Gyðjur í góðum gír á Garðskaga
Það var mikið fjör um síðustu helgi á glæsilegu hóteli Lighthouse Inn þegar konur á öllum aldri, alls staðar af landinu, fjölmenntu á Garðskaga. Á Lighthouse Inn, sem er fjölskyldurekið hótel og hefur skorað mjög hátt á Trip Advisor, voru Gyðjurnar meðhöndlaðar sem drottningar af gestgjöfum hótelsins.
Marta Eiríksdóttir, gleðiþjálfi og dansjógakennari, stóð þarna fyrir árlegu helgarnámskeiði sínu sem hún nefnir Gyðjur og gleði. Þetta var í ellefta skipti sem Gyðjuhelgi var haldin en í fyrsta sinn á Suðurnesjum, áður fór hátíðin fram á Snæfellsnesi.
Gæðanámskeið fyrir konur
„Þetta var rosalega gaman og heppnaðist frábærlega. Við konurnar vorum í skýjunum eftir helgina. Lighthouse Inn passaði svo vel inn í þetta helgarnámskeið því við vildum upplifa lúxus og fengum það svo sannarlega í höndum fjölskyldunnar sem rekur hótelið,“ sagði Marta Eiríksdóttir þegar Víkurfréttir höfðu samband við hana til að forvitnast um Gyðjuhelgina.
„Gyðjuhelgin gengur út á að efla sig og styrkja með hreyfingu, jóga, dansi, góðu mataræði, hugleiðslu og hvíld. Við konur erum svona að endurskoða líf okkar þessa helgi, hvernig við viljum breyta okkur til þess að verða frískari, orkumeiri og glaðari. Þetta eru þaulreyndar aðferðir sem ég nota á svona námskeiði enda með margra ára reynslu í að byggja upp fólk. Ég er fyrirmyndin. „Ef ég get það, þá geta þær það!“ segi ég alltaf við þær.“
Breytingaskeið kvenna er áskorun um betra líf
„Konum sem byrja að finna fyrir breytingaskeiðinu finnst gott að hitta aðrar konur sem eru að upplifa svipaðar breytingar í líkamanum og fræða hver aðra. Við viljum auðvitað allar vera hressar og glaðar út lífið. Ég held hvatningarfyrirlestra með konunum, hristi upp í gömlu hegðunarmynstri hjá þeim og bendi þeim á leiðir til jákvæðrar hugþjálfunar, svo þær upplifi nýjar hliðar í sjálfri sér. Hver er sinnar gæfu smiður. Mér finnst æðislegt þegar ég sé augu kvenna ljóma og gleðina taka meira pláss í andliti þeirra. Þær yngjast um mörg ár eftir svona helgi og auðvitað almennt með meiri útivist og jóga finnst mér. Á svona helgarnámskeiði kynnumst við sjálfum okkur betur og eignumst nýjar vinkonur. Það er svo gaman hjá okkur.“
Flugmenn í eldhúsinu
Marta lætur ekki þar við sitja heldur ætlar hún að bjóða upp á eina námskeiðshelgi í viðbót á Garðskaga í sumar.
„Já, ég er með nýja jógahelgi fyrir konur síðustu helgina í júní. Þær gista á Lighthouse Inn og æfa jóga, dansjóga, hláturjóga, fá hvíld og slökun. Fara í gönguferðir og prófa sjóbað. Svo fá þær að sjálfsögðu girnilegan mat alla helgina, sem gæðakokkar hjá Lighthouse Inn útbúa fyrir þær. Það eru flugmennirnir og parið, Jenný María Unnarsdóttir og Viktor Gíslason, sem reiða fram dýrindis krásir, hvort sem það er morgunverður, hádegisverður eða kvöldverður. Sem sagt lúxusjógahelgi framundan fyrir þær konur sem vilja gefa sér þessa fallegu upplifun í sumargjöf,“ segir Marta að lokum og hvetur konur til að finna sig á Facebook ef þær vilja vita meira.
Marta Eiríksdóttir í góðum gír á Garðskaga.