Hæsta einkunn í sögu FS
„Sundið hjálpaði mér mikið því það þarf mikinn aga til að ná árangri í sundi, þann aga tileinkaði ég mér í náminu og þetta er afraksturinn,“ segir dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Alexander Logi Chernyshov Jónsson. Alexander gerði sér lítið fyrir og sló met hvað varðar hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi í FS; 9,97.
Alexander hefur ekki alltaf verið svona mikill námshestur.
„Ég var víst ekkert sérstaklega þægilegt barn, var líklega ofvirkur eða eitthvað svo mér gekk ekkert sérstaklega vel í skóla til að byrja með, var t.d. ekkert mjög fljótur að verða læs en hef alltaf verið flinkur í stærðfræði. Það breyttist síðan eitthvað hjá mér þegar ég færði mig yfir í Njarðvíkurskóla, ég var þá kominn í góðan félagsskap krakka sem voru með mér í sundinu og kennararnir þar náðu einhvern veginn betur til mín, hvöttu mig áfram og eftir það fékk ég miklu meiri áhuga á náminu. Það er nánast grundvallaratriði að hafa áhuga á viðkomandi námsgrein og ef maður vill getur maður fundið áhuga fyrir öllum fögum. Ég útskrifaðist með góðar einkunnir úr grunnskóla en það er allt í bókstöfum, ég var samt ekki með eins góðar einkunnir og bróðir minn sem var að útskrifast núna. Kannski athyglisvert að á sama árinu var hann með hæstu einkunn í 10. bekk Njarðvíkurskóla og ég að slá metið í FS, það verður fróðlegt hvort hann slái metið mitt en ég held að hann eigi ekki séns í það. Ég var á raunvísindabraut, þar er mikið um stærðfræði og eðlisfræðiáfanga sem liggur best fyrir mér enda fékk ég 10 í öllum fögum nema einu, fékk 9 í dönsku. Ég tók ekki námið á þremur árum eins og tíðkast í dag, ég vildi frekar klára þetta á fjórum árum og sé ekki eftir því, ég hefði líklega ekki náð þessum einkunnum ef ég hefði klárað á þremur árum. Þegar ég byrjaði var ég á fullu í sundi líka, var í sjö áföngum fyrstu önnina og sá fljótlega að ef ég ætlaði mér að geta stundað sundið líka á fullu, myndi ég ekki getað útskrifast með toppeinkunn og tók því námið á fjórum árum.“
Sundmeistari og trommuleikur
Alexander hefur orðið Íslandsmeistari í sundi en ákvað að segja skilið við sundskýluna og einbeita sér að öðru.
„Ég fann hvernig áhugi minn á sundinu minnkaði og því ákvað ég að segja skilið við það en mikið ofboðslega undirbjó sundið mig vel fyrir lífið yfir höfuð held ég, því til að ná árangri í sundi þarf mjög mikinn aga. Æfingar kl. hálf sex á morgnana, styrktaræfingar þar fyrir utan og ég mun seint geta fullþakkað þjálfaranum mínum í sundinu, Steindóri Gunnarssyni. Öll börn hafa gott af því að æfa íþróttir, boltagreinarnar henta ekki öllum og því hvet ég foreldra til að láta börnin sín æfa sund, það mun undirbúa þau vel fyrir lífið. Maður lærir að tileinka sér aga og ég hafði allan tímann í raun mjög gaman af sundi, finnst ennþá gaman að skella mér í sund og synda smá flugsund sem var mín besta grein en eins og ég segi, mér fannst ég ekki hafa tíma í að sinna sundinu sem skyldi,“ segir Alexander.
Móðir Alexanders er söng- og tónlistarkonan Alexandra Chernyshova. Alexander fékk því sömuleiðis tónlistarlegt uppeldi.
„Ég var látinn læra á flest hljóðfæri á grunnskólaaldri en þegar ég fór á fullu í sundið þá hætti ég í tónlistinni. Ef mér yrði skipað að setja tónlistarboltann aftur á loft, myndi ég líklega velja trommusettið, ég endaði á því á sínum tíma.”
Fjármálaverkfræði í HR
Fjármálaheimurinn heillar Alexander en hann hefur unnið fulla vinnu með námi í Arion banka að undanförnu.
„Ég fann í vetur að mig langaði að fara strax í háskólanám. Ég er búinn að vera vinna hjá Arion banka og fann hvað mig langar til að mennta mig meira í fjármálafræðum. Valið stóð í raun á milli hagfræði í Háskóla Íslands eða fjármálaverkfræði í HR og það síðarnefnda varð ofan á. Ég ætla nú bara að byrja á því að klára þetta Bs.c nám en finnst líklegt að ég myndi vilja taka síðasta árið í skiptinámi einhvers staðar úti í heimi. Hvort ég fer svo í mastersnám strax er of snemmt að segja til um, eigum við ekki svo að segja að stefnan sé sett á bankastjórastöðu í framtíðinni,“ sagði dúxinn að lokum.