Hátíð fer að höndum ein
– Jólatónleikar í Grindavíkurkirkju 7. desember kl. 20:00
Kristján Hrannar Pálsson, organisti og kórstjórnandi, kom eins og stormsveipur má segja að tónlistarlífi Grindvíkinga en hann tók formlega við sem organisti og stjórnandi Kirkjukórs Grindavíkur í haust. Nú þegar hefur Kristján staðið að glæsilegum styrktartónleikum vegna endurbóta á Grindavíkurkirkju en Víkurfréttir fjölluðu einmitt um þá tónleika á dögunum.
Næsta stóra verkefni Kirkjukórsins er árlegir jólatónleikar og segja má að farin verði ný leið að þessu sinni því í stað hefðbundinna jólalaga fyrir kirkjukóra, verður goðsagnarkennd jólaplata þríeykisins Þrjú á palli, “Hátíð fer að höndum ein”, flutt í heild sinni ásamt vel völdum jólaperlum.
Hvernig stendur á þessum áhuga Kristjáns á þessari frægu jólaplötu?
„Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að hlusta á þessa jólaplötu og tók ástfóstri við hana. Eftir að ég lærði til organista og kórstjórn þá blundaði alltaf í mér að útsetja þessa frábæru jólaplötu fyrir kór og lét verða að því fyrir tveimur árum en þá flutti Óháði kórinn sem ég stýri líka, verkið við góðar undirtektir. Ég kynnti þessa hugmynd fyrir kirkjukórnum í Grindavík og tóku kórmeðlimir mjög vel í hugmyndina og var ákveðið að láta slag standa. Æfingar hafa gengið mjög vel og við erum full tilhlökkunar og vonumst að sjálfsögðu eftir góðri mætingu Grindvíkinga og annarra gesta.“
Fyrrnefndir styrktartónleikar voru blanda kórsöngs og einsöngvara en fjölmargir grindvískir söngvarar tróðu upp, m.a. með kirkjukórnum og það er eitthvað sem Kristján vill skoða nánar í framtíðinni:
„Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hversu margir flottir söngvarar eru í Grindavík og var mjög gaman hvernig til tókst á dögunum. Þetta er gott fyrir samfélagið, gott fyrir kirkjuna og mig langar að endurtaka þennan viðburð með einum eða öðrum hætti í framtíðinni. Kirkjan er svo frábært tónleikahús og allir eiga að geta notið hennar og fengið að koma fram. Þegar tónlistarfólk bæjarins sameinast svona verða til magnaðir hlutir.“