Hard Rock munir til Reykjanesbæjar?
Rætt hefur verið við Poppminjasafn Íslands í Reykjanesbæ um varðveislu poppmuna frá veitingastaðnum Hard Rock í Reykjavík. Ákvörðun hefur verið tekin um að loka Hard Rock í Kringlunni þann 31. maí og er óvíst um framhald á rekstrinum.
Til þess að tryggja að munir í eigu íslenskra poppara, sem þeir hafa falið Hard Rock til varðveislu, verði vel varðveittir og á stað þar sem þeim verður fullur sómi sýndur hefur verið rætt við Poppminjasafn Íslands í Reykjanesbæ um hugsanlega varðveislu munanna þótt ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum.
Þess má geta að Poppminjasafn Íslands opnar sýningu í Gryfjunni í Duushúsum á þjóðhátíðardaginn 17. júní n.k. þar sem fjallað verður um tímabilið frá 1970 - 80. Verið er að leita að munum frá þessu tímabili og geta þeir sem eitthvað eiga í handraðanum haft samband við Sigrúnu Ástu Jónsdóttur safnstjóra í síma 421 6700 eða sent póst á netfangið: [email protected]