Hálfrar aldar afmæli fagnað allt árið á Tjarnarseli
-Allir hafa sitt að segja á elsta leikskóla Reykjanesbæjar
„Við erum alltaf að þróa okkur áfram, alltaf að gera betur,“ segir Árdís Jónsdóttir, leikskólastýra Tjarnarsels, en þann 18. ágúst síðastliðinn varð leikskólinn hálfrar aldar gamall. „Við erum búin að fagna allt árið. Sumarhátíð var haldin í lok júlí, á afmælisdeginum sjálfum var dansiball á leikskólunum og svo fórum við niður að sjó vikuna fyrir Ljósanótt þar sem bæjarstjórinn afhjúpaði söguskilti með krökkunum.“
Frá afhjúpun söguskiltisins með Kjartani Má, bæjarstjóra Reykjanesbæjar.
Tjarnarsel er elsti leikskóli Reykjanesbæjar en hann var stofnaður af kvenfélagskonum, sem Árdís segir hafa verið algjörar kraftakonur en þær unnu sjálfboðavinnu fyrst um sinn. Til að byrja með voru einungis tvær manneskjur, þær Dagmar Pálsdóttir og Margrét Jónsdóttir, sem pössuðu börnin á leikskólanum, sem voru um það bil 45 talsins á aldrinum tveggja og hálfs árs til fimm ára. Í dag eru 80 börn á Tjarnarseli og að sögn Árdísar hefur leikskólastarfið breyst mikið síðan hún hóf að starfa á leikskólum árið 1991. „Það eru ákveðnar kröfur gerðar. Við fylgjum aðalnámskrá leikskóla og hver leikskóli er svo með sína skólanámskrá. Að þessu leyti hefur þetta
breyst mjög mikið, en við erum kannski líka að gera meiri kröfur til okkar. Það er mikill metnaður í leikskólastarfi í Reykjanesbæ.“
Góð samskipti mikilvæg
Hún segir Tjarnarsel hlýlegan leikskóla sem leggi mikið upp úr góðum samskiptum við börn og foreldra. „Við reynum að upplýsa foreldrana eins mikið og við getum. Svo leggjum við mikla áherslu á mál og læsi, útinám og vettvangsferðir.“ Útisvæði leikskólans hefur tekið miklum breytingum síðan árið 2013 en þá fór leikskólinn í víðamikið verkefni þar sem kennarar og foreldrar veltu því fyrir sér við hvaða aðstæður þeim hefði fundist skemmtilegast að leika sér sem börn. „Hér var varla grænn blettur á svæðinu en þegar við vorum yngri fannst okkur flestum skemmtilegast að leika okkur úti í móa eða í fjöru. Við vildum breyta þessu og fórum í ferð til Hollands og skoðuðum náttúruleg útileiksvæði. Eftir það settum við upp vinnubúðir með börnunum og foreldrunum þar sem allir gátu komið með hugmyndir. Allir eiga að fá að hafa sitt að segja, stórir sem smáir. Tveir vinnudagar voru svo haldnir á laugardegi þar sem foreldrar mættu með börnin sín og við réðumst í þvílíkar framkvæmdir á útileiksvæðinu.“
Hundaskítur og tyggjó
Árið 2005 fóru börn Tjarnasels á fund Árna Sigfússonar, þáverandi bæjarstjóra, vegna þess að þau sáu ekki lengur út á sjóinn vegna sjóvarnargarðsins og fannst vanta útsýnispall. Útsýnispallurinn varð síðan að veruleika stuttu síðar. „Leikskólinn vinnur mikið með lýðræði og þegar það kemur eitthvað upp á þá ræðum við það hvernig þau geti fylgt hugmyndunum sínum eftir.“ Til móts við Ráðhús Reykjanesbæjar er skilti, hannað af börnum Tjarnarsels, þar sem vegfarendur eru beðnir um að henda hundaskít og tyggjó í ruslið. „Börnin lentu oft í því í vettvangsferðum að stíga í hundaskít og voru hneyksluð á tyggjóinu. Við ræddum það hvað við gætum gert í málunum og þau hönnuðu þetta skilti, bæjarstjórinn kom á leikskólann þar sem börnin kynntu málið og skiltið varð stuttu síðar að veruleika. Í tilefni af stórafmæli leikskólans verður málþing haldið í Stapa þann 22. september næstkomandi þar sem aðal yfirskriftin er orðaforði. „Orðaforði skiptir svo gríðarlega miklu máli fyrir mál- og læsisþroska barna og hvernig þeim gengur í námi. Við leggjum gríðarlega mikla áherslu á það alveg frá því þau byrja hérna tveggja ára gömul.“ Í október verður sýning sett upp í Átthagastofunni á Bókasafni Reykjanesbæjar um sögu leikskólans. Þar verða til sýnis gamlar ljósmyndir af starfi leikskólans, leikföng og fleira sem nú er í varðveislu Byggðasafnsins.
Á Tjarnarseli starfar öflugur faghópur að sögn Árdísar og mun hann halda áfram að byggja upp gott leikskólastarf næstu árin.
Árdís með stelpunum sínum á leikskólanum.