Hænur á vappi í gamla bænum
Hjónin Álfheiður Jónsdóttir og Ólafur Ásmundsson eru orðnir hænsnabændur. Þau höfðu hugsað um það lengi að fá sér hænur í garðinn. Svo gerðist það að þau fréttu af þremur íslenskum landnámshænum sem vantaði heimili og stukku á þær.
Það er mánuður síðan þau fengu þessar hænur og hænsnahúsið heim á hlað til sín en hænurnar heita Dagbjört, Nótt og Skvetta.
Víkurfréttir kíktu í heimsókn en hænurnar voru ekkert alveg til í að heilsa útsendara blaðsins, sem varð að beita smá brögðum og halda næstum niðri í sér andanum til að komast nálægt þeim og fá góðar myndir.
Hænurnar heita Nótt, Dagbjört og Skvetta.
Voru búin að spá í þetta lengi
„Já, þær eru mjög tortryggnar á ókunnuga og það tók tíma að fá þær til að treysta mér en það er hægt að laða þær til sín með núðlum sem þeim finnst gott að borða. Með núðlunum tekst mér að fá þær aftur heim ef þær eru einhvers staðar á vappi í hverfinu. Það er nefnilega þannig að þær fara yfirleitt beint heim til prestsins þegar ég hleypi þeim út, í garðinn hjá henni og vappa þar um dágóða stund. Það er svona uppáhalds garðurinn þeirra en þær skila sér alltaf heim í kringum áttaleytið á kvöldin. Ég held að þær séu að leita að guðlegri forsjá í garðinum hjá séra Erlu,“ segir Ólafur og hlær.
Álfheiður hlær að þessum ummælum eiginmannsins og segir: „Við vorum búin að spá í þetta lengi út frá umhverfisvernd, að fá okkur hænur en þær borða alla matarafganga frá okkur og svo fá þær einnig lífrænt fóður. Við fáum sem sagt lífræn egg á heimili okkar núna. Það er voða skemmtilegt og eggin eru mjög bragðgóð. Við viljum leyfa hænunum að vera frjálsar því þannig eru þær hamingjusamari ímyndum við okkur. Ég hef samt verið að kanna viðhorf nágranna okkar hér í kring og athuga hvort þeir séu pirraðir á þeim en hef ekki enn fengið nein neikvæð viðbrögð. Ein nágrannakona okkar finnst þær bara krúttlegar þegar þær eru á vappi hér í hverfinu okkar.“
„Já, við viljum leyfa þeim að upplifa frelsi því við teljum þær vera ánægðari með hreyfingunni en ég er samt kominn með hugmyndir um að færa hænsnahúsið aftar í garðinn hjá okkur og girða þær af í ágætlega stóru hreyfirými. En á meðan fólkið hér í kring er sátt og við höfum ekki fengið kvartanir um að þær séu að skemma eitthvað þá erum við róleg,“ segir Ólafur.
„Hænurnar eru alltaf að klóra í jarðveginn og leita að ormum eða einhverjum ætilegum skordýrum en í leiðinni eru þær að losa um arfa og mosa í garðinum. Ég kalla þær garðyrkjukonurnar mínar og finnst þær bara krúttlegar,“ segir Álfheiður og brosir.
Hafa hænurnar mismunandi persónueinkenni?
„Nei það sjáum við ekkert sérstaklega nema að við tökum eftir því að Skvetta er greinilega leiðtoginn í hópnum. Þær hinar elta hana þangað sem hún fer. Ef ein verður villu vegar og tvær skila sér heim á kvöldin þá verða hinar mjög órólegar og róast ekki fyrr en sú þriðja er komin aftur til þeirra. Við fáum ekki að klappa þeim eða koma of nálægt þeim en samt fáum við heilmikið út úr því að hafa þær í kringum okkur hér í garðinum okkar. Bara það að sitja og fylgjast með þeim, heyra purrið í þeim og sjá þær vappa um er mjög róandi. Eldri barnabörnin okkar hafa einnig mjög gaman af því að fylgjast með þeim. Mér finnst þetta rosalega vinalegt. Það er samt ekki hægt að kyssa þær og kjassa,“ segir húsfreyjan á bænum hlýlega.
Íslenskar landnámshænur verpa passlega mikið
„Okkur finnst þetta mjög gefandi og ekki mikil binding ef við viljum skreppa í helgarfrí því þá má gefa þeim nógan mat áður og vatn sem er ekki síður mikilvægt en fóðrið. Hænur passa yfirleitt sjálfar að borða það sem þær þola og borða ekki allt, við erum svona að þreifa okkur áfram í þessu. Við vitum að þær þola ekki appelsínur og sítrónur. Ef þær fá lauk þá kemur laukbragð af eggjunum. Við vorum á námskeiði um helgina þar sem við fræddumst um íslenskar landnámshænur hjá samnefndu félagi. Jóhanna Harðardóttir, Kjalnesingagoði hjá Ásatrúarfélaginu, sú hin sama og er blaðamaður og kennari, hélt þetta námskeið en hún ræktar sjálf þessa tegund af hænum og selur. Íslenskar landnámshænur voru í útrýmingarhættu fyrir nokkrum árum en nú lítur út fyrir að búið sé að bjarga þessum merkilega stofni. Þetta var mjög fróðlegt námskeið sem kenndi okkur einnig margt um hænsnahald í þéttbýli. Hanar eru bannaðir í þéttbýli en þeir geta verið hættulegir börnum, þeir góla líka eldsnemma á morgnana sem fólk kærir sig ekki um. Það eru annars engar sérstakar reglur til um hænsnahald í Reykjanesbæ og því getur fólk haft hænur ef það vill, að því að okkur er tjáð. Annars finnst mér mávarnir mjög hávaðasamir og kettir geta einnig valdið miklu ónæði þegar þeir breima. Hænur eru mun hljóðlátari og fer í raun lítið fyrir þeim,“ segir Ólafur.
„Landnámshænur verpa ekki eins mörgum eggjum og þær hvítu hefðbundnu sem við þekkjum. Þær verpa einu eggi á dag, við erum aðeins búin að fá þrjú egg þrisvar sinnum síðan þær komu til okkar en það gerðist í dag þegar von var á blaðamanni Víkurfrétta,“ segir Álfheiður og brosir. Ólafur bætir við „en í fyrsta sinn verptu þær þremur eggjum á páskadag, sem okkur fannst fyndið því þær sækja mikið í garðinn hjá prestshjónunum. Séra Erla sagði okkur frá því að hún hefði séð þær á vappi fyrir utan kirkjuna einn daginn. Hvað allt þetta táknar vitum við samt ekki,“ segir Ólafur leyndardómsfullur á svip.
Búskapur endurvakinn í Þorvarðarhúsi
Í gömlu Keflavík var eitthvað um að fólk væri með húsdýr við heimili sín. Margir bæjarbúar af eldri kynslóðinni muna sjálfsagt eftir Helgu Geirs sem var með kýr á túninu heima hjá sér og Dóru Hjöss sem var með kindur í túnfætinum. Hjónin Álfheiður og Ólafur búa í einu elsta íbúðarhúsi Keflavíkur sem heitir Þorvarðarhús, byggt árið 1884 og er friðað.
„Langalangafi minn hét Þorvarður Helgason og var beykir en hann byggði þetta hús sem var að vísu miklu minna þegar hann byggði það. Húsið var byggt á þeim tíma sem Jamestown skipið strandaði út við Hafnir og farminum tókst að bjarga. Húsið er byggt úr hluta af þessum viðarfarmi. Þetta var rauð fura sem verið var að sigla með frá Ameríku til Englands en viðurinn var sérlega þykkur og átti að nota sem undirlag fyrir járnbrautateina á Englandi. Viðurinn var 3 tommu þykkir plankar og 8 til 11 tommu breiðir. Það eru nokkur gömul hús hér á Suðurnesjum sem byggð eru úr þessum sama viðarfarmi. Ég ímynda mér að langalangafi minn og fleiri sem bjuggu hér í upphafi hafi verið með einhver húsdýr á túninu hjá sér, kindur, kýr og hænur því á þeim tíma ríkti sjálfsþurftarbúskapur víða. Hér fyrir ofan túnið hjá honum var saltfiskbreiða veit ég og því ekki ólíklegt að langalangafi hafi skaffað sér og fjölskyldu sinni, eigin mjólk, kjöti og eggjum til heimilisins. Í dag eru þá aftur komnar hænur á túnið eins og var fyrir hundrað árum,“ segir Ólafur kíminn.