Háð því að sigra sjálfa sig
-Þrettán kílóum léttari, andlega og líkamlega, eftir sigur í Superform-áskoruninni
Hún er tuttuguogsjö ára, tveggja barna móðir frá Keflavík. Hún er menntaður viðskiptafræðingur og stundar nám í fyrirtækjalögfræði við Háskólann á Bifröst. Á sama tíma er hún sigurvegari Superform-áskorunarinnar í ár. Elva Björk Sigurðardóttir reynir að fara í gegnum lífið með jákvæðnina að vopni enda líklegasta leiðin til árangurs.
Á uppskeruhátíð Superform, sem var haldin 6. apríl í Hljómahöllinni, lenti Elva í fyrsta sæti árskorunarinnar, ásamt Sveinbirni Magnússyni, en áskorunin hefur það að markmiði að skora á einstaklinga að breyta um lífstíl og er lögð áhersla á að gera hreyfingu og heilbrigt líferni að vana. Superform var stofnað af Sævari Inga Borgarssyni fyrir fólk á öllum aldri og er kennt í Sporthúsinu á Ásbrú. Áskorunin var nú haldin í sjötta skiptið og stóð yfir í tólf vikur.
Superform tonni léttara
Alls tóku 223 keppendur þátt í ár og samtals léttust þeir um tæplega eitt tonn eða 998 kíló. Elva Björk missti sjálf rúm þrettán kíló og hún segist hafa ákveðið að taka þátt í áskoruninni algjörlega á eigin forsendum, það hafi í byrjun ekki hvarflað að henni að hún gæti endað efst að leikslokum.
„Ég var hundrað prósent að gera þetta fyrir sjálfa mig. Ég er búin að vera í Superform síðan árið 2016 og hef nánast mætt í hverri viku síðan þá. Ég fór rólega af stað í þessu, æfði og borðaði bara góðan mat. Ég er algjör matgæðingur og það hjálpaði mér að finna hollari kost fyrir þann mat sem mér þykir bestur. Þetta er erfiðast fyrstu dagana en svo verður þetta auðveldara og manni fer að líða betur, andlega og líkamlega.“
Á lokametrum keppninnar nefndi þjálfari Elvu það við hana að hún ætti möguleika á því að ná langt svo hún ákvað að leggja sig alla fram síðasta mánuðinn. „Þá fóru hlutirnir að gerast,“ segir Elva sem æfði þá nánast upp á hvern dag og fór að meðaltali á átta æfingar í viku.
Skjaldkirtillinn stöðvaði hana ekki
Þegar áskorunin hófst var yngra barn Elvu sjö mánaða gamalt en hún var mjög dugleg að æfa á meðgöngunni, alveg fram á síðasta dag. Í byrjun árs greindist Elva hins vegar með latan skjaldkirtil sem hafði orsakað mikla þreytu og þá tók við langt ferli til að komast aftur á fulla ferð. „Ég þurfti að leggja mig mikið fram við að ná þessum árangri. Ég á í heilbrigðu sambandi við mat, ég minnkaði skammtastærðir, valdi hollari kostinn og pældi mikið í því hvaða næringu maturinn gaf mér. Við fáum víst bara einn líkama og það er svo mikilvægt að við hugsum vel um hann. Það er alls ekki nauðsynlegt að pæla í hitaeiningum til að ná árangri en ég geri það fyrir mig því ég hef bara svo gaman að því,“ segir hún og bætir því við að ferlið síðustu mánuði hafi verið virkilega lærdómsríkt.
Aðspurð hvernig hún hafi farið að því að halda fókus með tvö lítil börn og ýmislegt fleira á sinni könnu er Elva ekki lengi að svara því að svona sé þetta bara. „Þetta er í rauninni ekkert flókið. Ef þig langar að gera þetta þá muntu geta það. Ég hef alltaf verið í vaktavinnu og finnst langbest að fara þegar sonur minn er á leikskólanum og þá nýti ég mér stundum Krílabæ, barnapössunina í Sporthúsinu. Þetta er bara rútína og er partur af deginum mínum. Hugarfarið skiptir öllu máli,“ segir hún.
Mæðgurnar saman í ræktinni.
En hvað er það við Superform sem virðist heilla marga?
„Þú getur farið í Superform þó þú hafir aldrei stigið fæti inn í líkamsræktarstöð. Þú mætir og það er búið að setja upp geggjaða æfingu fyrir þig. Þú þarft ekkert að pæla, bara að fylgja leiðbeiningum. Það er skemmtilegt fólk með þér í tíma, mórallinn er góður og æfingarnar ótrúlega skemmtilegar. Andrúmsloftið er svo jákvætt og þjálfararnir eru geggjaðir. Ég myndi hiklaust mæla með þessu við fólk.“
Elva er mikið fyrir þolæfingar og segist líða hvað best þegar hún nær að keyra sig út. „Mér finnst ótrúlega gaman að sippa, hjóla og róa. Ég er eiginlega bara háð því að sigra sjálfa mig. Svo finnst mér eiginlega skemmtilegast þegar það eru fáar endurtekningar og maður getur lyft þungt.“ Upphýfingar eru hins vegar akkilesarhæll Elvu og henni þykir þær hundleiðinlegar að eigin sögn.
Fyrrum flugfreyja í fyrirtækjalögfræði
Elva er nýkomin úr fæðingarorlofi en hún hafði starfað sem flugfreyja hjá WOW air frá árinu 2016. Hún segir það hafa verið erfiðar fréttir að missa vinnuna enda hafi WOW verið dásamlegur vinnustaður. „Ég veit ekki hvort ég muni nokkurn tímann vinna hjá svona góðu fyrirtæki aftur. Það voru allir ótrúlega góðir vinir að vinna að sama markmiðinu en ég veit ég hafði ekkert um þetta að segja. Ég gat ekki stjórnað þessu. Það eina sem ég get gert er að vera jákvæð og hugsa að það sé eitthvað betra sem bíður mín.“
Fjölskyldan saman.
Elva er menntaður viðskiptafræðingur og segist alltaf hafa langað að starfa í tengslum við það. Hún er nú í diplómunámi á meistarastigi í fyrirtækjalögfræði og finnst gaman að hafa nóg að gera. „Tilfinningin að sigra sjálfa sig, að ná einhverju markmiði, er engu lík. Það koma auðvitað ógeðslega erfiðir dagar, eins og hjá öllum öðrum, en á móti koma dagar sem eru geggjaðir og maður lifir fyrir þá. Ef þú hefur áhuga á því sem þú ert að gera og sérð fyrir þér útkomuna þá verður þetta auðveldara.“
Elvu þótti vænt um starfið hjá WOWair.
Skrifað í skýin
Hreyfing og hollt mataræði gefur Elvu mikla orku. Henni líður betur og hún á auðveldara með að halda sér jákvæðari. „Mér finnst svo mikil neikvæðni í kringum okkur. Ég náði að snúa því við hjá sjálfri mér fyrir nokkrum árum síðan og það er svo mikið frelsi í því að sjá það góða í aðstæðunum sem maður lendir í. Það er allt í lagi að eiga erfiða daga en svo rífur maður sig í gang og minnir sig á það sem maður er þakklátur fyrir. Það koma alltaf bjartari tímar. Það er skrifað í skýin.“
-Sólborg Guðbrands