Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Gvendur þribbi, ókrýndur keisari
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 5. september 2019 kl. 16:20

Gvendur þribbi, ókrýndur keisari

Eftirminnilegir bæjarbúar

Margir minnast Gvends þribba sem þótti kynlegur kvistur í gömlu Keflavík á árum áður. Þann 25. september árið 1911 eignaðist fátæk móðir að Fossi í Arnarfirði þríbura, Gvend þribba og tvö önnur börn en aðeins Gvendur lifði af fæðinguna og komst til fullorðinsára. Hann var skírður Guðmundur en ávallt kallaður Gvendur þribbi.

Skírður eftirnafni í höfuðið á kaupfélagsstjóra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á þessum tíma var Pétur Snæland kaupfélagsstjóri í Kaupfélaginu á Flateyri í Önundarfirði. Hann fann til með fátækri móðurinni og gaf henni að borða. Konan ákveður að skíra drenginn sem lifði, Guðmund Snæland, þessu sama eftirnafni með þakklæti og af virðingu við góða kaupfélagsstjórann.

Snyrtimenni sem angaði af Old spice

Þótt Gvendur væri yfirleitt ölvaður var hann ætíð mikið snyrtimenni og kurteis. Hann kallaði sig heimsfrægan munnhörpuleikara um allt Ísland. Í seinni tíð gekk hann yfirleitt um í nokkurs konar einkennisbúningi, sem gátu verið allskonar. Oft var hann klæddur síðum dökkum frakka með kasketi á höfði eða jakka með hatt á höfði. Hann bauðst til að spila á munnhörpu sína fyrir börn og fullorðna á götum Keflavíkur en hann átti nokkrar munnhörpur. Laglínan var ekkert allt of skýr og fólk áttaði sig ekki alltaf á því hvaða lag hann væri að spila. En þetta var góður kall og glaðlyndur, sjálfsagt eilítið sérvitur. Gvendur angaði af Old spice rakspíra, bæði úr munni og af andliti en á þessum tíma drukku menn jafnvel rakspíra eða bökunardropa til að drýgja aurinn. Hann tók í nefið og var með silfurhringi í stærri kantinum nánast á hverjum fingri.

Allir þekktu Gvend þribba

Valtýr Guðjónsson skrifaði grein í Tímanum, um Guðmund Snæland, Gvend þribba, í tilefni sextíu ára afmælis hans árið 1971, sem lýsir persónu hans vel;

„Guðmundur hefur ávallt verið barn síns tíma, síungur og fylgzt með nýjungum. Það var því ósköp eðlilegt, er innrás Vestfirðinga hófst til að skapa nýja og skemmtilegri Keflavik, að snillingurinn fylgdi líka í kjölfarið og flyttist hingað suður, þar sem hann hefur alið aldur síðan. Varla er til það smábarn, að það kannist ekki við þennan heiðursmann, sem þrátt fyrir erfið spor og erfiða sjúkralegu eftir válegt slys, heldur alltaf sínu striki, brosandi og hamingjusamur, og sýnir okkur hinum, sem ef til vill höfum verið eilítið heppnari í lífinu, hvernig sannur lífsspekingur á að lifa lífinu. Á þeim dögum, sem liðnir eru síðan þetta var ritað, hefur Guðmundur að minnsta kosti tvívegis hafnað brottför af leiksviði jarðlífsins, — hann hefur ekki að svo komnu viljað ganga eilífðarfaðminum endanlega á hönd, heldur skotið honum ref fyrir rass. Sjálfur er hann og hefur verið fús að rétta þeim hjálparhönd, sem hjálpar þurfa, eftir því sem kraftar leyfa: ekki sízt var hann góður að moka. Megi honum verða að ósk sinni um að lifa lengi á meðal okkar eins og hann langar mikið til. Og ef sá, sem á hæstum situr tróninum kynni að heyra þá frómu ósk, hver veit þá nema hann virði hana og uppfylli. Allir vilja nú samt komast heim. Og þegar G.Snæland klæðist búningi hefðarmanna lögregluforingja eða jafnvel hershöfðingja, því svo ber við, þá er það hann, göngumaður um stræti og torg.“

Ljós líðandi stundar

Gvendur þribbi sagði sjálfur eftirfarandi í tilefni afmælisins; „Mér þætti rétt, að þú létir þau tiðindi berast að ekki hafa allir keisarar átt þvi að fagna að vera Ijós líðandi stundar í eigin augum og allra þeirra sem líta rétt á hlutina né heldur því að verða sextugir.“ Gvendur þribbi dvaldi á elliheimilinu Hlévangi í Keflavík síðustu æviár sín og dó árið 1981, sjötugur að aldri. Aleigan hans komst fyrir í tveimur skókössum.

Örsýning verður á persónulegum munum úr eigu Gvends þribba í Duushúsum á Ljósanótt. Það er Byggðasafn Reykjanesbæjar sem stendur að örsýningunni.