Hálfgert grín í upphafi
Frumraun hljómsveitarinnar Lifun kom út nú á dögunum. Platan nefnist Fögur fyrirheit og hefur henni verið afar vel tekið og sveitin gríðar vinsæl um þessar mundir. Lagið Hörku djöfuls fanta ást eftir Björgvin Ívar með texta Bjartmars Guðlaugssonar var fyrsta lagið sem Lifun sendi frá sér og varð einn af smellum sumarsins 2008. Eftir að breiðskífan kom út í október á þessu ári hefur hljómsveitin haft í nógu að snúast og lög þeirra skreytt vinsældarlista landsins. Suðurnesjamennirnir Björgvin Ívar Baldursson og Smári Klári Guðmundsson eru tveir af meðlimum sveitarinnar, Víkurfréttir fengu þá félaga í létt spjall.?
Hvernig og hvenær varð sveitin Lifun til??
Björgvin: Ég og Haraldur Leví kynntumst þegar við vorum að vinna saman í Skífunni og við ákváðum í byrjun árs 2008 að stofna popphljómsveit, enda báðir miklir popphundar. Hún var svo lengi að fullmótast, margir meðlimir stoppuðu misstutt við og meira að segja Halli yfirgaf hljómsveitina í byrjun árs.
Hverjir eru í bandinu?
Björgvin: Ég spila á gítar, Helgi Rúnar Gunnarsson spilar á gítar, Margrét Rúnarsdóttir syngur og Smári Klári Guðmundsson spilar á bassa. Það er kjarninn og svo erum við með góðan hóp af fólki sem hjálpar til á tónleikum.?
Hvaðan kemur nafn sveitarinnar??
Björgvin: Frá plötu Trúbrots. Það var mikill hausverkur að finna nafn en ég hef gaman að því þegar hljómsveitir heita eftir lögum eða plötum með öðrum hljómsveitum og það fyrsta sem mér datt í hug þegar greip í þennan vinkil var Lifun.
Hver semur lög og texta?
Björgvin: Ég á flest lögin á plötunni og Lára Rúnars megnið af textunum við þau. Baldur Þórir Guðmundsson, Bjartmar Guðlaugsson og Þór Sigurðsson eiga einn texta á mann og Rúnar Júlíusson tvo. Svo eru þarna lög eftir Rúnar, Valdimar Guðmundsson og Odd Inga Þórsson.
Verður sveitin að spila mikið yfir jólin?
Björgvin og Smári: Já það er passlega stíft prógramm hjá hljómsveitinni. Við reynum að spila sem mest núna til að fylgja eftir plötunni. Við spilum á eitthvað af?jólahlaðborðum, starfsmannateitum og þess háttar og erum svo að skoða að halda einhverja stærri tónleika á okkar vegum.
Eigið þið ykkur áhrifavalda í tónlist?
Björgvin: Klárlega. Ég allavega fæ lánað og stel úr öllu góðu sem ég heyri. Alveg frá einhverju úr amerísku söngbókinni, kántríi frá því um miðja 20. öldina og nýlegu RnB og poppi.
Smári: Já, það eiga sér flest allir einhverja áhrifavalda hvort sem það er í tónlist eða einhverju öðru. Áhrifavaldarnir mínir í tónlistinni eru endilega ekki allir tónlistarmenn heldur eitthvað sem sem ýtir við mér og gefur mér innblástur, getur verið hvað sem er.
Hvaðan var innblásturinn sóttur við gerð plötunnar Fögur fyrirheit?
Björgvin og Smári: Bara við það að horfa á albúmið sést að við erum að leita til 7. áratugarins í sándi og lagasmíðum. Það er mikið bítl í þessu, gamaldags popp í nýjum búningi. Bítlarnir hitta fyrir Cardigans, eitthvað þannig.
Hvað er næst á dagskránni hjá Lifun?
Björgvin og Smári: Við erum núna að fylgja þessari plötu eftir og svo auðvitað að vinna að næstu plötu. Það eru einhver lög á lagernum og svo erum við hvert í sínu horni að vinna að lögum.
Nú kemur fólkið í sveitinni úr ýmsum áttum,hvernig lágu leiðir ykkar saman?
Björgvin: Eins og áður segir hittumst ég og Halli í Skífunni. Ég og Smári kynntumst í kringum fyrstu Klassart plötuna en hann vildi svo vera bassaleikari í einhverri hljómsveit. Svo þekkti Halli til Helga og við fengum hann inn því hann er svo töff. Þannig byrjaði þetta og Lára sem var yfirmaður okkar Halla í Skífunni tók bara vel í að koma að syngja. Þannig snerust hjólin fyrsta árið, hægt og rólega.
Hver var upphaflega ætlunin með stofnun sveitarinnar?
Björgvin: Til að byrja með grínuðumst við með að það væri til að búa til peninga en í rauninni langaði mig bara að búa til góða popptónlist sem flestir gætu fílað. Nú kemur það svo á daginn að fólk á öllum aldri og allar týpur af fólki kunna að meta plötuna svo manni líður vel með það.
Hver er aðalsprautan í bandinu?
Björgvin: Klárlega ég. En ef ekki væri fyrir hina í bandinu væri ég bara að sprauta út í loftið.?
Smári: Bó diggity Johnson er með þetta.
Nú eruð þið strákarnir í bandinu allir rokkarar að upplagi, hvers vegna fóruð þið í poppbransann?
Björgvin: Það var bara að prófa eitthvað nýtt. Maður var búinn að slíta barnsskónum í rokkinu, fá útrás og svona. Auðvitað líka að ná til breiðari hlustendahóps, ná lögum á toppinn. Það er ekki mikið rokk sem fer á toppinn.??
Smári: Það er til gott popp og það er til vont popp, sama má segja með allar hinar tónlistarstefnurnar. Best er að reyna að vera fordómalaus gegn öllum tónlistarstefnum og reyna að draga mest af því góða til sín. Fallegt kántrýlag gerir alveg jafn mikið fyrir mig og flott tvöföld bassatromma.
Var þetta eitthvert grín til að byrja með?
Björgvin: Að vissu leyti já. Við hlógum mikið á fyrstu æfingunum þegar við vorum að henda fram hugmyndum og þannig. Við höfum mikið gaman af þessu.
Er léttara að semja popplög en rokklög?
Björgvin: Ef ég ætti að segja annað hvort myndi ég segja nei. Rokklög sem eru spiluð og samin af þessum hefðbundnu bílskúrsböndum verða oft til í einhverju djammi þar sem menn spila saman bara þangað til að eitthvað verður til. Ég hef gert eitthvað af því í gegnum tíðina en núna er maður bara einn heima hjá sér eða í hljóðverinu að púsla saman hugmyndum. Stundum kemur það auðveldlega og stundum ekki.
Smári: Já og nei. Hver lagahöfundur er með sína aðferð til að semja svo það er misjafnt. Hvert lag á sitt ferli og hvert ferli er misjafnt hvort sem það er popp eða rokklag.
Hvaða íslensku bönd eruð þið að hlusta á um þessar mundir?
Björgvin: Ég fékk Moses Hightower plötuna um daginn og finnst hún geðveik. Ég hef séð þá á tónleikum og þeir eru líklega besta sveitin á Íslandi í dag. Svo eru í spilaranum nýjustu Geimsteins plöturnar: Valdimar, Selma Björns og BlazRoca.
Smári: Valdimar, Moses Hightower, Jónas Sig og fullt meira. Það er hellingur af góðri íslenskri tónlist í gangi í dag.
Hvar funduð þið þessar söngkonur? Hver er sagan á bak við þær?
Björgvin: Lára var yfirmaður okkar Halla í Skífunni og hún hafði gefið út tvær plötur svo við vissum að hún gæti sungið. Hún sló til þegar við buðum henni að vera með og var búin að syngja helminginn af plötunni þegar hún ákvað að einbeita sér að sólóferli sínum. Hún byrjaði þá að ota litlu systur sinni að okkar, Margréti, og við ákváðum að leyfa henni að prófa að syngja inn eitt lag, Ein stök ást. Það vildi svo til að það lag fór á toppinn á Rás 2 og sat þar í 3 vikur og er búið að vera eitt af mest spiluðu lögunum á Íslandi núna í rúma 2 mánuði. Hún var að sjálfsögðu ráðin á staðnum en Lára ætlar líka að vera með okkur eitthvað í bakröddum þegar hún getur.
Nú er ykkur að ganga vel og lögin mikið spiluð, hvernig skal fylgja þessu eftir?
Björgvin og Smári: Það er í raun bara að vera sýnileg og heyrileg. Koma fram og spila á tónleikum. Það verður að hamra járnið á meðan það er heitt.
Nú eruð þið að spila hjá Loga í beinni og í spilun á flestum stöðvum, er fólk byrjað að þekkja ykkur úti á götu?
Björgvin: Já það gömul saga og ný að það er auðvelt að verða þekktur á Íslandi. Það er aðallega bara fólk að koma upp að manni og óska til hamingju með plötuna og velgengnina. Það er skemmtilegt.?
Smári: Það skiptir nú litlu máli en ég vona að það sé farið að þekkja tónlistina okkar.
Eruð þið strákarnir á lausu?
Björgvin: Nei. Maður ætti samt að segja já í svona viðtölum því það eykur víst plötusölu.
Smári: Þá segi ég bara já.