Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hádegistónleikar í Duushúsum: Söngvar svartra manna
Þriðjudagur 24. febrúar 2004 kl. 11:41

Hádegistónleikar í Duushúsum: Söngvar svartra manna

Tónlistarfélag Reykjanesbæjar stendur fyrir hádegistónleikum í Listasafni Reykjanesbæjar þriðjudaginn 2. mars n.k. í samstarfi við Íslensku Óperuna. Yfirskrift tónleikanna er "Nú er það svart" og mun Davíð Ólafsson bassasöngvari flytja „negrasálma“ við undirleik hljómsveitar. Davíð starfar við Íslensku Óperuna og er um þessar mundir á lokaæfingum fyrir Brúðkaup Figarós. Samstarfið við Íslensku Óperuna er tilraunaverkefni og ef undirtektir verða góðar er hugsanlegt að Tónlistarfélagið standi fyrir fleiri hádegistónleikum í framtíðinni.
Davíð segir slíka tónleika næringu á líkama og sál og brjóta upp daginn hjá fólki.

Nú er það svart - fyrir hvað stendur það?
Þetta stendur ekki fyrir slæmum horfum. Þetta er bara fallega meintur útúrsnúningur. Ég var bara í vandræðum með nafngiftina á þessari dagskrá.
Þetta er blanda af gospel-sálmum og blökkumannasöngvum og það var bara mjög erfitt að finna samheiti yfir þetta. Þetta eru því söngvar svartra manna, svo að nú er það svart!

Á þessi tónlist erindi við okkur?
Þetta eru söngvar þræla sem biðja fyrir betra lífi. Þeir eru kúgaðir og njóta engra mannréttinda og þeir leita sér huggunar í söng. Þetta er ekki
haturs og hefndarboðskapur heldur óska þeir sér frelsis, ef ekki hér á jörðu þá í hinu eilífa lífi hjá guði. Þeir voru svo undirokaðir að þeir urðu að leita út fyrir hið jarðneska til að finna vonina og héldu mjög fast í hana.  Við erum oft undirokuð af veraldlegum hlutum og dótinu sem við erum að safna í kringum okkur en gleymum oft því sem skiptir máli. Það verða allir að eiga einhverja von. Það er sammannlegt.

Eru hádegistónleikar að vera vinsælir? Hvað er það sem heillar fólk við það fyrirkomulag?
Þetta hefur slegið í gegn í Reykjavík og það er örtröð fyrir utan óperuna fyrir hverja tónleika. Við byrjum 12:15 og klárum um 12:50. Passar
nákvæmlega fyrir þá sem fá bara klukkutíma hádegishlé. Það er alltaf eitt ákveðið þema og margir eru áhugasamir að kynnast einhverju nýju. Þetta
brýtur daginn upp hjá fólki og mér er sagt að afköst þeirra sem sæki þessa tónleika margfaldist eftir hádegi. Svo er þetta allveg kaloríusnautt og ef að fólk klappar mikið næst út úr þessu töluverð brennsla. Reyndar eru seldar léttar veitingar fyrir og eftir tónleika en endurnæringin er algjör á líkama og sál.

Hvaða lög verða á efnisskránni?
Ég valdi lögin með Daníel Bjarnasyni píanóleikara en hann útsetti þetta fyrir klarinettu, fiðlu, selló og píanó. Við tökum dýpri deildina með lögum
eins og Go down Moses, Ol man river og Deep river Jordan. Svo erum við með lög úr Porgy and Bess og fleira í þeim dúrnum. Þessi dagskrá fékk frábærar viðtökur í óperunni og við höfum spilað úr þessu t.d. í sjónvarpinu og vakið mikla athygli.

En hvers vegna að koma með þetta til Reykjanesbæjar?
Það var aldrei á dagskrá. En í jólaboðunum hér syðra var mikið spurt um þetta og fólk mjög áhugasamt. Ég hafði því samband við tónlistarfélagið og í
samvinnu við Íslensku óperuna var látið vaða. Það er komin stórkostleg aðstaða í kringum Duushúsin og ég held að bæjarbúar séu að ranka við sér.
Öll sú athygli sem menningarlífið er að fá á landsvísu er allveg gríðaleg söluvara fyrir bæjarfélagið. Svo er öflugt menningarlíf líka lífsgæði sem
bætir sjálfsímynd fólks, og skapar þannig vænlegt bæjarfélag sem eftirsótt er að búa í.

Tónleikarnir hefjast kl. 12.15 í Listasafni Reykjanesbæjar og standa til 12.50. Miðasala er við innganginn og er miðaverð kr. 1.000.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024