Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hæfileikríkar mæðgur framleiða húsmuni
Arna, Hrefna og Guðfinna Magnúsdætur og móðir þeirra Hulda Halldórsdóttir. Þær eru samrýmdar mæðgur sem hanna og framleiða fallega húsmuni í Grindavík. VF-mynd/dagnyhulda
Sunnudagur 14. febrúar 2016 kl. 06:00

Hæfileikríkar mæðgur framleiða húsmuni

Samrýmdar og listrænar mæðgur í Grindavík með ólíka menntun og bakgrunn hafa sameinað krafta sína og framleiða ýmsa fallega muni til að prýða heimilið undir merkinu VIGT. Þetta eru þær Hulda Halldórsdóttir og dætur hennar Arna, Hrefna og Guðfinna Magnúsdætur. Hulda hefur rekið verktaka- og innréttingafyrirtækið Grindina ásamt eiginmanni sínum, Magnúsi Guðmundssyni nær alla sína tíð. Þær segja hönnun og framleiðslu þeirra núna hafa sprottið út frá rekstri Grindarinnar. „Hugmyndin í upphafi var að reyna að nýta það efni sem til fellur á trésmíðaverkstæðinu en þar er alveg ógrynni af timbri hent. Þessa trébúta er mjög hentugt að nota í framleiðslu á smærri hlutum í færri eintökum,“ segir Arna.
 
Eru á gömlu hafnarvigtinni
Mæðgurnar eru með verkstæði og verslun í litlu húsi nálægt höfninni í Grindavík. Áður var Hafnarvigt Grindavíkur í húsinu og þaðan er nafnið VIGT komið. „Við vissum ekki alveg hvað við áttum að láta merkið heita. Þegar við hófum starfsemi í húsinu töluðum við alltaf um að við værum að fara niður í Vigt. Þetta festist við og tókum við ákvörðun um að þetta væri nafnið,“ segir Guðfinna. Guðmundur Ívarsson, tengdapabbi Huldu og afi stelpnanna, byggði húsið fyrir Hafnarvigt Grindavíkur á sínum tíma og því skemmtilegt að það sé nú vinnustofa mæðgnanna.
 
Fyrirtækið VIGT stofnuðu mæðgurnar árið 2013 og hafa gefið sér góðan tíma í þróun hugmynda í náinni samvinnu. Á síðasta ári settu þær sér það markmið að stofna vefverslun og varð hún að veruleika í nóvember. „Við getum ekki sagt annað en að móttökurnar hafi verið góðar því að á aðfangadag voru flestar vörurnar uppseldar. Við höfum unnið að því á þessu ári að vinna upp lagerinn,“ segir Hulda. Vefverslunin er alltaf opin en verslunin á Hafnargötunni er aðeins opin einn dag í viku og segja þær viðskiptavini ótrúlega duglega að keyra af höfuðborgarsvæðinu og frá öðrum bæjarfélögum á Suðurnesjum til þeirra. Þá hafa Grindvíkingar einnig verið duglegir að kíkja við.
 

Hélt að dæturnar færu ekki í smíðar

Ásamt því að sinna VIGT starfa mæðgurnar einnig með einhverjum hætti hjá fjölskyldufyrirtækinu Grindinni. Arna er lærður tækniteiknari og sér meðal annars um alla teiknivinnu og rekstur. Hrefna er lærður gullsmiður og starfar sem smiður á trésmíðaverkstæðinu og hefur gert samhliða námi síðan að hún var unglingur. Guðfinna lærði ljósmyndun og er með aðstöðu í sama húsi og VIGT. Um helgar og á kvöldin þegar ekki er nein starfsemi á trésmíðaverkstæðinu finnst þeim gott að hittast þar og smíða og inna af hendi önnur verkefni við framleiðsluna. Þær segja pabba sinn og samstarfsmenn sína á verkstæðinu veita þeim mikinn stuðning við smíðarnar. „Hann eignaðist þrjár dætur en engan son. Hann hélt að þær myndu fást við eitthvað allt annað en smíðar þegar þær yrðu fullorðnar en svo koma þær allar að fyrirtækinu á einhvern hátt,“ segir Hulda og brosir. Börn Örnu eru 17 og 12 ára og eru þegar farin að hjálpa til. „Þau eru stundum að aðstoða okkur. Þau komast ekki hjá því að kynnast þessu ekki frekar en við systurnar,“ segir Arna. 
 
Púðar sem mæðgurnar hjá VIGT hönnuðu og saumuðu. Ljósmynd/Guðfinna
 
 
Nú þegar hafa mæðgurnar í VIGT meðal annars framleitt bakka, rammabox, smáhillu, ilmkerti og púða og bjóða til sölu í netversluninni og á vinnustofunni í gömlu hafnarvigtinni. Þær hafa einnig framleitt ýmsa aðra muni í smáu upplagi og selt, til dæmis þegar þeim áskotnast fallegir bútar sem ekki duga í fjöldaframleiðslu. Í VIGT eru einnig seld kerti og horn frá Danmörku. Upphaflega var ætlunin að selja aðeins eigin framleiðslu en svo ákváðu þær að bæta við örlitlu af vörum frá öðrum framleiðendum til að auka vöruframboðið í byrjun. Kertin, Alterlyset, eru framleidd af rótgrónu dönsku fjölskyldufyrirtæki og hefur fimmti ættliðurinn nú tekið við því. „Við reynum alltaf að vanda vel þær vörur sem fara í sölu hjá okkur og hugmyndin er að vörurnar séu framleiddar á mannvænlegan hátt,“ segir Guðfinna. 
 
Markmiðið á þessu ári er svo að koma fleiri vörum í framleiðslu, þar á meðal aðeins stærri innanhúsmunum.
 
Fallegur ljósmyndakassi, hannaður og smíðaður hjá VIGT. Ljósmynd/Guðfinna
 
 
Gott að vera í Grindavík
Þegar fjölskyldan hittist er mikið rætt um vinnuna, eins og oft vill verða þegar fjölskyldan vinnur öll á sama stað. „Stundum þarf maður að vanda sig við matarborðið og reyna að finna eitthvað annað til að ræða,“ segir Hulda. Allar búa þær í Grindavík og segjast hvergi annars staðar vilja vera. Fjölskyldan borðar saman kvöldmat að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku og oft í hádeginu líka og eru þær sammála um að þau séu svolítið eins og stór ítölsk fjölskylda. Eftir langa daga á verkstæðinu um helgar taka karlarnir í fjölskyldunni gjarnan á móti þeim með mat sem þeir hafa skipulagt saman.
 
Mæðgurnar segja það hafa skipt sköpum í öllu hönnunar- og framleiðsluferlinu að hafa aðgang að trésmíðaverkstæði fjölskyldunnar. Þær hanna sjálfar munina og útfæra framleiðslu þeirra í samvinnu við föður sinn og smiðina á verkstæðinu. „Það má því segja að við búum vel að öllu leyti. Við getum sett þekkingu okkar allra saman og höfum aðgang að tækjum og efni allt í kringum okkur,“ segir Hrefna. Arna bætir við að oft þurfi þær aðeins að gera eina prótótýpu af hverjum hlut því undirbúningsvinnan sé svo góð og unnin í góðri samvinnu við alla.
 

Mægðurnar í VIGT hönnuðu ilmkertalínu og tók ferlið um hálft ár. Við framleiðsluferlið fundu þær þema fyrir línuna. „Að sjálfsögðu varð þemað viður,“ segja þær. Útkoman eru tveir ilmir sem hafa hvor sína stemmingu. Kertin eru í munnblásnum glösum með viðarloki sem hægt er að nota undir hvað sem er eftir að kertið hefur brunnið upp. „Okkur fannst mjög mikilvægt að umbúðirnar hefðu notagildi og væru fallegar eftir að ilmkertið sjálft væri búið,“ segir Guðfinna.

 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024