Hálendið okkar heillar alltaf
Guðmundur Birkir Agnarsson hefur alltaf haft gaman að ferðalögum og öðrum notalegum stundum með fjölskyldunni. „Hálendið okkar heillar mig alltaf. Þá eru björgunarmál mér alltaf hugleikin en þau voru mitt aðaláhugamál til margra ára þegar ég var björgunarsveitarmaður í Grindavík en í dag eru þau reyndar einn angi af annars nokkuð fjörbreyttu starfi mínu,“ segir hann í Netspjalli við Víkurfréttir.
– Nafn:
Guðmundur Birkir Agnarsson.
– Árgangur:
1972.
– Fjölskylduhagir:
Ég er kvæntur Lóu Björgu H. Björnsdóttur og eigum við tvo unglingsstráka sem heita Agnar Ingi og Björn Atli.
– Búseta:
Grindavík.
– Hverra manna ertu og hvar upp alinn?
Foreldrar mínir eru Sólveig Guðbjartsdóttir og Agnar Guðmundsson. Ég er fæddur Grindvíkingur og alinn upp þar. Var þó í sveit í Hrútafirði í mörg sumur og tel mig því að hluta til alinn upp þar líka.
– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?
Við fjölskyldan eigum okkur sælureit við Laugarvatn þar sem til stóð að eyða sumarfríinu að hluta í nýju stöðuhýsi sem koma átti til landsins snemma í vor. Einnig vorum við með í huga nokkurra daga ferðalag um Vestfirði. Vegna Covid-ástandsins þá kom nýja húsið hins vegar ekki fyrr en um miðjan júlí, rétt þegar við hjónin vorum byrjuð í sumarfríi, þannig að fríið fór að mestu í að koma húsinu fyrir, smíða palla og skjólveggi og laga til aðra aðstöðu. Það varð því ekkert úr Vestfjarðaferðalagi þetta árið. Við fórum þó einhverja bíltúra á Suðurlandinu.
– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?
Það var svo sem ekki búið að skipuleggja mikið þó við hefðum einhver plön, enda höfum við oftast látið það ráðast hvernig við eyðum sumarfríum.
– Hvaða staður fannst þér áhugaverðast að heimsækja í sumar?
Við fórum svo sem ekki víða í sumar nema aðeins um Suðurlandið eins og áður segir. Kíktum að sjálfsögðu á Gullfoss og Geysi sem eru alltaf flottir staðir. Fórum líka upp á virkjunarsvæðin í Þjórsá og Tungnaá og er ég reyndar alltaf heillaður af þessu samspili á nýtingu náttúruauðlinda og mögnuðu hálendisumhverfi.
– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
Mér þykir alltaf gaman og notalegt að komast inn í Þórsmörk. Það var þó ekki á planinu að fara þangað í sumar.
– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?
Það eru svo sem engin plön um það en hver veit nema við skjótumst eitthvað, þó það væru bara dagsferðir. Það væri til dæmis gaman að renna inn í Landmannalaugar eða kíkja á Þórsmörk í haustlitunum.
– Hvert er þitt helsta áhugamál?
Ég hef alltaf haft gaman að ferðalögum og öðrum notalegum stundum með fjölskyldunni. Hálendið okkar heillar mig alltaf. Þá eru björgunarmál mér alltaf hugleikin en þau voru mitt aðaláhugamál til margra ára þegar ég var björgunarsveitarmaður í Grindavík en í dag eru þau reyndar einn angi af annars nokkuð fjörbreyttu starfi mínu.
– Ertu að sinna áhugamálum eins og þú vildir?
Ekki get ég nú sagt það. Við höfum því miður ekki verið nógu dugleg að ferðast síðustu ár þar sem aðrir hlutir hafa verið settir í forgang eins og gengur og gerist – en okkur langar að bæta úr því á næstu árum.
– Hvernig slakarðu á?
Það getur verið góð afslöppun að horfa á góða bíómynd með fjölskyldunni. Einnig að lesa góða bók. Mætti gera mun meira af hvoru tveggja.
– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?
Gott lambalæri klikkar ekki.
– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?
Ingó veðurguð og Helgi Björns hafa verið í dálitlu uppáhaldi hjá mér í sumar.
– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?
Ég horfi nú frekar lítið á sjónvarp en það kemur þó fyrir að ég nái í bíómynd á VOD eða Netflix.
– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?
Það er helst að ég reyni að ná veðurfréttum í sjónvarpi en keppist svo sem ekkert við það, enda yfirleitt búinn að vera að fylgjast með veðurfréttum allan daginn.
– Besta kvikmyndin?
Shawshank Redemption kemur strax upp í hugann. Mynd sem hægt er að horfa á aftur og aftur.
– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða -rithöfundur?
Sem áhugamaður um björgunarmál þá bíð ég alltaf spenntur eftir næstu Útkalls-bók frá Óttari Sveinsyni.
– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?
Ég á það til að vera óþolinmóður, bæði gagnvart sjálfum mér og öðrum, en aldur og reynsla hafa þó kennt mér að hemja mig.
– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?
Óheiðarleiki.
– Uppáhaldsmálsháttur eða -tilvitnun:
Þolinmæði er dyggð.
– Hver er elsta minningin sem þú átt?
Þegar ég var eins og hálfs árs fékk ég skurð á milli augnanna sem var afleiðing þess að höfuðið fór hraðar yfir en fæturnir. Einhverra hluta vegna man ég vel þegar hún Ólavía, þáverandi hjúkrunarkona í Grindavík, deyfði mig áður en hún saumaði mig saman.
– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:
Ekkert sem ég tek eftir sjálfur (nú fæ ég örugglega að heyra hvað það er).
– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?
Oft hefur maður nú hugsað hversu frábært það væri að geta ferðast til baka og breytt gangi sögunnar en líklega hefði maður nóg að gera ef það væri hægt og kannski væri það ekki alltaf til bóta. Hins vegar væri gaman að geta farið til baka og verið áhorfandi að hinum ýmsu stórviðburðum sem markað hafa land og þjóð. Það er nóg af slíkum viðburðum og erfitt að gera upp á milli þeirra.
– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
Sá sem tekur að sér það hlutverk að skrifa ævisöguna mína verður að finna einhvern sölulegan titil.
– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?
Það hefur vissulega eitt og annað gengið á það sem af er þessu blessaða ári og ber þar hæst jarðhræringar við Grindavík og svo að sjálfsögðu Covid-faraldurinn og afleiðingar hans en þessir tveir þættir hafa vissulega skapað óöryggi. Ætli það eigi því ekki vel við að nota orð ársins og segja að upplifunin hafi að mörgu leyti verið frekar „fordæmalaus“.
– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?
Covid-ástandið er nú ekki að skapa sérlega góðar væntingar gagnvart efnahagsástandi þjóðarinnar á komandi misserum en fyrir mig persónulega þá hef ég góða tilfinningu fyrir komandi hausti og vetri.
– Hver er besti brandari sem þú hefur heyrt nýlega?
Fimmaurabrandarar falla vel í kramið hjá mér og hér er einn slíkur: Nágranni minn barði harkalega í hurðina hjá mér klukkan tvö um nótt. Hugsið ykkur ... klukkan TVÖ UM NÓTT! Sem betur fer var ég vakandi að spila á sekkjapípuna mína.