Hafið gaf og hafið tók
Gæi í Koti er enn að róa og býr til sinn eigin harðfisk
Bárurnar bönkuðu nánast á svefnherbergisgluggann hjá Garðari Magnússyni þegar hann var að alast upp á Sjávargötunni í Njarðvík. Margir þekkja Garðar betur sem Gæa í Koti, Höskuldarkoti nánar til tekið. Hann er einn af þessum upprunalegu Njarðvíkingum. Forfeður hans komu í plássið rétt fyrir árið 1800 og hafa haldið þar til síðan. Hafið hefur alltaf spilað stóra rullu í lífi Garðars. Hann var rétt um fimm ára aldur þegar hann og félagar hans fóru að leika sér á árabátum í höfninni. „Svo var maður á bryggjunni, alltaf dettandi í sjóinn,“ segir Garðar og hlær. Garðar er hláturmildur og glaðlyndur. Hann hefur sannarlega lifað tímana tvenna en tekur lífinu ekki of alvarlega.
Hann fór ungur að stunda sjómennsku sem átti eftir að verða ævistarfið. Hann var skipstjóri um áratugaskeið, rak útgerð og átti fjölda báta. Hann hefur ekki enn sleppt takinu á sjónum. Hann er enn að róa gamli maðurinn, 85 ára að aldri. Nú fer hann aðallega til sjós til þess að ná í hráefni í harðfiskinn sinn sem hefur vakið þónokkra athygli. Fyrir rúmum tíu árum fór hann að dunda sér við að gera harðfisk. Hann hefur komist upp á lagið með að verka fiskinn á sinn einstaka hátt og afraksturinn er hreint unaðslega góður. Það getur blaðamaður vottað um.
Hjartað gaf sig á sextugu
Hann átti á sínum tíma sex báta yfir 200 tonn. Hann rak einnig frystihúsið sem sjá má út um eldúsgluggann á heimili hans. Húsið gekk undir heitinu Sjöstjarnan. Það er því óhætt að segja að sjávarútvegurinn hafi átt hug hans alla tíð. „Sjómennskan já, það er fínt að vera á sjó. Þetta var nú bara lifibrauðið og gaf ágætlega af sér ef maður fiskaði vel,“ segir Garðar. Hann horfir á vinnuvélar sem grafa stóran skurð fyrir utan gluggann hjá honum og rifjar upp þegar faðir hans vann að hafnargarðinum þarna skammt frá á sínum tíma. Þá voru notaðir hakar og skóflur og grjótin voru hýfð upp á höndum „Þetta var ekkert nema þrældómur frá vöggu til grafar. Enda voru margir þessir menn bara búnir um fertugt eða fimmtugt,“ segir hann ofan í kaffibollann. Eftir allt hans streð, af hverju er hann þá enn í fullu fjöri, að sækja sjóinn og vinnandi?
„Ég var búinn um sextugt skal ég segja þér. Það var bara út af matnum sem ég var að éta, hvað ég hirti lítið um að borða hollan mat. Þá fór hjartað, hjáveitu-vesen og ég veit ekki hvað. Ég fór til London og lét blása mig og pældi lítið í þessu eftir það. Svo skömmu síðar datt ég niður í frystihúsinu þegar ég var að moka ís,“ segir hann og hlær dátt. „Ég komst þar inn á skrifstofu og fór svo heim á bílnum. Ég fór svo upp í bæli en var allur orðinn rennandi blautur af svita. Þá sagði ég við frúna að kalla á sjúkrabíl, það væri eitthvað ekki alveg eins og það ætti að vera,“ og hann hlær enn frekar. Þetta reyndist vera hjartaáfall sökum kransæðastíflu. Það kom dauður blettur í hjartað og hann var skorinn tveimur dögum síðar. Eftir þetta fór hann að borða hollari mat. Þetta var árið 1993 og Garðar hefur ekki fundið fyrir þessu síðan hann var skorinn upp.
Vill vinna meðan heilsan leyfir
Garðar vill hafa eitthvað fyrir stafni og hefur gaman af því að vinna. „Mér leiðist auðvitað að hanga og gera ekki neitt. Að vera einn að gaufa hér og telja á mér tærnar. Meðan maður hefur heilsu þá vil ég vinna.“ Hann hefur aðeins leitt hugann að því að fara á elliheimili en finnst það þó ekki tímabært. „Ég hef nú ekki verið í þessu eldriborgara veseni, ég hef ekki nennt því. Ég hef bara haft það mikið að gera,“ segir sá gamli.
Garðar er jú við hestaheilsu, en smá aðgerð á öxlinni aftrar honum frá því að komast á sjóinn. Það þykir honum miður og talar um að hann sé í smá veikindaleyfi frá vinnu. Ef frá er talið hjartavesenið þetta nauðsynlega viðhald eins og hann segir sjálfur, þá er heilsan góð. Fimm daga vikunnar borðar hann fisk og þykir alltaf jafn góður. Hann virðist lunkinn að gera góðan fisk og hann sýnir blaðamanni stærðarinnar pönnu með steiktum og fallegum fisk. Sá skammtur dugar víst fyrir vikuna. Harðfiskurinn hans þykir góður og er til sölu á nokkrum stöðum. Nýlega tók veitingastaðurinn Matur og drykkur í Reykjavík harðfiskinn inn til sín en þar þykir þetta dýrindis forréttur með einhverju sósujukki, samkvæmt lýsingum Garðars. „Ég gæti eflaust selt miklu meira af þessu en þá þarf ég að vera allan sólarhringinn að þessu helvíti,“ segir Garðar og hlær enn og aftur.
Furða hve fáir fórust
Garðar og kona hans Arndís Lára Tómasdóttir eignuðust átta börn. Ein af þeim var stúlka sem dó við fæðingu. Árið 1971 drukknaði svo Njörður sonur þeirra við bryggjuna í Njarðvík. Sex börn eru á lífi og barnabörnin orðin fleiri en hann hefur tölu á. Jón Sighvatsson keypti Hölskuldarjörð af Duus fjölskyldunni árið 1795 en jörðin var þá eyðijörð. „Við höfum verið hérna síðan. Ég keypti húsið ári eftir að faðir minn dó eða árið 1965. Ég var með svo marga krakka að þetta passaði ágætlega,“ segir hann og skellir upp úr. Sjálfur er Garðar tvíburabróðir og átti sjö systkini. Tveir bræður hans drukknuðu við bryggjuna í Njarðvík. „Hafið gaf og það tók líka. Svona er þetta með þessi atvik. Maður ræður ekki við það. Maður var alltaf að leika sér þarna við sjóinn. Það er í raun furða hvað það fórust fáir. Ég var nærri því drukknaður hérna sjálfur þegar ég var fimm eða sex ára. Júlli gamli í Hlíð sá mig kominn á kaf og kom og dróg mig upp,“ rifjar Garðar upp.
Hér áður fyrr var hann manna harðastur í að róa og fór jafnan út þegar aðrir sátu heima. Hann hefur þó ekki lent í sjávarháska á sinni löngu starfsævi. Garðar man þá tíð þegar tæknin var ekki til staðar um borð í bátunum. „Mönnum þótti ég róa heldur stíft. Ég man eftir einum sem sagði að hann vildi ekki vera með mér lengur á bátnum. Ég réri of mikið. Það er bara eins og með krákuna, sitjandi kráka sveltur en fljúgandi fær.“
Það var algjör bylting þegar dýptarmælirinn kom til sögunnar rifjar Garðar upp. Nú er þetta allt meira og minna sjálfstýrt og búið tólum og tækjum. „Nú get ég verið að gera að á meðan sjálfstýringin sér um að koma mér í land.“
Garðar á ekki von á að leggja árar í bát og hætta að sækja sjóinn fyrr en skrokkurinn fer að gefa sig. „Ég verð klár í slaginn í vor. Ég hef bara gaman að þessu og þykist vera að gera góða hluti,“ segir hann að endingu.
Hér að neðan má sjá myndband þar sem Garðar segir frá því þegar hann hóf að verka harðfisk á sínum tíma.