„Hann bjargaði mér“
- Elísabet glímir við kvíða
Elísabet Diljá Steinarsdóttir, nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, glímir við kvíða og hjálpar hundurinn hennar, Bangsi henni þegar hún er í kvíðaköstum. Elísabet hefur átt erfitt með að mæta í tíma í skólanum, sökum kvíða og fær Bangsi að fylgja henni í skólann. Hún talaði við skólastjóra FS, Kristján Ásmundsson til að kanna hvort hún fengi leyfi til að taka Bangsa með sér í skólann, og eftir meðmæli frá sálfræðingnum hennar, fékk Elísabet leyfi til að taka hann með sér í skólann þegar hún fær slæm kvíðaköst og á slæman dag.
Bangsi fór með Elísabetu í fyrsta sinn í skólann þann 19. mars sl. og gekk það vonum framar að hennar sögn. Fáir hafi verið að spá mikið í Bangsa, nema kannski fyrst um sinn og liggur Bangsi við fætur Elísabetar í tímum en honum líður afar vel í skólanum að sögn Elísabetar.
Líkaminn neitar að halda áfram
Elísabet hefur glímt við kvíða í mörg ár og segist stundum lokast alveg vegna hans. „Suma daga kemst ég bara ekki af stað, líkaminn neitar að hleypa mér áfram og þá hjálpar Bangsi mér en hann skynjar kvíðann. Það er sannað að það að klappa hundum er streitulosandi og hjálpi til með kvíða og stresseinkenni. Ég hef verið með kvíða frá því að ég man eftir mér en ég mætti ekki vel í grunnskóla út af honum og núna er ég á mínu öðru ári í FS. Eftir að Bangsi fékk að koma með mér í skólann þá hef ég til dæmis mætt alla þessa viku, sem er svolítið afrek fyrir mig.“
Bangsi sefur í tímum
Bangsa gengur vel í skólanum og sefur oftast nær í tímum, það fer lítið fyrir honum en hann vill hafa smá líf í kringum sig. „Hann sefur oftast í tímum og liggur hjá mér, á göngunum verður hann smá stressaður og þá held ég á honum.“ Nemendur FS hafa tekið Bangsa vel og fá stundum að klappa honum, flestir biðja um leyfi til áður en það er afar mikilvægt segir Elísabet til þess að Bangsi læri sín mörk og ef hann er stilltur, þá fær hann smá nammi í verðlaun. „Ég fór og ræddi við skólameistara FS, Kristján Ásmundsson áður en ég fékk að koma með Bangsa í skólann, hann tók vel í þetta og hér erum við í dag.“
Móðir Elísabetar keyrir hana í skólann þar sem að Bangsi fær ekki að fara með í skólarútunni. „Ég er búin að eiga hann síðan 2014, eða í fjögur ár og það má eiginlega segja að ég hafi bjargað honum þegar hann kom til mín níu mánaða gamall og frekar brothættur og að hann hafi bjargað mér.“