„Hamagangur í hellinum“
- Jólaleikrit Leikfélags Keflavíkur
Föstudaginn 29. nóvember frumsýnir Leikfélag Keflavíkur jólaleikritið Hamagangur í hellinum. Verkið er unnið upp úr öðru leikriti en stytt og staðfært á skemmtilegan hátt af leikhópnum sjálfum. Það eru litríkar persónur sem koma fram í verkinu sem gerist í helli Grýlu og Leppalúða þar sem jólasveinarnir undirbúa komu jólanna ásamt foreldrum sínum og gæludýrum.
Sagan leiðir okkur einnig inn á hótel hér í bæ þar sem skemmtilegir og óvæntir hlutir gerast. Hamagangur í hellinum er þriðja verkið sem fer á fjalir Frumleikhússins á þessu ári og það segir allt um grósku leiklistarstarfs hér á svæðinu. Eins og komið hefur fram þá verður verkið frumsýnt föstudaginn 29. nóvember og sýnt um helgar fram að jólum. Sýningin tekur eina klukkustund og er fyrir alla fjölskylduna.
Miðaverð er aðeins 1000 krónur en nánar verður auglýst í VF í næstu viku.
Stjórn LK.