Harðkjarni á Paddy´s í kvöld
Í kvöld munu hljómsveitirnar DIMMA, Black Earth og Hellvar spila á Paddy's í Keflavík.
DIMMA er löngu orðið landsþekkt band m.a vegna bræðranna Ingó og Silla Geirdal sem eru goðsagnir íslenskrar rokktónlistar. DIMMA vinnur sem stendur að nýju efni en sveitin hefur legið undir feldi undanfarið við skriftir og hugleiðslu. Sveitin er fræg fyrir líflega sviðsframkomu og magnað andrúmsloft á tónleikum og mun leika sitt þunga og djúpa rokk með látum.
Black Earth er ný íslensk ofurgrúppa sem inniheldur meðlimi úr I adapt, Brain Police, Momentum og Tommygun Preachers. Hljómsveitin sameinar taktfast, framsækið stærðfræðirokk og hádramatískar, einfaldar melódíur. Strákarnir í Black Earth hafa verið duglegir undanfarið við spilamennsku í borginni við vægast sagt frábæran orðstír.
Hellvar sækir nú á heimavöll en um árabil bjuggu allir meðlimir sveitarinnar í Keflavík. Hljómsveitin er við það að senda frá sér sína aðra breiðskífu sem ber nafnið "Stop that Noise" í samstarfi við Kimi Records. Þau munu kynna plötuna af fullum þunga í Bandaríkjunum í sumar með mánaðalöngum túr og eru tónleikarnir á Paddy's liður í undirbúningi fyrir ferðalagið. Hljómsveitin leikur sterkt melódískt indírokk í bland við elektróník og hávaða.
Þó að við fyrstu sýn virðist þessi bönd koma úr ólíkum geirum tónlistarinnar sækja þær þó allar innblástur í hið gothenska andrúmsloft miðaldabyggingarlistar Evrópu með undirliggjandi angist spíritismans og djúpra tilfinninga. Hvert band mun því á sinn hátt leggja sitt af mörkum við að hrekja á brott hið eilífa haust sem virðist sveima yfir suðurnesjum og suðvesturhorni landsins. Fyrsta band stígur á svið stundvíslega klukkan 22:00 og það er frítt inn.
Mynd: Hljómsveitin Hellvar