Halda veislu til styrktar Barnaspítala Hringsins
Erna Sif Gunnarsdóttir og Þorvaldur Hafþór Sigurjónsson, íbúar í Innri Njarðvík, eiga 15 mánaða gamla dóttur, Guðnýju Ósk, sem er með ónæmisgalla, fæðuofnæmi og mjólkuróþol. Guðný Ósk hefur þurft að dvelja töluvert á Barnaspítalanum vegna veikinda sinna.
Sem þakklætisvott við þá þjónustu sem þau hafa fengið á spítalanum halda þau styrktarveislu á morgun laugardag. Fjárframlögin renna óskipt til Barnaspítala Hringsins og félags barna með ónæmisgalla. „Við áttum tveggja ára brúðkaupsafmæli og ákváðum í tilefni þess að bjóða til styrktarveislu,“ sagði Erna Sif.
Vinum og ættingjum er boðið og afþakka þau allar gjafir en þiggja frjáls fjárframlög í söfnunarbauk sem Guðný Ósk afhendir Barnaspítalanum í október.
Erna Sif sagði að þessa dagana væri Guðný Ósk nokkuð góð af veikindum sínum.
Hún vildi koma á framfæri kæru þakklæti til Partýbúðarinnar í Reykjavík og Glerblásturverkstæðisins í Grófinni í Reykjanesbæ fyrir framlag þeirra til veislunnar.
Við munum segja nánar frá gjöfinni í næsta tölublaði Víkurfrétta.
10 einkenni er bent gætu til meðfædds ónæmisgalla:
1. Átta eða fleiri eyrnabólgur á ári.
2. Tvær eða fleiri alvarlegar nef-og kinnholsbólgur á ári.
3. Meðferð sýklalyfja í tvo mánuði án teljandi árangurs.
4. Tvær eða fleiri lungnabólgur á ári.
5. Vanþroski eða léleg þyngdaraukning ungbarna.
6. Endurtekin graftarkýli í húð eða innri líffærum.
7. Viðvarandi sveppasýking í munnholi eða húð eftir að eins árs aldri er náð.
8. Nauðsyn á sýklalyfjagjöf í æð til meðhöndlunar á annars vægum sýkingum.
9. Tvær eða fleiri alvarlegar sýkingar s.s. heilahimnubólga, heimakoma eða sýking í beini.
10. Fjölskyldusaga um meðfædda ónæmisgalla.
Söfnunarreikningur sem Erna Sif stofnaði:
1109-05-412400
kt.261085-2409
Mynd: Erna Sif Gunnarsdóttir, móðir langveiks barns, efnir til styrktarveislu.
Mynd-VF/IngaSæm