Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Hagleiksmaður á Hafnargötunni
Á heimili Tryggva má sjá ýmis falleg verk sem hann hefur skorið út í gegnum tíðina. VF-mynd/dagnyhulda
Laugardagur 18. mars 2017 kl. 06:00

Hagleiksmaður á Hafnargötunni

- Tryggvi Larum bjó í Njarðvík til þriggja ára aldurs en flutti þá til Bandaríkjanna - Ætlar að verja efri árunum í Keflavík

Tryggvi Thorleif Larum ólst upp í Njarðvík til þriggja ára aldurs og flutti þá með foreldrum sínum, íslenskri móður og norsk-bandarískum föður til Norður-Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hann hefur búið síðan. Tryggvi fór nýlega á eftirlaun eftir að hafa starfað í mörg ár hjá bandarísku póstþjónustunni og þá ákváðu hann og eiginkona hans, Amy Larum, að setjast að á Íslandi. Þau hafa komið sér vel fyrir í íbúð við Hafnargötuna í Reykjanesbæ sem þau kalla nú sinn heimabæ. „Við sjáum hvali og norðurljósin út um gluggana, svo við erum mjög sátt með nýja heimilið,“ segir Tryggvi.

Foreldrar hans kynntust um miðja síðustu öld þegar faðir hans, Kenneth Otto Larum, kom til Íslands til að byggja Keflavíkurflugvöll. „Móðir mín, hún Gréta Gunnarsdóttir, var minn fyrsti kennari og las oft fyrir mig Íslendingasögurnar. Á heimilinu voru ýmsir munir sem minntu á Ísland enda var mamma mjög stolt af uppruna sínum. Það sama má segja um mig því ég hef alltaf verið mjög stoltur Íslendingur.“ Móðurafi Tryggva var Gunnar Salómonsson, oft nefndur Gunnar Úrsus. Hann var þekktur aflraunamaður í byrjun síðustu aldar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nýtur hverrar stundar við tréskurðinn
Þegar Tryggvi varð eldri langaði hann að fjárfesta í íslenskum munum í víkingastíl til að skreyta heimili sitt í Norður-Kaliforníu. Þá rann upp fyrir honum að slíkir munir voru hvergi til sölu. „Þá ákvað ég að læra tréskurð og gera þetta sjálfur. Mest lærði ég af því að prófa mig áfram en fann svo líka bandarískan listamann sem skorið hafði út hesta sem settir voru á hringekjur. Svo leiddi eitt af öðru og ég náði góðum tökum á tréskurði. Smátt og smátt fengu verkin meiri athygli og mörg þeirra hef ég selt víða um heim.“ Eitt verka Tryggva er til sýnis á Vesturfarasafninu á Hofsósi en það var afhent Halldóri Ásgrímssyni heitnum, fyrrum forsætisráðherra, í Gimli í Kanada. Tryggvi kveðst hafa verið einkar stoltur þegar hann fékk þær fréttir að forsætisráðherrann ætlaði að þiggja verkið að gjöf. „Auðvitað langaði mig að segja mömmu fréttirnar en hún var látin á þessum tíma. Ég veit að hún hefði líka orðið stolt. Þetta var því stór en erfið stund fyrir mig.“

Tryggvi og Amy eru mikið áhugafólk um víkingalífsstíl.

Tryggvi segir fólk á Íslandi stundum undrandi yfir því að hann sé sjálflærður tréskurðarmeistari. Sjálfur er hann viss um að hann hafi hæfileikana í blóðinu vegna norræna upprunans og nýtur hverrar stundar við listsköpunina. „Þegar ég var enn að vinna sinnti ég listinni alltaf á kvöldin og um helgar og hún veitti mér miklu meiri gleði en dagvinnan. Það er eitthvað við listina sem dregur mann að sér. Við listsköpun verður einbeitningin að vera mikil og ekki hægt að vera að pæla í neinu öðru og það er svo hollt. Þannig er hægt að beina orkunni sinni í eitthvað jákvætt.“ Tryggvi var í bandaríska hernum á árunum 1975 til 1978 og kveðst hafa hlotið þjálfun þar til að eyða sem sé andstæðan við listsköpunina þar sem hann býr eitthvað til.

Meiri kröfur til íslenskukunnáttu útlendinga áður fyrr
Eftir að Tryggvi flutti til Bandaríkjanna talaði hann alltaf ensku við móður sína. Hann og Amy stunda nú íslenskunám af kappi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og gengur vel. Eftir að hafa flutt til Bandaríkjanna þriggja ára kom Tryggvi ekki aftur til Íslands fyrr en hann var orðinn 25 ára gamall. Þá vann hann í nokkra mánuði hjá Vífilfelli, í fiski í Vestmannaeyjum og á togara og lærði svolitla íslensku í vinnunni. „Markmiðið hjá okkur Amy er að verða það góð í íslensku að við getum haldið uppi samræðum. Ég tala ágæta „vinnu-íslensku“ síðan í gamla daga enda voru gerðar meiri kröfur til útlendinga þá að læra málið.“ Tryggvi bendir á að sumir yfirmanna hans hafi verið gamlir karlar sem ekki kunnu orð í ensku og þá hafi hann þurft að gjöra svo vel að læra öll orð sem tengdust störfunum á íslensku.

Þegar Tryggvi flutti til Íslands gaf hann frá sér öll verkfæri þar sem rafmagnið á Íslandi er annars konar en í Bandaríkjunum. Hann er núna að leita að góðum stað á Suðurnesjum þar sem hann getur haldið listsköpuninni áfram.

Keppti í snjóskurði í -24 gráðum
Eftir að hafa fengist við tréskurð í mörg ár fékk Tryggvi skemmtilega áskorun á dögunum. Hún var að taka sæti í fjögurra manna liði á Annual International Snow Sculpture Championship, alþjóðlegu móti í snjóskurði í skíðabænum Breckenridge í Colorado í Bandaríkjunum. Mótið var haldið í 2.800 metra hæð yfir sjávarmáli og voru 16 lið skráð til leiks, flest frá Bandaríkjunum en einnig víðs vegar að úr heiminum. Upphaflega átti lið Tryggva að heita Team US/Iceland en liðsfélagar voru svo beðnir um það af skipuleggjendum að breyta nafninu í Team Iceland þar sem mörg lið voru með skammstöfunina US í sínu liðsnafni. Tryggvi segir það hafa verið mikla upplifun að taka þátt í mótinu. „Kuldinn fór allt niður í -24 gráður á Celsius og það er mesti kuldi í 27 ára sögu mótsins. Vatnið okkar fraus í flöskunum og þegar við snertum stál frusu vettlingarnir okkar við það. Ég var því mjög ánægður að koma aftur heim í hitann á Íslandi,“ segir hann og hlær. „Vinur minn, sem er norskur og bandarískur, hefur sótt um á mótinu fyrir liðið okkar síðustu þrjú ár en alltaf fengið neitun, þar til í ár svo þetta var langþráður draumur að rætast.“ Þátttaka í keppninni reyndi mikið á bæði andlega og líkamlega enda voru keppendur úti í kuldanum í allt að 14 tíma á dag. Tryggvi hafði undirbúið sig með því að ganga rösklega á hverjum degi en segir að ef hann hefði vitað hversu krefjandi snjóskurðurinn var hefði hann gengið helmingi lengra. 

Liðið fékk 20 tonna klump til að vinna listaverk úr.

Þar sem mótið var haldið í 2.800 metra hæð segir Tryggvi þá hafa fundið fyrir háfjallaveiki allan tímann og því andað að sér súrefni úr sérstökum súrefnisflöskum og drukkið mikið af vatni til að vinna gegn áhrifunum. Hvert lið fékk tuttugu tonna snjóklump til að vinna listaverk úr á fjórum dögum og segir Tryggvi að vegna kuldans hafi klumpurinn verið meira eins og klaki en snjór. Íslenska liðið var það elsta á mótinu en allir liðsmennirnir eru orðnir sextugir. Hann segir það góða tilfinningu að vita að hann geti enn ratað í ævintýri þrátt fyrir að vera orðinn sextugur. „Svo var ég líka einstaklega stoltur af því að vera í íslenska liðinu og að flagga íslenska fánanum þarna uppi í fjöllunum í Colorado. Um 40.000 manns voru á svæðinu á þessum tíma og ótrúlega margir komu og gáfu sig á tal við okkur. Það merkilega var að nær allir voru annað hvort nýkomnir frá Íslandi eða á leiðinni þangað. Hvað sem það er sem verið er að gera til að kynna Ísland í Bandaríkjunum, þá hefur það virkað. Ég gerði mitt besta til að segja fólki frá Íslandi.“

Ancestry on Ice leit svona út þegar það var tilbúið.

Tryggvi og Amy eru áhugafólk um víkingalífsstíl og eru þessa dagana að koma á laggirnar slíkum hóp hér á landi. Þau eru líka meðlimir í breskum áhugahóp um víkingalíferni. Nú í vor hefur hópnum verið boðið á enduropnun á Jorvik Viking Centre á Englandi en það verður opnað á ný í apríl, endurbyggt eftir flóð. Þar verða Tryggvi og Amy ásamt vinum í víkingabúningum og Tryggvi ætlar að skera út listaverk á staðnum. Það er því ljóst að ævintýrin halda áfram hjá þessum nýju íbúum Reykjanesbæjar.
[email protected]

Team Iceland skipuðu auk Tryggva þeir Ira Kessey, Larry Dion og Ray Kinman. Verkið heitir Ancestry in Ice. Liðið fékk úlpur frá 66°Norður sem Tryggvi segir hafa gert gæfumuninn í -24 stigum.