Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Háaleiti orðinn heilsuleikskóli
Föstudagur 11. júní 2010 kl. 16:01

Háaleiti orðinn heilsuleikskóli

Leikskólinn Háaleiti að Ásbrú í Reykjanesbæ fékk í dag viðurkenningu sem heilsuleikskóli. Af því tilefni fékk skólinn afhentan heilsufánann. Regína Rósa Harðardóttir leikskólastjóri Heilsuleikskólans Háaleitis tók við fánanum frá Unni Stefánsdóttur formanni Samtaka heilsuleikskóla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í tilefni dagsins tóku börnin á Háaleiti sig til og sungu fallegt sumarlag fyrir fjölmarga gesti leikskólans og að því loknu var börnunum boðið á hestbak.

Markmið heilsustefnunnar er fyrst og fremst að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu. Í dag eru heilsuleikskólar víðsvegar um landið sem hver um sig hefur sín einkenni og áherslur, auk þeirra þriggja þátta sem einkenna heilsustefnuna. Þessir þættir eru hreyfing, listsköpun og næring.

Í heilsustefnunni er unnið markvisst með hreyfingu og listsköpun á þann hátt að öll börn fá skipulagðar stundir með sérhæfðum kennurum 1-2 sinnum í viku. Þessar stundir eru skipulagðar fyrirfram og tengjast bæði þeim þáttum sem prófaðir eru í Heilsubók barnsins og áherslum leikskóla. Í næringu er lögð áhersla á hollt heimilisfæði þar sem markmiðið er að auka grænmetis og ávaxtaneyslu og að nota fitu, salt og sykur í hófi. Við samsetningu matseðla er tekið mið af markmiðum Lýðheilsustöðvar varðandi næringu barna.

Heilsubók barnsins er skráningartæki sem hjálpar okkur að ná settum markmiðum. Hún er fjórtán blaðsíður sem hafa að geyma útfærð skráningablöð varðandi ýmsar upplýsingar um barnið. Skráð er heilsufar, hæð og þyngd, félagsleg færni, úthald, þekking á litum og formum, hreyfifærni, næring og svefn og færni í listsköpun (þróun teikninga osfr.). Skráningin fer fram tvisvar sinnum á ári, haust og vor og er foreldrum boðið í viðtal í kjölfarið. Skráningin gerir okkur kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum.

Efri mynd: Regína Rósa Harðardóttir leikskólastjóri Heilsuleikskólans Háaleitis tók við viðurkenningu frá Unni Stefánsdóttur formanni Samtaka heilsuleikskóla.  Að neðan er mynd úr garðinum við Heilusleikskólann Háaleiti, þar sem hátíðin í dag fór fram.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson