Harry Potter slær aðsóknarmet í Keflavík
Aðsókn að Nýja bíói í Keflavík hefur verið mjög mikil þetta árið og Harry Potter hefur slegið aðsóknamet á aðeins þremur vikum. Gamla metið átti Toy Story 2 en hún var sýnd í bíóinu í tvo mánuði svo gengi Harry Potters er greinilega mikið. Davíð Jónatansson framkvæmdastjóri Nýja bíós segist eiga von á þrjúþúsundasta gestinum á Harry Potter á milli jóla og nýjárs og ætlar hann að taka vel á móti honum og leysa hann út með gjöfum. Aðrar jólamyndir Nýja bíós eru Ocean´s Eleven en stjörnur myndarinnar voru á Keflavíkurflugvelli um daginn eins og fram kom á síðum Víkurfrétta í síðustu viku. Fyrir börnin verður sýnd myndin Atlantis sem er teikninmynd frá Disney fyrirtækinu og verður hún sýnd með íslensku tali. Íbúar Reykjanesbæjar eru duglegir við að fara í bíó og allar bestu myndirnar því sýndar í Nýja bíói í Keflavík.