Gullý opnar sýningu í Listatorgi
Guðríður Halldórsdóttir, Gullý, opnar sýningu í sal Listatorgs næstkomandi laugardag þar sem hún sýnir verk unnin með olíulitum og blandaðri tækni.
Gullý segist alltaf hafa haft ánægju af því að hanna og skapa en 17 ára gömul stóð hún frammi fyrir vali á milli hárgreiðslu eða myndlistarskóla. Hárgreiðslan þótti öruggara lífsviðurværi.
Á árunum milli 1970-1980 byrjaði hún að nota blandaða tækni, ásamt því að teikna með kolum. Næstu árin á eftir teiknaði hún aðallega föt sem síðan spruttu fullsköpuð undan saumavélinni. Hugur hennar leitaði samt alltaf í myndlistina og undanfarin ár hefur hún sótt sér þekkingu með því að sækja ýmis myndlistarnámskeið.
Gullý hefur haldið sýningar í Reykjavík, Hafnarfirði og á Ljósanótt í Keflavík undanfarin þrjú ár.
Listatorg er opið alla daga frá klukkan 13:00 til 17:00. Sýningin opnar laugardaginn 12.júní og lýkur sunnudaginn 20. júní.