Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Halda upp á alþjóðlega píanódaginn með tónleikum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 31. mars 2023 kl. 09:54

Halda upp á alþjóðlega píanódaginn með tónleikum

Þrír píanóleikarar halda tónleika í Duus húsum laugardaginn 1. apríl kl. 14:00.

Sævar Jóhannsson er ungur píanóleikari frá Keflavík og mun halda tónleika í Reykjanesbæ ásamt Eðvarð Egilssyni og Pólverjanum Miro Kepinski, í Duus-húsum laugardaginn 1. apríl kl. 14:00. Tónleikarnir eru hluti af lítilli tónleikaferð þar sem þremenningarnir spiluðu einnig á Mengi í Reykjavík miðvikudaginn 29. mars og á Risinu í nýja miðbænum á Selfossi fimmtudaginn 30. mars.

Sævar á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana en hann er sonur Jóhanns Smára Sævarssonar, óperusöngvara og tónlistarstjóra. „Ég var þrettán ára þegar ég byrjaði að læra á hljóðfæri, lærði á saxófón og var í hinum og þessum lúðrasveitum í tónlistarskólanum, var í léttsveitinni og svo framvegis. Ég byrjaði fljótlega að gutla á píanó og var þrjóskur, lærði mikið sjálfur og hóf ekki nám í píanóleik fyrr en ég var orðinn sautján ára gamall. Það opnaðist einhvern veginn fyrir mér nýr heimur við að fara yfir á píanóið, þá gat ég farið að semja því ég gat spilað hljóm með annarri hendinni og laglínu á hinni. Ég ákvað svo að drífa mig í Listaháskóla Íslands árið 2016 og tveimur árum seinna kom fyrsta platan mín, Lucid, út. Ég gaf hana og næstu tvær plötur, Disconnect (2020) og Rammi (2021), út undir listamannsnafninu S.hel en ákvað að hætta með það nafn í fyrra því mig langar til að markaðssetja mig meira sem tónskáld/artist eins og Jóhann Jóhannsson og Hildur Guðnadóttir. Ég hef hef verið að fikra mig mig inn á leikhústónlistarsviðið og því taldi ég þetta vera rétt skref. Ég gaf út fjórðu plötuna mína, Whenever you are ready, í fyrra og í ágúst kemur sú fimmta út, Where the light enters. Síðasta föstudag kom einmitt fyrsta lagið út af nýju plötunni, The wound. Ég gef þessa plötu út í samstarfi við breska plötufyrirtækið Whitelabrecs.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Alþjóðlegi píanódagurinn og tónleikarnir

Tónleikarnir þrír eru til að heiðra hljóðfæri Sævars, píanóið. „Við erum að fagna alþjóðlega píanódeginum sem er haldinn hátíðlegur 29. mars (stundum 28. mars, á hlaupárum), sá dagur er áttugasti og áttundi dagurinn á árinu, sem er sami fjöldi og nóturnar á píanóinu. Þetta er mjög skemmtilegur dagur þar sem píanóinu er fagnað á alls kyns máta, píanósmiðir, píanóstillar og í raun bara allt sem viðkemur þessu yndislega hljóðfæri er heiðrað á ýmsan máta. Nils Frahm sem er mjög framarlega á sviði nýklassískrar tónlistastefnu, er stofnandi og aðalhvatamaðurinn af þessum alþjóðalega píanódegi svo þessi hefð er ekki mjög gömul en mig grunar að hún eigi bara eftir að vaxa og dafna í framtíðinni. Píanóið er svo vinsælt og algengt hljóðfæri, hentar t.d. vel til að læra tónfræði. Ég er mjög spenntur fyrir þessum tónleikum en við erum allir að gefa út plötu um þessar mundir. Við Eðvarð kynntumst í Listaháskólanum og kynntumst svo Miro þegar við fórum í tónsmíðabúðir í Póllandi árið 2021. Þetta var mjög góður skóli, góðir kennarar eða í raun þjálfarar sem vinna við að velja tónlist fyrir þætti og kvikmyndir, sem gáfu okkur góð ráð hvernig eigi að semja stef og annað. Eins var frábært að kynnast Miro, geta farið til hans og nú er hann að koma til okkar. Það sem tekur við hjá mér eftir þessa tónleika er að fylgja plötunni eftir og þróa mig áfram sem listamaður, ég á eftir að gefa út mun fleiri plötur í framtíðinni og hlakka mikið til,“ sagði Sævar að lokum.