Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Föstudagur 8. mars 2002 kl. 09:59

Gunnar Eyjólfsson býður Suðurnesjamönnum tilboð á „Gestinn"

Í fyrra var Gunnar Eyjólfsson valinn bæjarlistamaður Reykjanesbæjar til fjögurra ára.. Gunnar hefur áhuga á því að láta Suðurnesjamenn njóta listar sinnar og hefur að því ákveðið að bjóða Suðurnesjamönnum sérkjör á leiksýninguna Gesturinn sem nú er sýnt í Borgarleikhúsinu en þar leikur Gunnar annað aðalhlutverka á móti Ingvari Sigurðssyni.

Leikhópurinn Þíbilja setur upp verkið í samvinnu við Borgarleikhúsið en það er eftir franska leikritahöfundinn Eric-Emmanuel Schmitt.
Leikritið gerist í Vínarborg árið 1938 í þann mund sem nasistar hafa tekið völdin í Austurríki og ofsóknir á hendur gyðinga eru hafnar. Gunnar leikur Sigmund Freud sem reynir að vera bjartsýnn og neitar að yfirgefa landið ásamt dóttur sinni Önnu. Þá fær hann skyndilega óvænta og furðulega heimsókn. Maður í kjólfötum, kaldhæðinn og léttur kemur inn um gluggann og heldur furðulegustu ræður. Hver er gesturinn? Vitfirringur? Galdramaður? Eða er hann sá sem hann segist vera: Sjálfur Guð?

Ingvar Sigurðsson leikur hinn dularfulla gest en aðrir leikarar eru Jóna Guðrún Jónsdóttir og Kristján Franklín Magnús. Þór Tulinius leikstýrir. Stígur Steinþórsson gerir leikmynd, Stefanía Adolfsdóttir búninga. Lárus Björnsson hannar lýsingu. Hljóðmynd gerir Baldur Már Arngrímsson. Þýðandi er Kristján Þórður Hrafnsson.

Gunnar segir að leikritið veki alla til umhugsunar um lífið og tilveruna og láti engan ósnortinn. „Það fjallar á mjög örlagaríkt tímabil í sögu Evrópu þegar gyðngar voru tekin fastir í Austurríki, safnað saman og settir í útrýmingarbúðir en nasistar gátu ekki snert frægasta gyðing i heimi sem var Sigmund Freud".

Gunnar er að fara æfa í nýju verki eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, það heitir „Rakstur" og gerist á rakarastofu í Reykjavík. Það verður sett upp í þjóðleikhúsinu næsta haust.

Nánari upplýsingar eru veittar í miðasölu Borgarleikhússins í síma 568-8000.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024