Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Gunnhildur sýnir Leysingar í borginni
Miðvikudagur 1. júlí 2020 kl. 13:23

Gunnhildur sýnir Leysingar í borginni

Gunnhildur Þórðardóttir myndlistamaður opnar sýninguna Leysingar í SÍM salnum í Hafnarstræti föstudaginn 3. júlí kl. 16. Á sýningunni eru ný verk unnin 2019-20 bæði tví - og þrívíð verk.

Leysingar eru ástand þar sem náttúran er að undirbúa sig fyrir vorið og sumarið, þegar klakinn er að losna og aukin hlýindin verða. Jarðvegurinn mýkist og aukinn vöxtur verður í ám og vötnum. Það er einnig hægt að segja að maðurinn fari í leysingar þar sem við undirbúum okkur líka fyrir næstu árstíðir og erum meira úti í náttúrunni, þar sem myrkrið víkur fyrir birtunni og hlýjunni. Verkin verða til í leysingum eða leysast úr læðingi en einnig verða ljóð eftir höfund á sýningunni. Ljóðin eru hugleiðingar allt árið um kring um viðburði, persónur og náttúruna. Þetta eru rómantískar lýsingar á landslagi, manninum, menningu og hlutum. Sýningin stendur til 24. júlí og verður opin á skrifstofutíma SÍM milli kl.10-16 alla virka daga.

Gunnhildur lauk tvíhliða BA námi í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama háskóla árið 2006 og lauk viðbótardiploma í listkennslu við LHÍ á haustönn 2019. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars í Listasafni Reykjanesbæjar, Kirsuberjatrénu, í Suðsuðvestur, Flóru á Akureyri, í SÍM salnum, Slunkaríki, sal Íslenskrar grafíkur auk þess að taka þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Hafnarborg, Listasafni Reykjanesbæjar, Norræna húsinu,  002 gallerí og Tate Britain.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024