Harmonikuveisla í Reykjanesbæ
Landsmót Sambands íslenskra harmonikuunnenda verður haldið í Reykjanesbæ dagana 3. til 6. júlí nk. undir yfirskrifinni Harmonikan hljómi. Er búist við miklum fjölda til bæjarins til að njóta harmonikutónlistar á þessu tíunda landsmóti, en hið fyrsta fór fram í Sigtúni árið 1982.
Alls munu 14 félög, víðs vegar af landinu, koma saman í mikilli tónlistarveislu sem Félag harmonikuunnenda á Suðurnesjum hefur skipulagt, Þórólfur Þorsteinsson, formaður félagsins sagði í viðtali við Víkurfréttir að von sé á fjölmenni enda sé harmonikan í mikilli sókn.
„Ef eitthvað er hefur harmonikan meiri sess nú en áður en það er að mestu því að þakka að ungt fólk og krakkar sækir meira í að læra á nikkuna,“ segir Þórólfur, en svo skemmtilega vill til að hann og Guðjón Matthíasson voru einmitt opnunaratriði fyrsta landsmótsins.
Þórólfur segir að vísu breyttar áherslur í harmonikuleik hér á landi frá því sem áður var. Hingað hafa komið erlendir listamenn sem hafa ílengst á landinu eins og bræðurnir Júrí og Vadím auk annarra.
„Þeir leggja meiri áherslu á klassíkina frekar en alþýðutónlist, en það skilar sér líka í því að núna eru mjög ungir krakkar orðnir ótrúlega færir á nikkuna. Þjóðlöin fá hins vegar alltaf að njóta sín þar sem fólk kemur saman á góðri stund.“
Félagið á Suðurnesjum var stofnað árið 1990 og lifir góðu lífi í dag. meðlimir eru um 25 til 30 og hittast einu sinni í viku til æfinga og eru meira að segja að gefa út geisladisk sömu helgi og mótið verður.
„Þetta verður eiginlega skemmtilegra með hverri æfingunni,“ segir Þórólfur. „Við höfum líka verið duglegir að koma fram undanfarin ár, til dæmis á Ljósanótt og nú er fólk mikið að leita til okkar um að koma og spila.“
Dagskráin á landsmótinu hefst á fimmtudaginn með setningu mótsins en tónleikar verða svo á Ránni og Kaffi Duus á fimmtudag og föstudag. Lokahátíðin verður svo á laugardagskvöld í Íþróttahúsinu við Sunnubraut þar sem stórtónleikar fara fram, en sérstakir heiðursgestir hátiðarinnar verða feðgarnir og harmonikusnillingarnir Alf og Jan Hagedal frá Svíþjóð.
Þórólfur segist vona að um 1200-1500 manns eigi eftir að sækja lokahátíðina og lofar miklu fjöri. „Þetta verður hrein veisla fyrir unnendur harmonikutónlistar. Það hefur stundum verið sagt að slík tónlist sé ólæknandi fíkn, en það vill heldur enginn læknast af henni,“ segir hann að lokum og hlær.
VF-mynd/elg