Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hann kveikir í öllum listaverkum sínum
Jordi NN. VF-mynd: Marta Eiríksdóttir
Föstudagur 3. janúar 2020 kl. 11:14

Hann kveikir í öllum listaverkum sínum

Hann kallar sig Jordi NN og er 34 ára gamall myndhöggvari frá Spáni sem ferðast víða um heim til að búa til listaverk úr tré sem hann byggir upp og brennur svo til kaldra kola fyrir framan áhorfendur. Þetta ætlar hann einnig að gera á Garðskagavita þegar listahátíðinni Ferskir vindar lýkur sunnudaginn 12. janúar. Við tókum hann tali og spurðum hann út í þetta.

„Ég er kallaður eldsmyndhöggvari (Fire Sculptor) því ég bý til listaverk sem ég brenni og tek yfirleitt þátt á hátíðum þar sem verið er að fagna sólstöðum eða einhverju náttúrufyrirbrigði. Nú erum við að fagna aftur komu ljóssins, dagsbirtunnar og kveðja hátíðina. Þið Íslendingar fagnið nýju ári með eldi og það fannst mér gaman að heyra. Eldsathöfn er forn siður og má tengja við eitthvað gamalt sem er að hverfa og eitthvað nýtt sem er að fæðast. Þegar nýtt tímabil er að hefjast í náttúrunni er einnig upplagður tímapunktur til að kveikja eld. Ég fórna þeim verkum sem ég skapa og ég geri það með því að kveikja í þeim fyrir framan áhorfendur. Listaverkið mitt breytist þá í gjöf til allra þeirra sem horfa á athöfnina. Allir sem eru viðstaddir upplifa hlýju í hjarta en það er ætlun mín þegar ég skapa þessa upplifun, frá hjarta til hjarta. Ég vil gefa það besta af mér til þess besta sem býr í þér. Ég hef verið sjö ár að þróa þessa aðferð sem ég nota til að láta eldinn brenna á sem náttúrulegastan hátt og nota til dæmis enga olíu eða önnur efni til að kveikja eldinn heldur byrja ég innst í listaverkinu að kveikja eld sem breiðir úr sér um allt listaverkið sem er úr timbri,“ segir Jordi NN.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eldurinn brennur í lok hátíðar

„Þetta er stór upplifun fyrir áhorfendur og örvar öll skynfæri þeirra, meira að segja heyrnina þegar fólk heyrir brestina í viðnum sem er að brenna. Ég er að skapa fallega minningu fyrir alla viðstadda. Ég geri þetta allt af ást. Ég ferðast um heiminn til að skapa þessa upplifun. Eldur er hrein náttúruleg fegurð og dáleiðir þá sem horfa á dansandi logana,“ segir Jordi NN sem bætir við í lokin: „Það er búið að vera frábært að taka þátt í þessari hátíð, frábært fólk og listamenn í mjög háum gæðaflokki.“