Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hættar að sperra okkur á lappir á morgnana
Skemmtilegur kvennahópur sem bjóða fleiri konur velkomnar!
Laugardagur 19. janúar 2019 kl. 07:00

Hættar að sperra okkur á lappir á morgnana

Kvennahittingur í bókasafninu í Reykjanesbæ. - Farið yfir helstu mál samfélagsins. Ánægðar þegar bæjarstjórinn heilsar upp á þær.

Nokkrar konur hittast þrisvar í viku í Bókasafni Reykjanesbæjar og eiga þar góða stund saman þar sem farið er yfir hin ýmsu mál auk þess sem þær borða saman. Þær byrjuðu á þessu fyrir þremur árum og síðan hefur hópurinn stækkað. Blaðakona Víkurfrétta heilsaði upp á stöllurnar einn daginn rétt eftir hádegi en þá voru þær búnar að borða saman hjá Angelu sem rekur Ráðhúskaffi. Konurnar sem voru á staðnum þennan daginn heita Árný, Ásdís, Bína, Ella, Eygló og Svala. Þær voru hressar og alveg til í Víkurfréttaspjall.

Fullt af skemmtilegum konum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við byrjuðum svona fjórar, fimm konur að hittast hérna fyrir þremur árum til þess að brjóta upp daginn og prjóna saman. Nú erum við stundum tíu sem hittumst hérna þrisvar í viku en hittingurinn byrjar alltaf á hádegismat hjá henni Angelu okkar og svo förum við hérna í hornið okkar og prjónum saman. Bókasafnið tekur svo vel á móti okkur,“ segir Svala.

„Við erum allar komnar á eftirlaun og viljum stytta okkur stundir, hittast og hlæja saman. Það er svo gott fyrir sálina. Við hugsum um hver aðra. Ef ein mætir ekki þá athugum við hvort allt sé í lagi. Þetta finnst konunum gott og gefur þeim öryggistilfinningu,“ segir Eygló og Árný bætir við: „Einhverjar eru ennþá með karla heima en koma þá hingað ef þeir eru leiðinlegir.“ Þetta finnst þeim öllum fyndið og hlæja dátt að þessari athugasemd. „Æ! Ekki skrifa þetta ef einhverjir karlar móðgast,“ segir einhver. „Jú, jú, þetta þola karlarnir alveg, þeir hafa nú húmor fyrir sjálfum sér. Nei, öllu gríni slepptu þá er svo gott að hitta aðrar konur og ræða saman. Við erum félagsverur og höfum þörf fyrir að hittast og vera saman. Við tölum um allt mögulegt, landsins gagn og nauðsynjar. Það gleður okkur mikið þegar bæjarstjórinn kemur til okkar og heilsar sérstaklega upp á okkur hérna. Já, og bæjarfulltrúar einnig, eins og Friðjón Einars. Þeir sýna okkur svo mikla virðingu. Þeir nenna að setjast hérna hjá okkur og hlusta á það sem við höfum fram að færa og ræða við okkur. Við elskum þá,“ segir Svala og hinar taka undir þetta.

„Svo erum við mitt í hringiðunni, bókasafnið er eins og félagsmiðstöð. Hingað kemur fólk á öllum aldri og einnig fólk sem er að flytja til landsins,“ segir Eygló. „Já og við brosum til þeirra og bjóðum þau velkomin til landsins með því að sýna þeim hlýlega framkomu. Annars er ég líka að passa barnabörnin mín þrjú minnstu, einu sinni í viku og það er líka það skemmtilegasta sem ég geri. Við borðum saman um kvöldið, það er svo notalegt að eiga stund með þeim,“ segir Svala.

Eru allar konur velkomnar?

„Já, já, já. Við tökum vel á móti öllum konum sem vilja hitta aðrar konur. Þær þurfa ekki endilega að prjóna en ef þær vilja það eða fá aðstoð við prjónaskapinn þá eru margar flinkar í hópnum. Bína er til dæmis ekkert að prjóna en hún kemur samt,“ segir Ásdís.

„Ja, ég var nú bara að lesa dagblöðin á bókasafninu þegar ég tók eftir þessum hópi kvenna og heilsaði upp á þær. Síðan þá hef ég komið hingað og finnst mjög gaman að hitta þær,“ segir Bína.

„Við búum langflestar einar, annaðhvort erum við ekkjur eða fráskildar en sumar eru með eiginmenn. Það skiptir auðvitað engu máli. Sumar vilja hittast á hverjum degi og það gerum við sem búum einar. Það er svo dýrmætt að hafa svona góðan félagsskap á efri árum. Það er svo margt í boði fyrir eldri borgara. Við förum einnig á Nesvelli og borðum þar inn á milli. Það fer svona eftir matseðlinum,“ segir Svala og hlær og hinar hlæja með henni.

„Við nennum ekki lengur að elda heima hjá okkur og erum hættar að sperra okkur upp á morgnana. Loksins þegar maður er komin á eftirlaun er gott að njóta frítímans vel, sofa lengur á morgnana ef maður vill og svona,“ segir Ásdís og hlær.

„Já, það er dýrt að henda mat þegar við eldum heima bara fyrir einn, þá er hagstæðara að borða á Nesvöllum og hér í Ráðhúskaffi. Það er svona þegar maður á engan hund sem borðar afgangana,“ segir Árný.

„Þetta er góður félagsskapur og engin þarf að vera einmana,“ segir Ella.

„Við hittum alls konar fólk hérna. Á föstudögum kemur hópur flugstjóra hingað sem búa á Suðurnesjum og fá sér kaffi. Þeir spjalla stundum við okkur og það er svo góð lykt af þeim,“ segir Ásdís dreymin og hinar taka undir það hvað þeir séu allir sætir og góðir ungir menn.

„Svo eru það Valdi og strákarnir á okkar aldri en þeir hittast líka hérna á morgnana og fá sér kaffi saman. Það er gaman að hitta þá líka,“ segir Svala.

„Heyrðu þarna kemur Kjartan Már vinur okkar,“ segir einhver þegar bæjarstjórinn kemur labbandi til okkar og heilsar hópnum með virktum. „Já, við erum svo miklar vinkonur,“ segir hann og þær skella upp úr.

Hvað með hreyfingu?

„Ég fer mikið út að ganga, það finnst mér æðislegt og heldur mér hressri,“ segir Svala og hinar taka undir, að þær séu eitthvað að hreyfa sig en gætu sjálfsagt gert meira af því og byrja að tala um heilsuátakið sem Reykjanesbær stóð fyrir og Janus sem ennþá er að leiðbeina eldri borgurum í átt til betra lífs. Hver veit nema þær fari líka að hreyfa sig markvisst saman með vorinu?

[email protected]