Handverk og list í Reykjanesbæ
Laugardaginn 11. maí n.k. kl. 12.00 verður sýningin Handverk og list opnuð í Íþróttahúsinu við Sunnubraut. Sýningin er opin laugardag og sunnudag frá kl. 12.00-18.00. Þetta er frumraun á sýningarhaldi af þessu tagi á Reykjanesi og stefnt er að því að þetta verði árlegur viðburður. Markaðs-atvinnu- og menningarskrifstofa Reykjanesbæjar hefur séð um undirbúninginn.Um er að ræða stóra sölusýningu og koma um 80 þátttakendur víða að af landinu. Stærsti hlutinn kemur þó af Reykjanesi og er þetta fyrst og fremst hugsað sem kynning á okkar fólki. Handverks- og listafólk á Reykjanesi vekur þannig athygli á verkum sínum og er þetta liður í menningartengdri ferðaþjónustu á svæðinu. Má í því sambandi nefna að í sumar verður opinn listamarkaður í húsnæði Félags myndlistarmanna í Reykjanesbæ í Svarta pakkhúsinu að Hafnargötu 2, en handverksfólk hefur lengi verið með verslun í Fischershúsinu á sama stað. Aðgangseyrir er kr. 200 fyrir fullorðna en ókeypis fyrir börn.