HÁLF ÖLD Á VELLINUM
Magnús M. Jónsson trésmiður starfaði hjá Varnarliðinu í 46 ár eða allt þar til hann lét að störfum vegna aldurs fyrr á þessu ári. Áður hafði hann starfað í 5 ár hjá Locket á Keflavíkurflugvelli.Við hittum Magnús eða Magga Dóru eins hann er oft nefndur á heimili hans að Kirkjubraut 10 og hann segir okkur aðeins frá fimmtíu ára starfsferli sínum á Keflavíkurflugvelli...„Ég er fæddur í Keflavík 21. janúar 1925. Foreldrar mínir voru Halldóra Jósefsdóttir og Jón Kristinn Magnússon. Faðir minn starfaði í tengslum við sjóinn og vann í fjöldamörg ár í Hraðfrystihúsinu Jökli sem fiskmatsmaður. Við erum fimm bræðurnir og búum allir hérna í Keflavík.Ég var alinn upp á Melgötu 5 sem nú er bílaplanið hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Ég gekk í barnaskóla Keflavíkur og síðan var kvöldskóli en við þurftum að borga fyrir það og þar sem efnin voru ekki mikil var ekki um það að ræða. Ég hafði mikinn áhuga á að læra smíðar svo ég fór í trésmíðanám á trésmíðaverkstæði Þorsteins Árnasonar og lærði þar smíðar. Ég fór síðan í Iðnskólann 1944 sem var stofnaður hér í Keflavík um þetta leyti. Ég útskrifaðist trésmiður 1946. Við vorum nokkrir sem byrjuðum í náminu á sama tíma og það var mikill munur að þurfa ekki að fara til Reykjavíkur í iðnnám. Skólastjóri var Hermann Eiríksson sá mikli og góði skólafrömuður. Kennslan fór fram á kvöldin svo við gátum unnið að deginum verið í skólanum á kvöldin og á laugardögum. Fyrsta veturinn vorum við í undirbúningsdeild. Síðan tókum við einn bekk á önn eins og það er núna kallað, fyrir og eftir áramót. Við vorum fyrstu nemendur sem útskrifuðumst úr Iðnskólanum hér í Keflavík“.Uppbygging á Vellinum„Eftir stríð fór herinn frá Keflavíkurflugvelli og Civil-Ameríkanar komu hingað í staðinn og það er félag sem heitir Locket sem tók við rekstri stöðvarinnar. Það var lítið að gera hér í Keflavík í byggingarvinnu um þetta leyti og það var auglýst eftir iðnaðarmönnum og ég réði mig og byrjaði þar árið 1947.Ég fór þetta sumar á alþjóðlega skátamótið í Frakklandi og var nýkominn úr þeirri ferð þegar ég hóf störf hjá þessu fyrirtæki, Locket.Ég var hjá þeim til ársins 1951 að flugherinn kom og tók við rekstri flugvallarins. Ég starfaði hjá Civil-Ameríkönum með skínandi góðum mönnum. Það voru margir Norðurlandabúar sem höfðu flutst til Bandaríkjanna en yfirmaður minn var Asker Karlsson. Síðan voru þarna Norðmenn, Svíar og Bandaríkjamenn allt mjög góðir iðnaðarmenn.Vinnan var við ýmiskonar lagfæringar á bröggum og skemmum því engar aðrar byggingar voru þá á vellinum. Þær þurftu mikið viðhald og við þetta störfuðum við í nokkur ár eða þangað til að Medical Hammilton kom hérna. Þá var farið að byggja íbúðarhús og gömlu flugstöðina. Lengi var ég einn, síðan var farið að ráða fleiri Íslendinga og ég var gerður að flokksstjóra. Maður talaði náttúrlega ekki stakt orð í ensku, en þeir gátu talað sænsku og norsku svo þetta gekk allt ágætlega. Síðan lærði maður enskuna bara af vellinum og seinna fór ég að skrifa hana líka.Nú upphófst mikil endurbygging á allskonar húsnæði en okkar vinna var aðallega viðhaldsvinna. Þá vorum við orðnir nokkuð margir Íslendingarnir sem unnum þarna. Við byggðum líka yfir bíla eins og herbílana sem þá voru húsalausir. Við þurftum líka að fara í viðgerðarvinnu úti í Hvalsnes, Grindavík eða uppí Hvalfjörð, því enn voru braggar á þessum stöðum.Svo komu góð íbúðarhús og nýja flugstöðin var byggð og gömlu braggarnir rifnir. Svo þegar fjölskyldur fluttu í húsin á vellinum þurfti að halda þeim við. Og yfirfara þau eftir að fjölskyldur fóru svo sem að mála, flísaleggja, slípa gólf og gera við innréttingar“.Verkstjóri á trésmíðaverkstæðinu „Síðan fóru Civill-Ameríkanarnir og við Íslendingarnir urðum eftir. Ég var þá gerður að yfirmanni á trésmíðaverkstæði sem við höfðum en það komu alltaf hermenn sem voru að vinna hjá okkur og undir okkar stjórn. Þetta voru prýðisdrengir en eins og gerist misjafnir. Það eru orðnar miklar breytingar frá fyrstu árunum. Þessi þrjú flugskýli sem standa fyrir framan gömlu flugstöðina voru reisdsdt. Síðan voru malarkambar sem þarna voru jafnaðir við jörðu og búnar til núverandi flugbrautir. Fyrsti flugvöllurinn sem notaður var í stríðinu var Patterson flugvöllurinn sem er fyrir utan girðinguna þegar keyrt er suður í Hafnir. Þar lentu fyrstu flugvélarnar á stríðsárunum. Það var svo hætt að nota þennan flugvöll þegar búið var að byggja stóra flugvöllinn og braggabyggingarnar voru fjarlægðar. Þá upphófst þessi endurbygging sem var gerð af verktökum, bæði bandarískum og íslenskum.Eftir flutning í nýju flugstöðina, Leifsstöð urðu verkefnin stærri sem við vorum látnir framkvæma og 20-25 trésmiðir í vinnu. Við byggðum upp alla gömlu flugstöðina að innan og byggðum við hana og þar er nú ýmiskonar starfsemi svo sem bókasafn, skrifstofur og flugafgreiðsla fyrir herinn. Þessi bygging er mjög skemmtileg og vönduð eins og flestar byggingar á vellinum. Nú er unnið við að innrétta ýmislegt svo sem skrifstofur. Einnig kæðningar að utan. Við klæddum að utan ratarstöðvarnar t.d í Grindavík bæði stöðvarbygginguna og rafstöðina sem þar er. Þegar nýir menn koma þarf að breyta ýmsu. Við vorum fyrst með verkstæðið í gömlum bragga, síðan í gamalli skemmu sem var stundum köld á veturna. Síðan fengum við nýtt verkstæði sem núna er í svokallaðri byggingu sem heitir Puplic works og það er alveg fyrsta flokks með öllum hugsanlegum vélum og tækjum og góður aðbúnaður á allan hátt. Starfslok og tómstundir„Það var svolítið skrýtið að hætta eftir öll þessi ár. Að þurfa ekki að vakna kl. 7 á morgnana og hafa þessa ákveðnu stundaskrá til að fara eftir en ég hef þó nóg fyrir stafni.Ég hef verið í skátunum frá árinu 1938 og er dálítið enn. Núna er ég í St. Georg skátunum sem er félag eldri skáta. Ég var félagsforingi og tók við af Helga S. Jónssyni sem félagsforingi Heiðarbúa og var það í 10 ár og hef verið virkur félagi þar. Ég var við að byggja upp fyrsta skátahúsið á ##Hringbrautinni það var sama ár og ég var að læra trésmíðina. Síðan eftir að ég tók við félagsstarfinu af Helga S. Jónssyni sá ég að húsið var allt of lítið svo ég lét teikna viðbót við það og við byggðum hana á stuttum tíma. St. Georg skátarnir eiga heiður skilinn fyrir þá uppbyggingu því annars hefði starfið þurft að vera á fleiri en einum stað. Fyrst þegar þetta hús var byggt var sagt: „Þeir eru skrýtnir skátarnir, nú eru þeir að byggja hús upp í heiði“ Þá var engar götur nema, bara Hafnargatan og Suðurgatan og það voru aðeins hús öðru megin við Suðurgötuna. Keflavík var þá ekki stór og þar sem þetta hús var upp á Hringbraut þótti það vera langt út úr bænum sem nú er raunar miðbær. Skátastarfið er heilbrigt og gott og það er uppbyggjandi að starfa með skátum. St. Georgs skátarnir eru skátar og velunnarar skátahreyfingarnar sem standa við bakið á skátahreyfingunni og félaginu hérna og við komum saman einu sinni í mánuði. Við ferðumst saman og hjálpum til við aðalfjáröflun skátanna sem eru fermingarskeytin“.Enn að byggja uppMagnús og kona hans, Einhildur Pálmadóttir, láta sér ekki leiðast. Þau segjast vera mikið sumarbústaðafólk og una sér þar öllum stundum á sumrin.„Ég byggði sumarbústað í Fitjahlíð í Skorradal fyrir 25 árum og vorum við mjög mikið í honum. Fólk hefur stundum spurt okkur hvað við getum verið að gera þarna en við getum alltaf fundið okkur eitthvað við að vera.Okkur fannst síðan orðið nokkuð langt að fara í Skorradalinn því það styttist ekkert við Hvalfjarðargöngin þar sem við fórum yfir Dragháls svo við ákváðum því skipta bústaðnum og fengum annan við Þingvallavatn. Í sumar og í fyrra höfum við síðan verið að endurbyggja hann. Það er svo mikið kapp í manni að laga þetta að maður ætlar sér kannski um of en við erum mjög ánægð þarna. Þetta er mun styttra en í Skorradalinn og nú getum við jafnvel skroppið þetta að kvöldi til. Ég byggði einbýlishús fyrir okkur að Skólavegi 20 í Keflavík árið 1950 en þá var verið að skipuleggja þar byggingarsvæði. Við byggðum þarna fjórir vinnufélagar og bróðir minn í sömu götu og hjálpuðumst mikið að. Við steyptum kannski einn grunn þetta kvöldið og annan það næsta og svona héldum við áfram. Þetta var mikil samvinna.Við bjuggum á Skólaveginum í 42 ár eða allt til ársins 1993 að við keyptum íbúð í þessu húsi hérna á Kirkjuveginum. Það er gott að búa hér og má segja að ég sé aftur komin á mínar æskuslóðir. Héðan er stutt í allar áttir og maður þarf ekki að slá neinn blett.Það var orðið krefjandi þegar maður kom heim á kvöldin, alltaf var eitthvað að gera eins og að klippa trén, slá blettinn mála glugga eða þak og það var endalaust viðhald í svona húsum ef maður vill hafa þetta vel útlítandi.Svo það er nóg fyrir okkur að hafa aðeins sumarbústaðinn, byggja hann upp og mála og við höfum gaman að þessu“.