Hannar fatnað fyrir ungar konur
Rakel Sólrós, er 26 ára og ólst upp í Garðinum. Hún býr í dag í Gautaborg í Svíþjóð með Alexander Dan, unnusta sínum og starfar sem aðstoðarhönnuður hjá Monki, fyrirtæki sem er með yfir 60 verslanir um allan heim og sem miðar að því að hanna fjölbreyttan fatnað fyrir ungar konur sem eru ekki hræddar við að sýna persónuleika sinn.
Foreldrar hennar eru Jóhann Sigurður, „Siggi smíðakennari“ í Gerðaskóla og Halla Sjöfn, sem hefur starfað á næturvöktum á Garðvangi í 30 ár, sem hlýtur að vera bæjarmet. Þá á Rakel tvo bræður; Andra Þór sem býr í London, að læra grafíska hönnun og Guðmund Örn, hugbúnaðarverkfræðing hjá Handpoint í Reykjavík. Afi hennar var Víglundur Guðmundsson, góður vinur Unu í Sjólyst og svo dreifast börn hans og Ólafar Karlsdóttur um Garðinn og Reykjanesbæ.
- Hvað kom til að þú skelltir þér í hönnunarnám við Listaháskóla Íslands?
„Eftir Gerðaskóla fór ég í eitt ár í FS. Skólinn heillaði mig ekki og ég naut mín ekki. Mér fannst eins og allir ættu að falla í ákveðið mót sem ég passaði ekki í. Því ákvað ég að fara í Menntaskólann við Hamrahlíð sem endaði með að vera besta ákvörðun lífs míns. Ég var á félagsfræðibraut en tók líka myndlistarkúrsa og hannaði föt sem voru sýnd á litlum tískusýningum í skólanum. Við útskrift þá setti ég saman portfolio og sótti um í Listaháskóla Íslands. Ég gleymi því aldrei þegar pabbi hringdi og las bréfið fyrir mig þar sem stóð að ég hafði komist inn.
Næstu 3 ár fann ég svo innilega að ég var komin á réttan stað í lífinu. Skólinn tók yfir lífið en það var yndislegt. Ég nýtti hvert tækifæri til að koma mér áfram og fór í tvö starfsnám á meðan náminu stóð, í París og New York. Þarna átti maður frábærar en líka erfiðar stundir sem hafa mótað mig sem manneskju,“ segir Rakel Sólrós í samtali við Suður með sjó.
Eftir útskrift úr Listaháskóla Íslands vorið 2010 starfaði Rakel Sólrós svo hjá Farmers Market í eitt ár sem verslunarstjóri og aðstoðaði líka Bebbu, yfirhönnuð. „Yndislegt fyrirtæki samansett af yndislegu fólki. Svo flutti ég til London haustið 2011 á vit ævintýranna,“ segir hún.
„Í London vann ég fyrir framleiðslufyrirtæki sem sérhæfði sig í að hanna fyrir Topshop, Primark og fleiri verslanir. Um helgar fór ég og keypti ég mér oft föt í Monki, sem hafði þá nýlega opnað á Carnaby Street. Einn daginn var ég að skoða föt á heimasíðunni þeirra og þá sá ég starfið auglýst. Ég sagði við Alexander: „Hvað ef við flytjum til Gautaborgar og ég fer að hanna fyrir Monki?“ Hann var strax mjög jákvæður fyrir hugmyndinni. Ég sótti um sumarið 2013, fór í dagsferð til Gautaborgar í viðtal og sýndi þeim hönnunarverkefni sem ég hafði hannað sérstaklega fyrir þau. Viðtalið gekk vel en þau sögðust munu halda áfram að taka viðtöl út ágúst. Ég hugsaði: „Ókei, það mátti allavega reyna“. Mánuði síðar fékk ég símtal í hádegishléinu mínu í London og það var yfirhönnuður Monki sem bauð mér starfið. Ég sagði starfinu mínu lausu í London og var komin til Gautaborgar tveimur vikum seinna.
Rakel Sólrós var alls ekki eini umsækjandinn um þau störf sem hún sóttist eftir. Hundruðir umsækjenda voru um bæði störfin.
„Ég mun svosem aldrei vita afhverju ég fékk starfið framyfir einhvern annan en ég held að ég hafi bara verið rétta manneskjan á réttum tíma. Ég var auðvitað yfir mig glöð en svo auðvitað líður nýjabrumið af og nú finnst mér þau heppin að hafa mig,“ segir hún brosandi.
- Kveiknaði áhuginn á fatahönnun við saumavélina eða í skissubókinni?
„Algjörlega bæði. Ég teiknaði mikið föt þegar ég var lítil, sem þróaðist í að ég fór að sauma föt á Barbie dúkkurnar, sem þróaðist í að ég keypti fyrstu saumavélina þegar ég var 12 ára sem ég nota enn í dag“.
- Segðu mér aðeins frá Monki og því sem þú ert að gera þar?
„Monki er fyrirtæki í eigu H&M. Önnur fyrirtæki í eigu H&M eru t.d. Weekday, Cos, & Other Stories. Þetta eru allt sjálfstæð fyrirtæki en undir hatti H&M sem gerir minni fyrirtækjum kleift að nota sömu framleiðsluaðila og vinnuaðferðir. Það sem ég geri hjá Monki er að aðstoða við hönnun og sköpun TREND línunnar. Ég vann að skyrtum og kjólum í eitt ár en flutti nýlega yfir í jersey- og prjónadeildina. Það sem ég geri dagsdaglega er að teikna tækniteikningar að t.d. peysum, bolum og buxum, ásamt því að greina hvað er í tísku með því að skoða allskonar heimasíður og tímarit. Inn á milli eru líka sölufundir, hönnunarfundir og aðrir fundir. Fjölbreytnin er svo mikil og fólkið er svo skemmtilegt að dagurinn líður hjá án þess að maður taki eftir því“.
- Fatnaður sem þú hannar fyrir Monki ber m.a. nöfn kvenna úr Garðinum.
„Já, við nefnum flíkurnar alltaf kvenmannsnöfnum og þegar ég byrjaði þá notaði ég oft íslensk nöfn á fjölskyldu og ættingjum. Þess vegna hefur kjóll sem er kominn í verslanir sem ég hannaði fengið nafnið Halla eftir mömmu minni. Einnig nefndi ég topp eftir Hafrúnu frænku minni. Svona mætti lengi telja“.
- Hvað er framundan hjá þér?
„Monki tekur langmestan tíma minn enda er ég svo heppin elska vinnuna mína en annars erum við Alexander að fara gifta okkur sumarið 2014 þannig við erum byrjuð að plana það,“ segir Rakel Sólrós í viðtali frá Gautaborg við Suður með sjó.
(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)
Myndin í textanum hér að ofan:
Útskriftarverkefnið myndað við Litla-Hólm í Garðinum af Maríu Guðrúnu Rúnarsdóttur.