Hætta eftir 44 ára starf hjá Grindavíkurbæ
Það er gæfa Grindavíkurbæjar hversu mikla hollustu starfsfólk sýnir bænum. Um áramótin hætta tveir reynslumiklir starfsmenn sem hafa unnið í sundlauginni í samtals 44 ár, þær Sigríður Ágústsdóttir og Ester Garðarsdóttir, en þær eru báðar komnar „á besta aldur“. Starfsfólk sundlaugarinnar hélt þeim kveðjuveislu í tilefni þessara tímamóta sl. fimmtudag en greint er frá þessu á vef Grindavíkurbæjar.
Ester hefur unnið í sundlauginni, þeirri gömlu og nýju, í rúm 26 eða frá 15. september 1986. Sigríður hefur unnið í sundlauginni frá 8. apríl 1994.
Frá kveðjuveislunni. Hér er hluti af núverandi og fyrrverandi starfsliði sundlaugarinnar. Frá vinstri: Fanný Laustsen, Þórhildur Rut Einarsdóttir, Ólína Þuríður Þorsteinsdóttir, Sigríður Ágústsdóttir, Ester Garðarsdóttir, Sigurgeir Sigurgeirsson, Þórkatla Albertsdóttir, Snorri Viðar Kristinsson, Ólöf Þóra Jóhannesdóttir og Hermann Guðmundsson.