H-vítamín!
Ég stóð og skoðaði bækur í bókabúðinni þegar ég sé konu labba í humátt til mín. Mér var brugðið, átti ég að þekkja hana, oh ég er stundum svo utan við mig, hvað skyldi hún vilja? Þar sem hún stóð fyrir framan mig og heilinn á mér var kominn á fullt í að skanna, greina og flokka: er þetta nemandi, gamall samstarfsfélagi, frænka fyrrverandi kærasta....... Konan truflaði hugsanir mínar: „mig langaði bara að segja þér hvað mér finnst þessi jakki sem þú ert í fallegur og hvað hann fer þér vel“. Ég var mjög hissa, þakkaði henni kærlega fyrir og með það var hún farin. Þetta var fyrir 3 árum og enn man ég hvað þessi kona gladdi mig mikið og hversu frábært mér fannst hjá henni að gefa algjörlega ókunnugri konu eins og mér svona hrós. Ef þú ert að lesa þetta: TAKK! Mikið er talað um d-vítamínskort þessa dagana en ég hef ekkert síður áhyggjur af h-vítamínskorti (h fyrir hrós).
Ég hef tekið mér þessa konu til fyrirmyndar og hrósa fólki þegar mér finnst það við hæfi, hvort sem ég þekki það eða ekki. Ég hef líka gert fullt af hrós-mistökum eins og að svara í sömu mynt þegar það var ekki viðeigandi. Þegar einhver segir:,,mikið lítur þú vel út“ þá langar manni að sjálfsögðu að segja til baka „takk og sömuleiðis“. Trúið mér, það á ekki alltaf við og ákveðin æfing sem felst í því að segja bara: þakka þér kærlega fyrir! Svo skiptir máli hvernig við hrósum. Ég hef gefið óskýr hrós: „mín bara að koma úr klippingu“ eða „þú mátt nú eiga það sem þú átt“ (uh, og er þá fullt sem þú átt ekki?). Ég á það til að hnýta aftan við hrós: „svakalega lítur þú vel út, allt annað að sjá þig“ (sem sagt: þú er flott núna en ert búin að vera eins og herfa sl. fimm ár) og geri stundum lítið úr því þegar ég fæ jákvæðar strokur og hrós („o, ég var bara heppin“ eða „hver sem er getur þetta“).
Við sem einstaklingar getum svo auðveldlega fjölgað jákvæðu augnablikunum í lífinu án nokkurs tilkostnaðar og lítillar fyrirhafnar. Ég hef t.d. ákveðið að byrja á því að skoða hvernig ég tala við fólk og um fólk, er ég stöðugt að gera grín að öðrum og benda einungis á það sem illa er gert og menga með slúðri? Þrátt fyrir að húmor sé mikilvægur, já lífsnauðsynlegur, þá þarf að fara vel með hann því niðurlægjandi húmor og ófara-gleði er eitthvað sem getur meitt. Stundum er nauðsynlegt að gagnrýna en segja þá að minnsta kosti fimm jákvæða hluti á móti einum neikvæðum því það neikvæða hefur margfalt meira vægi í huga þess sem tekur á móti. Í hjónaböndum þar sem hlutföllin eru einn á móti einum má búast við vandamálum þannig að ef það þarf að gagnrýna eitthvað í fari makans að vera með hrós tilbúið fyrir og eftir (samlokuaðferðin). Ég ætla að vera meðvitaðri um hvað gleður fólkið í kringum mig og gera eitthvað í því. Þegar við gleðjum aðra þá líður okkur sjálfum betur svo áhrifin eru tvöföld. Ætla að vera duglegri að gefa óvæntar gjafir: hlutir, ljóð, hrós, traust, hlustun og samvera er eitthvað sem getur verið ómetanleg gjöf.
Ég gerði misheppnaða tilraun til að baka pinna-kökur (cake-pops) um daginn en útkoman minnti helst á ógeðslega græna slímbolta á priki (valdi grænan glassúr ofan á allt annað). Ég deildi þessari reynslu með nemendum mínum og nokkrum dögum síðar stóð einn þeirra með nokkur stykki af þessum skemmtilegu kökum á tröppunum hjá mér (og í þetta skiptið voru þær eins og þær áttu að vera). Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu mikið þetta gladdi mig svo ég tali nú ekki um hvað þetta kom skemmtilega á óvart. Ef þú ert að lesa þetta cake-pop meistari - TAKK, þú ert æði!
Hrós kostar okkur ekki neitt og jákvæð samskipti þýða lengra, hamingjusamara og heilbrigðara líf! Segjum h-vítamínskorti stríð á hendur.
Rún vikunnar er Hagl:
Breyting, frelsi, hugvit og lausn eru hugtök tengd þessari rún. Hún bendir til brýnnar þarfar sálarinnar til að losa sig við höft hins veraldlega og upplifa æðri veruleika.
Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa