Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hafa bakað saman sörur í áratug
Hólmfríður María Hjaltadóttir, Sigrún Pétursdóttir og Margrét Arna Eggertsdóttir baka sexfalda uppskrift af sörum fyrir hver jól.
Föstudagur 18. desember 2015 kl. 07:00

Hafa bakað saman sörur í áratug

- Skemmtileg jólahefð hjá vinkonum

Vinkonurnar þrjár, Margrét Arna Eggertsdóttir, Sigrún Pétursdóttir og Hólmfríður María Hjaltadóttir hafa átt þá skemmtilegu jólahefð í tíu ár að baka saman sörur. Margrét Arna og Sigrún ólust upp í Sandgerði og hafa verið vinkonur um árabil. Þær kynntust Hólmfríði Maríu frá Keflavík í gegnum störf sín í flugstöðinni á þeim tíma. Árið 2005 kom Margrét með þá snjöllu hugmynd að þær vinkonurnar myndu baka sörur saman. „Við létum slag standa þrátt fyrir að vita ekkert hvað við vorum að fara út í. Nú höfum við notið þess að baka saman sörur í tíu ár og um sörubaksturinn okkar má segja að hið fornkveðna hafi reynst rétt; að æfingin skapi meistarann,“ segir Hólmfríður. 
 
Í gegnum árin hafa myndast ýmsar hefðir og siðir í kringum herlegheitin. Yfirleitt  baka þær sexfalda uppskrift og hefur hver og ein í hópnum sitt hlutverk. Til að mynda gerir Sigrún kremið á meðan Margrét og Hólmfríður undirbúa og baka botnana. Allar smyrja þær svo kreminu á botnana og hjúpa með súkkulaði í lokin. „Í fyrstu skiptin gerðum við allt á einum degi en komumst fljótt að því að slík vinnubrögð hentuðu ekki því við náðum ekki að njóta okkar saman á aðventunni. Sörubaksturinn tekur sinn tíma þar sem nostra þarf við hverja köku. Því þróaðist vinnan við baksturinn yfir á tvo daga og höfum við síðustu árin komið saman einn dag til að baka botnana og hrært kremið. Næsta dag smyrjum við og hjúpum sörurnar. Í fyrra ákváðum við að taka sörubaksturinn skrefinu lengra og bæta við Dumle sörum samhliða þeim gömlu góðu,“ segir Margrét.
 
Vinkonurnar mæla með því að fólk gefi sér góðan tíma í sörubaksturinn. Þær segja einnig gott að nota handkvörn við að mala möndlurnar, sigta flórsykurinn og blanda eggjahvítunum varlega saman við. Þær segja einnig mikilvægt að passa að sjóða sírópið hæfilega lengi og kæla það áður en því er blandað saman við eggja- og smjörblönduna. 
 
Börnin þeirra hafa alla tíð fengið að taka þátt í bakstrinum og eiga nú þá hefð að skreyta piparkökur á meðan mömmurnar vinna að sörugerðinni. „Á hverju ári fáum við svo innlit frá yndislegum fastagestum sem  taka út baksturinn og rétta okkur hjálparhönd ef þörf er á,“ segir Sigrún.
 
Sörurnar reyna vinkonurnar að spara eftir fremsta megni fyrir jólin. Í gegnum árin hafa þær gefið sörur til vina og ættingja og er nú svo komið að nokkrir eru í áskrift. Annar smákökubakstur hefur ekki fest sig í sessi hjá þeim líkt og sörurnar.
 
Í ár fögnuðu þær tíu ára söruafmæli og fékk hópurinn svuntur að gjöf af því tilefni. Þær áttu svo notalega stund með fjölskyldum allra. Þær ákváðu líka að halda dagbók þar sem þær skrá annál, góð ráð við baksturinn og annað skemmtilegt.
 
Meðfylgjandi er uppáhaldsuppskrift hópsins að Söru Bernhardt. Hana fengu þær árið 2005 frá myndarlegri húsmóður í Sandgerði sem þær kunna bestu þakkir fyrir.
 
 
Sörur Bernhardt
600 gr fínmalaðar möndlur með hýði
500 gr flórsykur
10 eggjahvítur
 
Aðferð
Blandið möluðu möndlunum og flórsykrinum saman. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim saman við möndlurnar og flórsykrinn. Úr deginu eru mótaðar litlar kúlur með teskeiðum. Bakaðar við 180 °C í 15 mín.
 
Smjörkrem
2 ¼ dl strásykur
2 ¼ dl vatn
10 eggjarauður
500 gr smjör (við stofuhita)
3 tsk. kakó
1 tsk. kaffiduft neskaffi
900 gr dökkir hjúp dropar frá Nóa Sírius
 
Aðferð við smjörkrem
Sjóðið vatn og sykur í síróp í 8 til 10 mínútur eða meira, látið bulla alveg stöðugt. Eggjarauður þeyttar á meðan. Sírópið látið kólna og svo er því hellt í mjórri bunu út í rauðurnar og hrært. Smjörið er skorið í teninga og svo er mjúku smjörinu bætt saman við eggjarauðurnar og sírópið hrært hægt við á meðan. Síðan er kaffinu og kakóinu bætt saman við. Smjörkremið er svo geymt í kæli þar til botnarnir eru smurðir. Á flötu hliðina á botnunum er smurður smjör toppur og hann svo hjúpaður með dökku suðusúkkulaði.
 
Dumle-krem
2 dl rjómi
18 Dumle-karamellur
100 gr rjómasúkkulaði
6 eggjarauður
8 msk. siróp
400 gr mjúkt smjör
600 gr Nóa Síríus rjómasúkkulaði til að hjúpa með
 
Aðferð 
Rjóminn er hitaður ásamt Dumle-karamellum og rjómasúkkulaðinu. Eggjarauður þeyttar á meðan. Smjörið er skorið í teninga og svo er mjúku smjörinu bætt saman við eggjarauðurnar. Sírópinu bætt út í ásamt súkkulaðirjómablöndunni og hrært vel.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024