Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Háskólanámið var þriggja ára rússíbanaferð
Laugardagur 3. mars 2018 kl. 06:00

Háskólanámið var þriggja ára rússíbanaferð

Davíð Már Gunnarsson stundaði nám í Kaospilot skólanum í Árósum og vann að fjölbreyttum verkefnum í New York, Berlín, Suður Afríku og Hollandi.

Davíð Már Gunnarsson er 29 ára Keflvíkingur sem lauk nýverið þriggja ára námi í Kaospilot. Heiti skólans gefur til kynna um hvað hann snýst; að móta eitthvað skapandi úr óreiðunni - kaos pilot. Skólinn er staðsettur í Árósum í Danmörku en Davíð dvaldi einnig á námsárunum í New York, Berlín, Suður Afríku og Hollandi þar sem hann stýrði hinum ýmsu verkefnum. Í dag býr Davíð í Lissabon í Portúgal þar sem hann vinnur að verkefni fyrir Startup Guide sem er ráðgjafafyrirtæki fyrir frumkvöðla. Hann stefnir á að ferðast um landið og semja og taka upp tónlist og er opinn fyrir öllum mögulegum verkefnum í framtíðinni þar sem hæfileikar hans í skapandi verkefnastjórnun fá að njóta sín.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kaospilot er öðruvísi, tilfinningaríkur og mannlegur skóli
Eftir að hafa lokið háskólanámi í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2013 var Davíð Már óákveðinn með framtíðina, vissi ekki nákvæmlega hvað hann vildi gera og hafði áhuga á alltof mörgum hlutum í einu. Hann hafði hugsað sér að flytja til útlanda og ákvað að sækja um í Kaospilot, óhefðbundnu námi í skapandi viðskipta- og verkefnastjórnun. Helstu námsefnin í skólanum eru verkefnastjórnun, ferlahönnun, viðskiptafræði og stjórnun og er margt ólíkt með Kaospilot og hefðbundnu háskólanámi. „Fyrir mér er Kaospilot kraftmikill, krefjandi, þorinn, öðruvísi, tilfinningaríkur og mannlegur skóli sem hefur gefið mér þrjú af mínum bestu árum, frábæra vini til lífstíðar og fullt af spennandi og ótrúlegum tækifærum sem ég hefði aldrei getað hugsað mér. Það er í raun pínu súrrealískt að líta á þetta sem skóla, því hann er ólíkur öllum öðrum skólum sem ég þekki til. Kaospilot hefur stundum verið lýst af nemendum sem þriggja ára rússíbanaferð, ég held ég geti verið sammála því,“ segir Davíð.

Nám eins og Kaospilot á vel við í dag í svokallaðri fjórðu iðnbyltingu þar sem stöðug tækniþróun mun hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn og fækka hefðbundnum störfum. Í því samhengi segir Davíð að hann upplifi sig sem einstakling sem tilheyrir kynslóð sem lifi í heimi sem ekki er hægt að vita hvernig muni líta út eftir 15-20 ár.

„Þegar maður veit ekki hvernig heimurinn mun líta út í framtíðinni, getur verið erfitt að ákveða hvernig maður eigi að fjárfesta tímanum sínum til að undirbúa sig fyrir framtíðarheiminn. Ég hef alltaf haft áhuga á mörgum mismunandi hlutum, en aldrei vitað nákvæmlega hvað það er sem mig langar til þess að gera að starfi. Ég er nokkuð viss um að ég sé ekki einn um það. Svo ég fór að hugsa um það hvað ég vissi með 100% vissu að yrði til staðar í framtíðinni sem ég hef áhuga á. Fyrir mér er það er að vinna með fólki og gera eitthvað skapandi. Það er það sem ég hef verið að læra í Kaospilot.“

Nemendur skólans taka virkan þátt í umsóknarferli nýrra nemenda
Kaospilot er öðruvísi en flestir skólar að flestu leyti og einnig þegar kemur að inntökuviðmiðum- og prófum. Í skólanum eru þrír árgangar og 35 nemendur komast inn á hverju ári. Þessir 35 einstaklingar eru ekki valdir eftir ákveðu stigaskori, heldur er valið í hópinn eftir því hvaða einstaklingar eru líklegastir til þess að mynda besta hópinn hverju sinni, út frá persónuleika, hæfni og fjölbreytileika. Nemendur skólans taka virkan þátt í umsóknarferli nýrra nemenda ásamt starfsfólki og stjórnendum. 100 manns er boðið til Danmerkur í þriggja daga inntökupróf þar sem fók vinnur saman að hinum ýmsu skapandi verkefnum og þrautum sem eru mismunandi á hverju ári. Davíð var einn af 35 nemendum sem komust inn og flutti til Árósa þar sem hann naut þess að búa. „Ég bjó í Reykjavík áður en ég flutti út og Árósir virkaði svolítið á mig eins og stóra systir Reykjavíkur. Nógu stór til þess að hafa gott menningarlíf og nógu smá til þess að halda í kósý sjarmann. Það er mikið af námsfólki í borginni, þannig að það er nóg um að vera fyrir ungt fólk. Það eru fallegir almenningsgarðar og mikið um menningarviðburði, þá sérstaklega árið 2017 þar sem Árósir var valin höfuðborg evrópskrar menningar 2017“ segir Davíð Már.

Lærði mest á því að óhreinka puttana og fá að gera mistök
Kaospilot námið er sett þannig upp að nemendur eyða ákveðnu tímabili í skólanum að læra ákveðin viðfangsefni samkvæmt námskrá. Inn á milli eru verkefnatímabil þar sem nemendur taka þátt í verkefnum utan veggja skólans. Þau verkefni geta verið af öllum gerðum og er það undir hverjum og einum komið að finna verkefni við hæfi. Það er mikil áhersla lögð á að læra með því að framkvæma, sjálfstæð vinnubrögð og að vera úrræðagóður. „Mér fannst ég læra mest á því að vera í umhverfi þar sem ég fæ að prófa það sem ég er að læra í alvöru aðstæðum, gera mistök og óhreinka puttana. Það er líka eitthvað sem mér fannst ég ekki fá nóg af í háskólanum á Íslandi.“ Davíð tók þátt í fjölbreyttum verkefnum um allan heim. Hann tók þátt í því að stofna nýtt ungmennahús í Vejle í Danmörku, vann fyrir ráðgjafafyrirtæki í New York, tók þátt í að stofna nýjan skóla í Berlín, vann að menningarhátíð í Suður Afríku og setti upp hljóðlistarsýningu í Hollandi. „Ég lærði mjög mikið um verkefnastjórnun í mismunandi menningarsamhengi. Verkefnin voru líka öll á einhvern hátt tengd áhugamálunum mínum, sem er ótrúlega skilvirk leið til þess að auka metnað í námi. Fólk finnur fyrir mun meiri ábyrgð á því sem það er að gera ef það hefur alvöru vægi og afleiðingar í samfélaginu, utan veggja skólans - en er ekki einungis verkefni upp úr skúffu hjá kennaranum. Ég lærði líka alveg heilan helling um sjálfan mig, hvaðan ég kem og hvaða hlutir það eru sem eru mér mikilvægir.“

Bestu ákvarðanirnar þær sem maður er skíthræddur við að taka
Aðspurður hvaða lærdóm Davíð hafi helst hlotið af þriggja ára Kaospilot námi er fullt af tólum, tækjum og aðferðafræði á sviðum viðskiptafræða og verkefnastjórnunar sem á eftir að nýtast í hvaða verkefnum sem er, hvort sem það er fyrir vinnuveitanda eða í frumkvöðlastarfsemi. „Ég held að ég hafi öðlast mjög góða færni til þess að aðlagast aðstæðunum sem ég er í hverju sinni og að vita hvað þarf að vera til staðar til að vinna með mismunandi fólki með mismunandi bakgrunn. En mest af öllu held ég að námið eigi eftir að nýtast mér við mannleg samskipti og þróun góðra sambanda, bæði faglegra, almennra og samband mitt við sjálfan mig.“

Davíð Már hvetur alla til þess að stökkva á þau tækifæri sem bjóðast og segir bestu ákvarðanirnar hans vera þær sem hann er skíthræddur við að taka. „Þú finnur fyrir því í líkamanum þegar þú stendur frammi fyrir að taka stóra ákvörðun, og að vera hræddur við að taka ákvörðun þýðir einfaldlega það að hún skiptir þig miklu máli. Og það er jákvæð tilfinning - ekki neikvæð.“  Hann sér ekki eftir því að að hafa flutt til útlanda enda hafi hann kynnst nýrri menningu, fólki og sjálfum sér betur í leiðinni. Þegar verkefninu hans lýkur í Lissabon er stefnan tekin á að leita sér að vinnu til lengri tíma í Portúgal þar sem honum líkar vel, en þó er hann opinn fyrir öllum spennandi tækifærum sem gætu bankað upp á, á Íslandi eða hvar sem er í heiminum.