Halldór spilar með einum frægasta trommara heims
Þann 18. júlí kl.15:00 mun Halldór Lárusson bæjarlistamaður Grindavíkur koma fram með trommuleikarinn Benny Greb í sal FÍH, Rauðagerði 27, Reykjavík kl. 15:00.
Benny Greb er einn þekktast trommuleikari heims um þessar mundir og er það mikill fengur að fá hann til landsins. Benny Greb hefur undanfarin ár slegið í gegn á heimsvísu og ferðast um heim allan þar sem hann hefur ýmist komið fram einsamall eða með hljómsveit, stundað kennslu, haldið námskeið og fyrirlestra o.fl. Stíll Benny Greb einkennist af ástríðu og er ákaflega músíkalskur. Hann hefur veitt ótal trommuleikurum um heim allann innblástur og hvatningu og má með sanni segja að trommarasamfélagið á Íslandi sé upprifið yfir komu hans.
Þrír íslenskir trommuleikarar munu hita upp fyrir Benny Greb á laugardaginn en það eru þeir Benedikt Brynleifsson, Einar Scheving og Halldór Lárusson sem munu leika sem tríó. Þeir hafa sett saman verk sérstaklega fyrir þetta tilefni.
Þess má geta að Benny hefur verið að koma fram á flestum virtustu trommuhátíðum heims, t.d Modern Drummer festival, Montreal Drum festival, China drum summit og á ráðstefnu Percussive Arts Society í tvígang.
Miðar fást í Tónastöðinni, Skipholti 50b og við innganginn og kostar miðinn 2.500 kr.