Harmonikumót á laugardaginn
Harmonikunemendur og kennarar nokkurra tónlistarskóla, þar á meðal Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, hafa hist einu sinni á ári undanfarin tvö ár og gert sér glaðan dag, haft samæfingar og endað daginn á sameiginlegum tónleikum. Þessi tvö skipti hafa heppnast vel, en vilji hefur verið fyrir því hjá tónlistarskóla Reykjanesbæjar að útvíkka þennan árlega harmonikudag. Skólinn stendur því fyrir eins dags harmonikunemendamóti, laugardaginn 18. nóvember n.k.
Þátttakendur verða frá Tónlistarskóla Akraness, Tónlistarskólanum í Grafarvogi, Tónskóla Eddu Borg í Reykjavík, Nýja tónlistarskólanum í Reykjavík, Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Tónskólanum DoReMi, Tónlistarskóla Sandgerðis og að sjálfsögðu frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Mótið fer fram í Kirkjulundi, félagsheimili Keflavíkurkirkju og stendur yfir frá hádegi. Mótinu lýkur svo með um klukkustundarlöngum harmonikutónleikum í Kirkjulundi kl.18. Þar munu nokkrir nemendur flytja einleiksverk og tónleikunum lýkur svo með því að allir þátttakendurnir á mótinu spila saman, alls um 30 manns. Aðgangur að tónleikunum eru ókeypis og allir velkomnir.