Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hamingjan kemur með góðu fólki
Hluti starfshóps heimahjúkrunar HSS en myndin var tekin í desember 2019 þegar jólaskreytingakeppni fór fram á stofnuninni.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
þriðjudaginn 22. desember 2020 kl. 07:13

Hamingjan kemur með góðu fólki

Hetjur hvunndagsins, konurnar sem starfa á bak við tjöldin og sinna þeim sem þurfa aðhlynningu í heimahjúkrun HSS

Eitt það besta sem við gerum er að hittast og vera saman, sýna hvort öðru áhuga og athygli, hlusta og segja frá. Nú á covid-tímum hefur þetta farið undir vegna smithættu. Einmanaleiki hefur líklega aukist mest hjá eldri borgurum og þeim sem búa einir.

Góð kærleiksrík félagsleg tengsl hafa góð áhrif á almennt heilsufar, þar með talið minni, líkamsstarfsemi og andlega virkni. Allar rannsóknir sýna að einmanaleiki veldur hrumleika en það fólk sem hittir títt aðra, á með þeim góðar samverustundir, lifir lengur og heilsan er betri. Við þurfum hvert annað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hversu hamingjusöm við erum byggist á nánum samskiptum við einhvern nákomin, fólk sem við treystum og getum talað við um okkar innstu tilfinningar. Það hefur góð áhrif á lífsgæði okkar og almenna vellíðan.

Kórónuveiran hefur skilið eftir sig sviðna jörð á mörgum stöðum, ekki aðeins á meðal þeirra sem urðu veikir vegna hennar, heldur einnig hjá þeim sem hættu að stunda félagslíf eða gátu ekki farið í ræktina vegna lokunar.

Frábær hópur starfsfólks

Á Suðurnesjum er starfandi mjög öflug heimahjúkrun á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, HSS, ein sú besta á landinu segja margir. Fagfólkið sem starfar þar fer inn á um það bil 100 heimili alla daga og oft tvisvar á dag, allan ársins hring. Í einstaka tilvika er farið þrisvar, fjórum sinnum á sama heimili á dag. Það starfa rúmlega tuttugu hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar í heimahjúkrun og á morgnanna fara um tíu þeirra í vitjanir í hvaða veðri sem er því það eru skjólstæðingar úti í bæ sem þarfnast umönnunar, eftirlits eða lyfja sem þær sjá um að gefa þeim.

Við getum alveg sagt að þetta séu hetjur hvunndagsins, konurnar sem starfa á bak við tjöldin og sinna þeim sem þurfa aðhlynningu. Já, þetta eru allt starfskonur á besta aldri, hressar og ferskar.

Margrét Blöndal er deildarstjóri heimahjúkrunar og Vigdís Elísdóttir er aðstoðardeildarstjóri en báðar eru þær menntaðir hjúkrunarfræðingar. Við mæltum okkur mót við þær á covid-tímum og ræddum stöðuna.

„Í öllu veðri fara tíu konur frá okkur út í bæ, á alla bæi sem þurfa þess með, stundum frá Hvassa-hrauni og til Suðurnesjabæjar, allt nema til Grindavíkur sem eru með eigin heimahjúkrun. Þetta eru konurnar sem við getum alveg kallað hetjur. Þær hafa hjartað á réttum stað í starfi sínu og þurfa að halda vel á spilunum til að ná að sinna öllum 190 skjólstæðingum okkar svo vel sé. Þjónustan er veitt alla daga ársins, það er aldrei frí,“ er það fyrsta sem Margrét hefur orð á og nefnir að teymi heimahjúkrunar er skipað einum lækni, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Lítil nýliðun hefur verið í starfshópnum, sem segir okkur margt varðandi starfsánægju hópsins og er meðalaldur starfsmanna um fjörutíu, fimmtíu ár. Margrét heldur áfram að fræða lesendur um heimahjúkrun:

Heimahjúkrun brúar bilið

„Tilgangur heimahjúkrunar er að veita öllum sem ekki eiga heimangengt heilbrigðisþjónustu og hjúkrun. Aldursbil skjólstæðingahópsins er 0 til 110 ára. Langflestir eru þó í hópi aldraðra eða um 80%. Stundum fáum við það verkefni að gefa mjög ungum börnum lyf í æð, við sinnum einnig líknandi þjónustu og eftirliti með einstaklingum sem glíma við langvinna sjúkdóma. Í samstarfi við lækni getum við brugðist við með því að draga úr einkennum sjúkdóma í heimahúsi og þannig komið í veg fyrir innlögn. Við vinnum í nánu samstarfi við D-deild HSS og skipuleggjum hvíldarinnlagnir í þeirri samvinnu. Í langvarandi veikindum fólks vilja sumir komast í öryggi á hjúkrunarheimili en stundum er löng bið eftir plássi. Hlutverk okkar er að brúa þetta bil með því að veita viðeigandi þjónustu í samráði við skjólstæðinga okkar og oft aðstandendum þeirra.“

„Heimahjúkrun og félagsþjónustan vinna náið saman til að brúa þetta bil svo að fólk geti verið sem lengst heima. Það eru fleiri aldraðir í dag sem þurfa aðstoð heima og það hefur aukist á covid-tímum,“ segir Vigdís.

Fylgst vel með öllum

„Í upphafi dags er alltaf fundur hjá okkur áður en starfsfólkið fer út í vitjanir og svo er aftur fundur um miðjan dag eftir vitjanir. Það er alltaf verið að fylgjast með öllum, sérstakt skráningarkerfi er skoðað kvölds og morgna til að sjá hvort einhver hafi farið inn á bráðamóttöku af skjólstæðingum okkar en á hverjum tíma erum við með um 190 manns í þjónustunni. Við fylgjumst vel með og aðstandendur hafa samband við okkur, það er ávallt velkomið. Starfsfólkið okkar er að gefa af sér, fara inn á allskonar heimili og að vinna við allskonar aðstæður. Allir eiga rétt á heimahjúkrun og fólki er vísað til okkar frá læknum, sjúkrahúsi, geðdeild og taugadeild svo eitthvað sé nefnt. Sumir þurfa langtímaþjónustu á meðan aðrir útskrifast fljótt frá okkur. Við viljum vera í góðum tengslum við alla. Við erum á margan hátt heppin hér á Suðurnesjum, því við búum á þéttbýlissvæði sem gerir það að verkum að létt og fljótt er að fara á milli staða. Það er mikill kostur. Suðurnes eru einnig ungt samfélag samanborið við annarsstaðar á landinu og samfélagið byggt kraftmiklum einstaklingum sem láta sig varða um hvernig HSS þróast. Það er áríðandi að vera með góða heilbrigðisþjónustu og að því stefnum við á hverjum degi hér hjá heimahjúkrun. Það er mikill metnaður hjá okkur í starfi og mjög góð samstaða í teyminu okkar,“ segir Margrét og leggur áherslu á orð sín. Þarna er yfirmaður sem brennur fyrir starfi sínu.

Góðar breytingar framundan

„Það er svo mikið í deiglunni hjá okkur hjá HSS. Fólk á eftir að sjá miklar breytingar næstu árin og jafnvel mánuði, covid er reyndar að tefja fyrir áætlunum yfirstjórnar. Nýlega var ráðinn mannauðsstjóri og til stendur að ráða gæðastjóra. Það er heilmargt í pípunum, miklar og góðar breytingar í vændum. Yfirstjórn HSS er að leggja drög að breytingum sem við starfsfólkið teljum mjög góðar og stofnuninni til heilla. Það verða einnig breytingar á skipulagi hússins bæði fyrir skjólstæðinga og starfsfólk. Breytt starfsumhverfi er í vændum. Við finnum að meiri stöðugleiki er að aukast í starfsmannahópnum, hér starfa sumar deildir með sama starfsfólki ár eftir ár. Fleiri hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar taka til starfa, fólk sem vill búa hér á svæðinu sem er mjög gott. Við höfum verið með flotta lækna hjá okkur vil ég segja, einhverjir eru búsettir hér og aðrir hafa ekið Reykjanesbrautina en starfað hér suður frá í nokkur ár. Við höfum þá trú að fleiri eigi eftir að sækjast eftir stöðu hjá HSS þegar fram í sækir. Það eru meiri lífsgæði fólgin í því að starfa í litlu samfélagi, húsnæðið er einnig mun ódýrara hér en á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum sjá öfluga starfsemi hér og góða þjónustu, það er takmark okkar og umræðan er farin af stað innanhúss með góðum vilja yfirmanna og starfsmanna. Það er einnig mjög góð stemmning í húsinu, það verður að segjast eins og er. Covid hefur auðvitað haft áhrif á allt en dæmi um skemmtilegt samstarf á milli deilda í fyrra á léttu nótunum var þegar deildirnar skreyttu hjá sér fyrir jólin. Það var sannkallað hópefli. Við ætlum að gera það aftur í ár þó svo við getum ekki komið öll saman í lokin til að fagna jólum,“ segir Margrét.

„Við getum alveg sagt að stofnunin sem slík sé að breytast til hins betra. Almenningur, fólkið á Suðurnesjum, hefur alltaf haft skoðanir á starfsemi HSS og það er bara gott. Öll viljum við að HSS þjóni vel fólkinu á svæðinu. Orðsporið þarf að uppfæra því stofnunin er að breytast til hins betra. Reynslan mun sýna okkur að bjartir tímar eru framundan í starfsemi HSS en fyrst þarf að stöðva covid, veiruna sjálfa ,“ segir Vigdís.

Munum eftir ömmu og afa

„Já, veiran hefur kennt okkur margt og ég reikna með að margt gott muni líta dagsins ljós þegar veiran er horfin. Veiran gefur okkur tækifæri til að horfa inn á við, skoða hvað skiptir máli í lífi okkar og hverjir skipta máli. Við þurfum að muna eftir að sinna eldra fólkinu í fjölskyldum okkar. Ekki láta það vera afskiptalaust, það getur reynst þeim afdrifaríkt og mjög slæmt. Við viljum öll vera hamingjusöm. Öryggi og hlýja, samskipti við aðra gerir okkur hamingjusöm. Ömmur og afar, gamla fólkið okkar þarf á okkur að halda núna, þegar það kemst ekki í félagsstarfið sitt eða út úr húsi vegna covid og enn frekar nú í vetrarmyrkri og kulda. Verum góð hvert við annað. Kíkjum í heimsókn til okkar nánustu, ein lítil heimsókn getur breytt deginum í góðan dag. Bara það að eiga þessi samskipti, tala saman og hlusta á hvað hinn hefur að segja í fréttum. Ég veit að sonur minn er að gleðja langömmu sína mikið á þessum tímum en hann er mjög hændur að henni og fer þangað í heimsókn mjög oft. Hún hefur yndi af því að gefa honum að borða og leyfa honum að læra hjá sér. Það þarf ekki mikið til að finna að við skiptum máli í lífi annarra. Við verðum öll að finna að við skiptum máli. Hægjum á okkur og verum meira saman. Við kunnum öll á smitvarnir, veiran er búin að kenna okkur það,“ segir Margrét.

Með hjartað í starfinu

„Við erum mjög spenntar með þær breytingar sem framundan eru hjá HSS, starfið okkar verður enn betra. Já, það er nú þegar mjög gott samstarf innan veggja hússins og nýlega gerðum við þjónustusamning við Reykjanesbæ í samstarfi við stuðningsþjónustu félagsþjónustunnar. Það á einnig eftir að skila góðu. Það eru allir af vilja gerðir að gera sitt allra besta. Við erum öll með hjartað í starfinu,“ segir Vigdís.

„Ég vil nefna þátt Reykjanesbæjar í heilsueflingu eldri borgara með Janusi og þakka kærlega fyrir það framtak. Janusarverkefnið er stórkostlegt framlag bæjaryfirvalda til að efla þegna sína, halda þeim frískum lengur sem gefur okkur færri veikindi og betra samfélag. Að lokum vil ég segja að heimahjúkrunin hjá HSS er eins og blóm í eggi. Við erum í draumaumhverfi við kjöraðstæður því hér höfum við aðgang að bráðamóttöku, heilsugæslu, blóðrannsókn og D-álmu. Það eru stuttar boðleiðir og samstarfið og metnaðurinn er mikill á meðal deilda. Það ber að þakka,“ segir Margrét og við kveðjum og óskum HSS alls hins besta.

Myndir: Marta Eiríksdóttir/
Víkurfréttir