Háskólahátíð á Suðurnesjum
Glæsileg Háskólahátíð var haldin þann 17. júní sl. í Kirkjulundi fyrir útskriftarfjarnemendur HA á Suðurnesjum sem hafa stundað nám sitt í gegnum Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Alls voru 9 nemendur útskrifaðir þar af 7 af viðskiptabraut, 1 af leikskólakennarabraut og 1 af grunnskólabraut.
Í þessum hópi var einn karlmaður og átta konur sem kláruðu nám sitt á þremur til sex árum og var meðalaldur nemenda 43 ár. Er þetta í áttunda skiptið sem fjarnemendur HA sem hafa stunda nám sitt í gegnum MSS útskrifast. Nokkrir aðilar fluttu ávörp við þessa hátíðlegu stund og kom Hans Kristján Guðmundsson forseti viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri inn á að háskólinn væri að fjölga námstilboði í fjarnámi sem kæmu íbúum Suðurnesja til góða.
Í ávarpi Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumanns MSS kom fram að um 50 nýnemar hefðu sótt um skólavist við HA frá Suðurnesjum í haust og margir sem væru að nýta sér nám sem hefði ekki verið kennt áður í fjarnámi eins og sálfræði. Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar talaði um að samstarf MSS og Keilis ætti eftir að skila mörgum inn í fjarnámið á komandi árum. Fulltrúi nemenda Bára Gunnlaugsdóttir sagði skemmtilega frá upplifun nemenda við að stunda nám með vinnu og greinilegt að nemendur og þeirra fjölskyldur eru búin að leggja mikið á sig s.l. ár. Við upphaf og lok athafnar söng Anton Þór Sigurðsson 3 lög við undirleik Arnórs Vilbergssonar.
Á myndinni má sjá 8 af útskriftafjarnemum ásamt Hans Kristjáni Guðmundsyni forseta viðskipta- og raunvísindadeildar HA og Guðjónínu Sæmundsdóttur forstöðumann MSS.