Halldór Lárusson Bæjarlistamaður Grindavíkur 2014
Halldór Lárusson trommari og tónlistarkennari hefur verið útnefndur Bæjarlistamaður Grindavíkur 2014 af frístunda- og menningarnefnd. Verðlaunin verða afhent við setningu Menningarviku Grindavíkurbæjar laugardaginn 15. mars nk. í Grindavíkurkirkju kl. 17:00. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi verðlaun eru afhent.
Halldór hefur verið atkvæðamikill í tónlistarmenningu Grindavíkur undanfarin ár og tekið þátt í mörgum viðburðum, meðal annars tengdum menningarviku. Einnig stóð hann fyrir opnu sviði á Bryggjunni alla föstudaga í júní og október sl, en þar gafst bæjarbúum kostur á að fara á svið og syngja eða spila með þekktum undirleikurum.
Halldór kennir slagverk við Tónlistarskóla Grindavíkur, Tónlistarskólann í Garði og Tónlistarskóla Sandgerðis, en þar er hann einnig starfandi skólastjóri tímabundið. Hann vinnur þessa dagana einnig að kennslubók fyrir unga trommuleikara og hefur nýlega hafið tökur á heimildamynd um íslenska trommuleikara. Halldór hefur fengist við trommuviðgerðir og trommusmíði og setti meðal annars á markað ÞYRL trommurnar sem margir kannast við.
Halldór er upphafsmaður að trommusýningunni Trommarinn sem haldin hefur verið árlega frá 2009. Hann hefur tekið þátt í frumflutningi efni þekktra listamanna, t.d. Trommukvintett sem Pétur Östlund samdi og var flutt á Trommaranum 2012 (sjá hér ). Hann samdi og útsetti trommukvintett fyrir Súma, en það verk hefur verið spilað meðal annars í Hörpunni þrisvar. Halldór starfar nú einnig að upptökum með Hollensku hljómsveitinni Beesandus en hann tekur trommuleikinn upp í hljóðveri hér heima og sendir síðan út.
Halldór er listamaður af lífi og sál og er einn besti trommuleikari landsins. Hann hefur leikið með mörgum helstu tónlistarmönnum landsins, t.d. Bubba Morthens og MX-21, Rúnari Júlíussyni, Bjartmari Guðlaugssyni, Júpíters, P.S. & co, Spilafífl, Með Nöktum ásamt mörgum fleirum. Hann bjó í Hollandi um árabil og starfaði þar með ýmsu tónlistarfólki, þar á meðal Afríkuböndunum Lanyi og King Taky and Afro Roots, Seydouba Soumah, hollensku pönkhljómsveitinni The Harries og mörgum fleirum.
Þess má geta að Halldór mun koma fram á tónleikum í menningarvikunni, fimmtudaginn 20. mars á Salthúsinu með Halli Ingólfssyni og félögum en þar flytja þeir efni af nýútkominni sólóplötu Halls - Öræfi, sem mun einnig verða flutt á tónleikum í Hörpu næstkomandi fimmtudag, 13. mars í Kaldalóni (sjá hér ).