Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hætti við að hætta vegna barnanna
Verðlaunahafar í keppninni um Jólahúsið 2013, ásamt Víði Jónssyni, fulltrúa HS Orku, sem gaf verðlaunin. Hallgrímur er lengst til hægri á myndinni. Við hlið hans er Grétar Ólason, Týsvöllum 1 og Helga J. Guðmundsdóttir, Heiðarbóli 19. VF-myndir/pket.
Þriðjudagur 17. desember 2013 kl. 15:00

Hætti við að hætta vegna barnanna

Eigandi Jólahússins 2013 skreytir aðallega fyrir börn bæjarins.

Hallbjörn Sæmundsson er eigandi Jólahússins 2013 við Túngötu 14 og hefur haft veg og vanda að skreytingu þess. Hann var að vonum sáttur við viðurkenninguna þegar Víkurfréttir höfðu samband við hann.

„Þetta er flott, maður. Þetta hefur alltaf verið jólahús og ég sé ekki alveg muninn á jólahúsi og ljósahúsi. Þetta er eitthvað sem nefndin ákvað og íbúarnir í ár,“ segir Hallbjörn. Hann hafði áður fengið viðurkenningar í ramma fyrir skreytingar og það sé alltaf skemmtilegt. Keppnin um Jólahúsið hófst árið 2000 en Hallbjörn segist hafa byrjað að skreyta miklu fyrr.

Húsið á jólakorti í Ástralíu
Hann segir að stanslaust sé keyrt framhjá húsinu og þannig hafi það verið í gegnum árin. „Svo eru það blessuð börnin. Enda er maður að hugsa fyrst og fremst um þau. Ég var að spá í að hætta þessu en fékk svo samviskubit yfir því út af þeim. Það eru heilu leikskólarnir sem koma og alltaf á svipuðum tíma.
Núna koma stúlkur, sem áður komu sem leikskólabörn, með barnavagna og skoða. Það er skemmtilegt,“ segir Hallbjörn. Hann segir konu hafa hringt í sig og tjáð sér að það væri mynd af húsinu á jólakorti í Ástralíu. Einnig viti hann af mynd af húsinu á Facebook.

Keypti mikið af skrauti í siglingum
Sjálfur segist hann alltaf hafa verið jólabarn og mikið fyrir glingur frá því hann var barn. Hann bjó áður í fjölbýlishúsi en skreytti þá bara vel inni. „Ég var í siglingum í 11 ár hjá Eimskipafélaginu og keypti mikið af skrauti þá. Sankaði að mér. Þegar skipsfélagarnir fóru í verkfærabúðir fór ég í jólabúðir,“ segir Hallbjörn glaðbeittur. Hann hefur búið við Túngötuna í um 16 ár og hefur þróað skreytingarnar smám saman. „Sumt af þessu er heimasmíðað, t.d. líkan af húsinu og hellir, sveitabær og kirkja. Hellirinn er með Grýlu, Leppalúða og öllu liðinu, maður.“

Líkanið vekur mesta athygli
Hann segir litla líkanið af húsinu sjálfu gjarnan vekja mesta athygli en frá því hljóma jólalög. „Þetta er Útvarp Latibær og krakkarnir hafa gaman að því að dansa við gömlu góðu jólaballalögin með Ómari Ragnarssyni og fleirum,“ segir Hallbjörn og bætir við að hann slökkvi á útsendingunni um níuleytið á kvöldin til að pirra ekki nágrannana. Annars segir hann ekki mikið um kvartanir. „Ef nágrannar kvarta þá gera þeir það bara. Ef þeir þola ekki jólin einu sinni á ári verða þeir bara að flytja úr landi,“ segir Hallbjörn kíminn.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólahús Reykjanesbæjar árið 2013, Túngata 14.  VF mynd/Hilmar Bragi.

VF/Olga Björt