Í verkum hennar hafa komið fyrir allt frá kvenpersónum úr rómantískum ástarsögum til þekktra Playboy fyrirsæta. Á sýningunni verða bæði ný og eldri verk.

Einnig verður sýnd listræn heimildarmynd eftir þýska listamanninn Janosch B sem ber nafnið Geirfugl.

Sagnastund:

Sigurjón Vilhjálmsson og Ketill Jósefsson rifja upp gamlar sögur úr Höfnum á milli klukkan 14:00 til 15:00. Sigurjón fluttist að Merkinesi í Höfnum ásamt fjölskyldu sinni árið 1934, Þá 9 ára gamall. Sigurjón býr yfir miklum fróðleik um svæðið og kann fjöldann allan af sögum frá Höfnum í gamla daga. Ketill er fæddur í Höfnum og bjó þar til 13 ára aldurs. Hann er lærður leiðsögumaður og hefur áður flutt frásagnir frá Höfnum við góðar undirtektir.

Tónleikar:

Bjartmar Guðlaugsson er einn af ástsælustu laga og texta höfundum Íslands og mikill vinur Reykjanesbæjar. Hann mun flytja nokkur vel valin lög í kirkjunni af ferlinum og er úr nógu að taka þar!

Elízu þekkja flestir úr Kolrössu Krókríðandi og seinna sem sóló listamann ,og hefur hún farið víða á ferlinum allt frá pönki til Eurovision með stuttu stoppi á Eyjafjallajökli! Nú er hún orðin alvöru Hafna kona og mun flytja nokkur lög af ferli sínum og frumflytja nýtt efni af komandi breiðskífu, Straumhvörf.

Gísli Kristjánsson hefur getið sér gott orð sem lagahöfundur og upptökustjóri siðastliðin ár þar sem hann hefur unnið með m.a Jamie Cullum, Duffy og mörgum fleiri listamönnum. Mun hann flytja frumsamið efni af annari sóló breiðskífu sinni sem er í vinnslu núna.

Aðgangur er ókeypis en frjáls framlög til styrktar viðhaldi Kirkjuvogskirkju eru afar vel þegin.

Allir velkomnir í Hafnirnar!

Að hátíðinni standa Hafnarbúar, þeir Árni Hinrik Hjartarson, Elíza Geirsdóttir Newman, Gísli Kristjánsson, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson, Kolbrún Björk Sveinsdóttir, Lilja Dögg Bjarnadóttir og Valgerður Guðlaugsdóttir.


Þorpið í Höfnum. VF-mynd: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024